23.6.11

Sumarleysa?

Ég fylgist þessa dagana með hitatölum af Austurlandi með umtalsverðum hryllingi. Ef þetta snýst ekki þegar hundadagar byrja erum við að tala um 1993 all over again. Og það var nú ljóta skítasumarið. Og hví skyldi mér ekki vera sama, búandi suðvestanmegin í blíðunni? Jú, eini tíminn þar sem ég hef hugsað mér eitthvað til útivistar í sumar verður austanmegin á landinu, ca. seinnipartinn í júlí. Fúlt ef það verður bara slydda...

Annars er ég að reyna að finna vinnugírinn. Gengur samt ekkert sérstaklega. Það er allt að trufla mig. Til dæmis ætla ég til tannlæknis í dag, mér til skemmtunar og yndisauka, og ætla með litlu ormana í klippingu á morgun. Stóri ormurinn er í Danmörku síðan í gær og verður í viku. Rannsóknarskip spilar golfmót og fer á tónleika í dag, svo Móðurskip þarf að standa sig. Í gær var rúmlegur dagur. Vegna hjartsláttarrugls. Sosum viðbúið að svoleiðis tæki sig upp í kjölfar skólastressins.

Og nú: Anna í Grænuhlíð!

21.6.11

Ferðabrjál

Jæjah. Mjög hressandi viku útúr samhengi lokið. 10 dagar af einkahúmorskum félagsskap, námi og kjaftæði eru alveg skemmtilegir. En þá er að finna aftur þennan daglega riþma sem kemur hlutunum í verk. Hann er nú aldeilis ekki sjálfgefinn. Sérstaklega ekki þegar hann stendur ekki yfir nema í 2 vikur, og þá verður þrusað í sumarbústað í burtinu. Og fyrir þann tíma þarf bara allur fj... að gerast.

Annars er allt að gerast. Talaði við flórídanskan mann áður en ég fór sem er að safna í bók um íslenskt leikhús í nútímanum. Ef hann skrifar það sem ég vill get ég vonandi notað bókina hans eitthvað, komi hún út á næstu 1 - 2 árum. Næst á dagskrá er að hella sér í þýðingar og byrja á fyrirlestrinum fyrir ráðstefnuna í Japan. Önnur ráðstefna í London í september hefur líka verið staðfest og þá ætlar Rannsóknarskip með mér og úr því ætlum við að gera öldungis leikhúsfyllerí. Aukinheldur var áðurnefndur eiginmaður að fá styrk í Kómeníusarverkefni þannig að hann fer tvisvar til Tyrklands og einu sinni til Rúmeníu (eða öfugt) á næstu 2 árum. Þar að auki er skólinn hans að plana skólaheimsókn í byrjun júní að ári. Þá ætla ég með, ef ég mögulega hef efni á, og stunda almennan gleðskap á meðan þau skólaheimsækja. ferðaplan mitt næstu mánaða lítur þá svona út (alveg fyrir utan ferðir Rannsóknarskips eins síns liðs):

Júlí - Þurranes í Dölum (og mögulega smá Patró) - Eyjafjörður - Egilsstaðir (og smá Borgarfjörður E og örugglega víðar)
Ágúst - Osaka
September - London
Október - Færeyjar

Og svo verður alveg kyrrt um hríð, fyrir utan árlegt jólaflakk, þangað til:

Júní, Montpellier. Og svo líklega mögulega Skólinn sem ég var að koma af.

Og vitiði hvað? Mér finnst ekki einu sinni sérlega skemmtilegt að ferðast!
Geðbilun.