8.1.10

Hvenær ætli kreppan komi?

Þegar "Guð blessi Ísland" og allt það reið yfir í hittífyrra velti ég fyrir mér hvort ég þyrfti að skipta yfir í taubleyjur á yngsta barnið.
Hvort ég þyrfti hugsanlega að sauma þær sjálf?
Hversu lengi heimilistæki heimilisins myndu endast?
Hvort maður ætti að reyna að næla sér í kartöflugarð?
Og svoleiðis.
Sætti mig við algjört útlandaferðaleysi um ófyrirséða framtíð, kreppujól, og allt þetta. Á undraskömmum tíma, reyndar. Rifjaði bara upp hverjar grunnþarfirnar væru og sá ekki betur en að við hefðum fæði, klæði og húsaskjól. Og vonaði reyndar hálfpartinn að bankinn vildi vera svo vænn að taka íbúðina okkar og leigja okkur hana þar sem nokkuð fyrirsjáanleg er stækkunarþörf, svona einhverntíma, og leigusamningi er auðvelt að segja upp á meðan ljóst var að húsnæði færi ekki mikið að seljast næstu ár. Leit líka í kringum mig innan íbúðar og uppgötvaði að þó aldregi framar yrði versluð bók, geisladiskur, hljóð eða mynd, yrði samt til næg afþreying á heimilinu til að endast ævir allra heimilismanna á enda.

Svoleiðis var ég að hugsa í hrunvikunni.

Júpp, húsnæðislánin hafa hækkað heilan helling. En við erum í skilum (því miður?) og afþökkuðum meira að segja greiðslujöfnunina.

Frá áramótum í fyrra og fram á vor lifðum við á einu fæðingarorlofi af kennaralaunum og einu námsláni. Í sumar vorum við með eitt fæðingarorlof og hálfar atvinnuleysisbætur. Nú í haust höfum við látið ein grunnskólakennaralaun duga ásamt nokkrum tilfallandi þýðingaverkefnum. Ég fæ námslán núna eftir áramót, en tímdi ekki að taka þau fyrirfram.

Svona höfum við hagað okkur:
- Við erum að borga um hundraðogfimmtíuþúsund kall á mánuði af íbúðinni.
- Eitt barn á einkaleikskóla, kemst vonandi að hjá borginni, á leikskóla hins leikskólabarnsins, í haust.
- Annað barn er í tónlistarnámi.
- Ég er í tónlistarnámi.
- Við hjónin fórum í sitthvora skemmtiferðina til útlanda á síðasta ári og Smábátur fékk að fljóta með í aðra.
- Ég fór á leikritunarnámskeið síðasta sumar.
- Ísskápurinn okkar dó í miðju hruni og nýr var staðgreiddur örskömmu síðar.
- Baðherbergið var endurnýjað heilmikið, fjárfest í nýju klósetti, handlaug og allskonar skápafíneríi.
- Föt hafa verið versluð eftir þörfum, algjörlega eins og venjulega.
- Bækur og DVD-myndir (aðallega sjónvarpsseríur) hafa verið versluð eftir mismiklum þörfum og í óhófi, algjörlega eins og venjulega.

Auðvitað hefur verið bruðlað talsvert með sparifé á þessum tíma. En það er nú samt einhver slatti eftir af því. (Aðallega það sem er í gíslingu hjá Arion-banka sökum þversumleika útibússtjórans sem ég er nú að færa mig frá.) Aukinheldur sem við erum í 80 fermetra íbúð og á beygluðum (en skuldlausum) bíl. En það er hægt. Meira að segja tiltölulega auðvelt. Helst að herbergið hjá unglingnum þyrfti að stækka en hann lifir þetta alveg af fram til 2012. (En þá er fyrirhugað að athuga með einhvers konar híbýlaskipti.)

Vissulega höfum við talsverða þjálfun í að lifa af næstum engu. En samt er það nú einhvern veginn þannig að okkur finnst við aldrei neita okkur um neitt sem skiptir máli. Eins og sjá má á bruðltölum síðasta árs er hægt að skera heilmikið niður. Og ef ég skyldi nú næla mér í einhvern styrk til doktorsnáms einhverntíma á árinu verðum við á svo grænni grein að það hálfa væri nóg.

Þannig að þegar bæði stjórn og stjórnarandstaða koma fram þungar á brún og segja að nú sé allt á leiðinni endanlega lóðbeint til helvítis verð ég nú bara að spyrja eins og fáviti.

Hvenær kemur kreppan?

Að því sögðu. Við þurfum að saksækja græðgispúka úr atvinnulífi og pólitík sem skuldsettu okkur til helvítis. Hengja þá upp á tippunum og láta þá borga skuldir sínar, með öllu sem þeir eiga. Líka á Tortóla. Hreinsa upp spillinguna úr atvinnulífi og pólitík. Fá að sjá skýrslu rannsóknarnefndarinnar, algjörlega í heilu lagi og óritskoðaða.

Það er bara svo þreytandi að þurfa sífellt að vera að díla við glæpamenn og svíðinga. Kerfið sem verðlaunar fanta og siðblindingja verður að fara. Það er mjög einfalt. Það er líka alþjóðlegt. Þetta er ekki vandamál sem Íslendingar einir eiga við að glíma heldur hinn vestræni heimur eins og hann leggur sig.

En við erum enn ein ríkasta þjóð heims. Þrátt fyrir hrun og skuldir. Er ekki kominn tími til að slaka aðeins á í vælinu, taka til við að fella niður skuldir þeirra sem geta ekki borgað, og reyna svo að byggja hérna upp sæmilega heiðarlegt og réttlátt samfélag?

Hvernig væri?

6.1.10

Spjall

Við Freigátan ræðum gjarnan lífið og tilveruna til á meðan Hraðbátur sefur. Eftirfarandi samtalsbrot átti sér stað í gær.

Ég: Hefði forsetinn átt að staðfesta Æseif?

Freigáta: Veistu hvað? Forsepinn, hann dettur bara alltaf af hestinum!

Jahám.

Ég er annars á móti öllum.

Indífens fávitarnir með sína þjóðrembu, upphrópanir og himinhrópandi heimsku. Halda að við fáum endalaust fleiri sénsa á að semja um skuldirnar. Átta sig ekki á því að samkvæmt þessum samningi þurfum við að borga brotabrot, byrja eftir 7 ár og höfum endurskoðunarákvæði eru ef illa gengur hjá okkur. Líklegast fara Bretar og Hollendingar fram á það núna að við borgum allt, og strax.

Og ríkisstjórnin. Nú fer hér allt í voll, og blablabla. Fjármálalífið til helvítis. (Jiminn.) Frjálshyggjutruntan AGS fer!!! (Ég á nú eftir að sjá gallann við það.) Já, og enginn vill lána okkur pening!

Þó fyrr hefði verið, Æseifur eða ekki.
Stjórnkerfið veður spillinguna enn í axlir, hægri, vinstri, áfram og afturábak. Glæpamennirnir eiga viðskiptalífið. Vogunarsjóðir bankana. Enginn verður látinn taka ábyrgð á neinu næstu 80 árin.

Alkinn Ísland er ekki kominn á botninn. Hér er allt vaðandi í svo djúpstæðri vitleysu og óráðsíu að engin stjórnarskipti, engir samningar eða rannsóknir, innanlands né erlendis, duga til að koma hérna upp samfélagi sem byggir á sæmilega réttlátum lögum, stjórnarfari og, ekki síst, hugarfari.

Það þarf að hætta að lána Alkanum Íslandi pening. Þó fyrr hefði verið. Honum fyrir bestu.

Við þurfum að fara að sjá almennilega kreppu hérna. Þá fyrst verður kannski hægt að byrja að moka flórinn.

4.1.10

Ísland er í lagi!

En mikið hroðalega er að verða leiðinlegt að sjá mismunandi spekinga velta fyrir sér hvað gerist huxanlega kannski ef... eða ekki ef... og allir giska. Eigum við ekki bara að sjá til? Er gúrka eður hvað?

Nei, bíddu nú við, Jemen.
Fokkíng Jemen!!!

Er ekki ansi langt seilst í atvinnubótavinnu fyrir heimska Bandaríkjamenn að brytja niður enn eina þjóð, og byggja alltsaman á þjóðsögunni um Al Kaeda?

Er ekki í lagi?

Þeir eru líklega búnir að gefast upp á Íran. Þeir gætu átt kjarnorkuvopn. Enginn helli í Mið-Austurlöndum nema hann eigi svoleiðis. Allavega kannski. Ekki Jemenar. Þeir eiga Ekkert. Enginn veit neitt um þá. Hægt að ljúga hverju sem er. Vorkennir þessu enginn. Berjum nú aðeins á þeim til að beina athyglinni frá veseninu heima fyrir.

Obama? Siríuslí?
Ég er við að snartjúllast. Búin að fá meira en nóg af Bandaríkjunum. Greinilega alveg sama hver forsetinn er eða hvernig hann er á litinn í þessu skítalandi.

3.1.10

Grýla

Freigátan: Þetta er Grýla.

Ég: Nú?

Freigátan: Já. Hún er með barn.

Ég: Hvað er hún að gera með barn?

Freigáta: Hún ætlar að setja það í poka!


Alveg ný söguskýring á myndum af Maríu með Jesúbarnið...