17.9.04

Tíminn er merkileg skepna
Hafiði tekið eftir því að þegar maður hefur allt of mikið að gera, þá verður manni miklu meira úr verki með alla skapaða hluti?

Núna eru til dæmis að ná saman hjá mér tvö brjáluð leikhúsverkefni, auk þess sem ég er að reyna að ná einhverri fótfestu í nýrri vinnu (sem gengur misjafnlega) og ég sé satt að segja ekki fram á að hitta sjónvörp mikið næstu vikur, eða rúmið mitt.
Er hins vegar búin að taka upp hið stórniðuga skipulag Spánverja að hafa síestu á milli klukkan 1 og 5 á daginn.

Sá tími er til margra hluta nytsamlegur og ég er t.d. farin að taka upp á þeirri undarlegu nýbreytni að setjast niður og vinna í hálfkláruðu leikritunum mínum. Það er nú ekki lítið gaman og löngu kominn tími til...

Svo skemmtilega vill til að einn tímanýtnasti maður sem ég þekki á einmitt afmæli í dag, í miðri sláturtíð og er það viðeigandi.
Til hamingju pabbi minn, myndi slátra nokkrum Austurlömbum í dag, þér til heiðurs, ef ég ætti úti kindur...

16.9.04

Góðir Íslendingar,
til hamingju með nýja forsætisráðherrann!
Líður ekki öllum miklu betur núna?
Er þetta ekki bara allt annað líf?

Bráðum kemur eflaust mikklu betri tíð fyrir vikið með blóm í haga, betri bílum, yngri konum, eldra viskí og meiri péning.

Vona bara að álfurinn hann Halldór verði okkur ekki til skammar og að utanríkiströllið Davíð fari nú ekki alveg yfirum í viðleitni sinni við að styrkja stjórnmálasamband okkar við tippaétandi einræðisherrann í Miðbaugs-Gíneu.

Annars er íbúðaleitin sem ég var búin að hóta endalausri bloggun um í biðstöðu á meðan beðið er örlítið meira peningaflæðis. Og um leið fer náttúrulega ekki hjá því að draumaíbúðin verði alltaf flottari og flottari, staðsetning verður alltaf afmarkaðri og afmarkaðri, og svo eru kröfur farnar að stangast á. Bráðum þarf ég að sætta mig við þá staðreynd að baðherbergi í Hlíðunum eru ekki stór.

Það endar meððessu... Stefni á eigið húsnæði fyrir 2010.

15.9.04

Þetta með peningana er dularfullt.

Nú er verið að lækka vexti á húsnæðislánum hægri og vinstri. Þar sem ég á ekki hús þá geri ég mér enga grein fyrir því hvað það þýðir, nema þá eitthvað á þá leið að einhverjir hljóta að vera að græða minni peninga.

Svo er ég að fara að taka einhvers konar húsnæðislán, og þá eignast ég fullt af ímynduðum peningum.

Það virðist líka vera nóg af peningum á Íslandi, þrátt fyrir að undanfarin ár höfum við aðeins selt til útlanda einhverjar örfáar fisklufsur en á sama tíma flutt inn ósköpin öll af gallabuxum.

Eru kannski allir peningar í heiminum orðnir ímyndaðir? Er kannski nóg að ákveða að maður eigi fullt, og þá á maður það.

Það væri nú gaman að setjast niður og telja og gá hversu margar krónur í raun og veru eru í heiminum.

12.9.04

Jahjarna. Einhverjir 4 dagar án bloggs! Þetta er náttlega algjörlega óafsakanlegt.

Skipulagið fór bara einhvern veginn allt í fokk. Það er helst að frétta að ég er alveg dragúldin og geðvond. Átti langþráð frí í dag, en það er ennþá fyrir hádegi og ég er alltaf að muna eftir fleiru og fleiru sem hefði helst þurft að gerast í gær. Er að verða hreint vitlaus.

Fundur í samstarfsverkefni Hugleix og Leikfélax Kópavox í gær, sem gengur undir vinnuheitinu M&M og virðist það ætla að verða spennandi verkefni.

Og í gær féll niður sýning á Beiskum tárum Petru von Kant sökum miðapantanaleysis. Hvað er eiginlega í gangi? Hafa menn bara engan áhuga á þýskum búksorgardrömum frá 8. áratugnum, eða hvað? (Hihhh...) Allavega, síðustu sýningar eru um næstu helgi. Og það er dómur um okkur í Mogganum í dag, hef ég heyrt, veit ekki hvort ég á að leggja að fólki að lesa hann þar sem ég hef ekki séð hann sjálf.

Allavega, úld, úld, geðvonsk, geðvonsk, best að gera eitthvað.
Grrrr...