28.9.11

Eftir Astrónómíunni!

Jæja. Stjörnuspekin og Zenið segja mér að ég sjái óvenjuvel hvað skiptir máli (og hvað ekki) í dag. Tarrottið segir að nú fari að bresta á með þvílíkri velgengni og hamingju. (Og hamingju hversdagsleikans, sem væri nú gaman að sjá.) Þá ætti ég alveg að vita það, innst inni, hvort er mikilvægara að tékka á teppahreinsivél fyrir sófana í dag eða hringja í mennina sem eru með tölvuna í eilífðarviðgerð. Já, og hvort er mikilvægara að hanga á internetinu og fylgjast með mótmælunum á Wall Street eða fara að grípa réttri hendi í raðskatið á sér og skrifa doktorsritgerð! Já, það þarf nú líklega ekki neitt sérstaklega góðan og gáfulegan dag til að fatta útúr þessu.

Góðar fréttir, líka, að það er búið að laga kaffivélina! Í gærmorgun gerðust hreinlega engin hugvísindi. Alvarlegt mál.

Annars var Lundúnaferðin skemmtileg og gagnleg. Ég frétti af nokkrum greinum og bókum sem ég ætti að lesa... hitti nokkrar akademískar rokkstjörnur og svona. Sagði öllum frá Besta flokknum. Öllum fannst það nú fyndið... Næst þegar ég fer á ráðstefnu þarf ég að vera með eitthvað reglulega uppskrúfað og fræðilegt. Svona sem gæti drepið hest. Annars tekur fræðasamfélagið aldrei mark á mér.

Svo lítur bara út fyrir stuttverkahátíð í Færeyjum eftir ca 3 vikur! Hvar ég ætla að verða með Ljóð fyrir 9 kjóla og eitthvað fleira, kannski, svona. Þetta verður ferlega lítil og falleg hátíð, í Nólsoy. Skoðunarferð í Götu á sunnudeginum. Þó ég sé með ferðaþreytu þá er nú aldrei neitt verulega leiðinlegt að koma til Færeyja. Og prógrammið verður sjálfsagt ekkert brjálæðislega stíft. Svo ég er að vona að það verði smá afslappelsi í þessu.

Svo er einn leikhúsfræðinjarðískur vinur minn að flytja frá New York til London og þarf að millilenda á Íslandi í heilan sólarhring. Honum þótti það nú frekar skítt, þar til ég sagðist myndu ættleiða hann, hafa hann heima hjá mér (unglingurinn verður akkúrat í ferðalagi) og svo ætla ég að sýna honum mótmæli og A Band on Stage, sem verður á Rósenberg um kvöldið. Jafnvel eitthvað leikhús, ef nenna verður. Ég hugsa að þetta verði hin besta skemmtan. Ég hef oft hugsað sem svo að þessi náungi hefði nú gaman af að hitta fjölskylduna mína og leikhúsgengið. Gaman-gaman.

Og þar sem "hugsun mín er óvenjuskýr" og ég veit alveg hvað skiptir máli, er best að vinda sér í yrðingarammana. (Já, þeir eru til. Ég skóp þá. Eða er að því.)

Byltingin lifi!