11.8.06

Af hjólreiðum og Máfum

Byrjum á því fyrrnefnda:

1. Auðveldara er að hjóla niður en upp.
2. Erfiðara er að hjóla en labba, en maður verður fljótari og sveittari...
3. ...og fær killer rass á því.
4. Betra er að hjóla á nýju hjóli en gömlu sem hefur bara einn gír og lætur ískra svo hátt í bremsunum á sér að maður lætur frekar vaða á næstu gömlu konu en að nota þær.

Þess vegna fjárfesti ég í hjólhesti í gær. Hann er fagurgljáandi, en fótbremsunum fórnaði ég fyrir risabreiðan hnakk sem allur rassinn á mér kemst uppá. Á því er líka 21 gír, sem ég komst að á leið í vinnuna að virkar reyndar misvel. Þard sennilega að fara strax með fákinn í "uppherðingu". (Já, ég er búin að læra hjólamál.) En það var einmitt innifalið. Þá er bara að æfa sig aðeins meira til þess að Freigátan geti farið að fá barnastól aftaná. Svo er Rannsóknarskipið að fara að fá hjól ofan úr Borgarfirði, svo þá getur fjölskyldan farið út að hjóla saman eins og í auglýsingu frá Umferðarráði.

Annars fór ég að sjá Máfinn hjá Sýnurum í Elliðaárdalnum í gærkvöldi. Það var bæði blautt og kalt, en maður tók nú minna eftir því þar sem menn voru sífellt að girða niður um sig á sviðinu. Skemmtilegur Tsjekkoff þetta, vafalaust það sem höfundur hafði í huga þegar hann skrifaði þennan gamanleik. Hið besta mál. Og svipirnir voru einnig skemmtilegir á útivistarfólki sem leið átti framjá og sá Sýnara, oftar en ekki með niðrum sig, í miðju rjóðri.

Og mamma mín á afmæli í dag. Til hamingju með það. Svo ætlar hún að koma suður eftir viku og skoða okkur aðeins áður en hún fer til fundar við föður minn, nemandann, í nágrenni Bifrastar.

9.8.06

Stríð

Ég á að þykjast vera orðin fullorðin. Hafa áhuga á verðbréfamarkaðnum og hvaða bílaframleiðendur eru að gera tilraunir með metangas. Velta fyrir mér af einhverri alvöru hvernig veðrið verður á morgun. En stundum verð ég samt aldrei eldri en fimm ára.

Það er þegar er stríð. Þegar "nýjustu tölur" af mannfalli koma í fréttunum á hverju kvöldi, rétt á undan úrslitunum í Landsbankadeildinni. Þá sit ég bara með tárin í augunum og skil ekki hvað fólkið í útlöndum er að hugsa. Þá var líka verið að drepa börnin í Líbanon. Ég held það hafi nú ekki leyst neinn sérstakan vanda. Bara fækkað þeim. Valdið heilum haug af þjáningum. Og þegar verið er að drepa fólk "óvart", detta mér í hug lokalínurnar úr ljóði sem ég var að vinna með einhverntíma í barnaskóla, Slysaskot í Palestínu:

Fyrirgefðu, anginn minn,
ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

8.8.06

Afrek daxins:

Hjólaði í vinnuna! Rétt komst á áfangastað, másandi og blásandi. Man þegar þetta var nú auðveldasti og þægilegasti ferðamáti í heimi. Er hreint ekki í jafngóðu formi og ég var þegar ég var 10 ára. Verður vonandi auðveldara að fara heim, niðrímót. Sé að þetta er samt fínasta leið til að koma mér í form, huxa að ég fjárfesti í hjólhesti. Ekki hjólhesti systur minnar, samt, þar sem hann býr ekki yfir keðjuhlíf og ég hef ekki hug á að hjóla gegnum miðbæinn tvisvar á dag með buxurnar ofan í sokkunum. (Mér er sama þó það sé endurkomið í tísku.) Svo er líka hnakkurinn á fáknum þannig gerður að hann fer hálfa leið upp í skeifugörn þegar maður sest á hann, en rasskinnarnar lafa sitthvorumegin útaf, hálfa leið niður í götu. Ekki sexí. Held við Ásta könnum heldur 2 fyrir 1 tilboð á alminilegum kjellingahjólum í Hagkaup. Með fótbremsu og rassbreiðum hnakk.

Er búin að reyna að átta mig í vinnunni. Morguninn er nú eiginlega búinn að fara í tölvumál. (Tölvugaldrarinn okkar náttlega í Færeyjum.) Er orðin næstum ófær á Makka og er búin að gera stanslausar vítleysur. T.d. slekkur maður alltaf á forritinu sem maður er í, á afkvæmum Apple, þegar maður reynir að gera attmerki eins og það er gert á PC. Þetta held ég að annarhvor framleiðandinn hafi gert af tómum skepnuskap. Bastarðar.

7.8.06

Fæðingarorlof gert upp.

Best ég tjái mig um fordóma mína, og vanrætingu þeirra, um móðurhlutverkið, fyrstu mánuðina. Ég hálfbjóst við að ég fengi engan svefn í tvö ár, barnið yrði sígrátandi, með í maganum, eyrunum eða einhverju óskilgreindu. Hélt ég yrði stanslaust að setja í þvottavél, allt væri alltaf í drasli og að ég ætti mér ekki líf utan húsverka. Þessutan (og þessvegna) átti ég alveg eins von á að einangrast algjörlega félaxlega og sjá ekki framan í nokkurn utan fjölskyldu minnar á meðan á barneignaleyfi stæði, hið minnsta.

Ekki veit ég hvort þarna er barnafólki sem ég þekki um þessa svartsýni að kenna. Eða kannski mömmu minn? Og líklega á ég mjög auðvelt barn, allavega er varla hægt að segja að Freigátunni Tvítönn hafi orðið misdægurt.

En ég hef jafnan verið sæmilega sofin. Heimilisverkin hafa ekki vaxið neitt sérstaklega mikið, mér hafa reyndar alltaf leiðst þau frekar, en það hefur ekkert versnað. Hvað félaxlífið varðar þá fór ég nú fyrst í leikhús þegar Freigátan var 10 daga gömul, á stjórnarfund í Hugleik daginn eftir, á höfundafund þegar hún var þriggja vikna (og þá kom hún með), byrjaði að leikstýra þegar hún var sex vikna (í stofunni heima hjá mér með barnið á brjósti). Og þar fram eftir götunum. Hef altént ekki fundið fyrir einangrun af neinu tagi. Kynntist meira að segja haug af kjellingum í grindhvalasundinu sem ég er enn að hitta. Félaxlífið hefur nú bara sjaldan verið blómlegra. Svo móðerni ungabarns er hreint ekki sú martröð sem ég hélt.

(Þess má reyndar geta að mínar verstu martraðir um meðgöngu og fæðingu rættust með vöxtum.)

En áður var ég náttlega búin að fá Smábát í forgjöf. Stakk mér beint á hausinn með að ala upp hálffullorðinn einstakling. Og mér finnst það nú eiginlega líka vera að ganga vonum framar. Vissulega fæ ég stundum taugaveiklunarköst yfir uppeldinu. Rannsóknarskipi finnst ég stundum vanda fyrir mér málin með óþarfa áhyggjum, en hann ætti nú bara að sjá inn í hausinn á mér þegar ég obsessa yfir uppeldismálum. En Smábátur hefur mjög húsverkandi áhrif á mig. Hann kom heim í dag, og ég er búin að húsverka þvílíkt. Ég er jafnan latari þegar hann er í útláni.

Semsagt, eiginlega frekar ísípísí, og þar að auki gaman. Börnin mín eru æði. Svo ekki sé minnst á Rannsóknarskip, sem er auðvitað í sérflokki og gerir þetta að sjálfsögðu alltsaman svo dásamlegt, auðvelt og lovlí.

Og á morgun er vinna. Fæðingarorlof eru ekki jafnlöng og maður heldur.

6.8.06

Bannað?

Heyrði einhverja páverfrauku í fréttunum segja að það væri BANNAÐ að mótmæla. Erum við nú orðin fasistaríkið Ísland? Ég hélt það stæði nú einmitt alveg einstaklega greinilega í stjórnarskránni að það væri gífurlega leyfilegt. Allavega hélt ég að mótmælendur mættu alveg tjalda hvar sem þeim sýndist á hálendinu, svo framarlega sem þeir færu sér ekki á voða. Nú finnst mér löggan vera aðeins komin yfir strikið.

Annars, hér lítur ekki út fyrir að hér hafi nokkurn tíma verið etið eða drukkið. En það var sko heldur betur gert í gær. Sýnishorn af systkinahópum okkar Rannsóknarskips komu saman, átu, drukku og voru glöð. Almenn þynnka ríkir á heimilinu í dag og ég nenni ómögulega að prufukeyra hjólhest systur minnar fyrr en á morgun.

Á téðan morgun er líka von á Smábát heim í heiðardalinn og þá fer nú allt að færast í eðlilegt horf fyrir veturinn. Og á þriðjudaginn verð ég alein í vinnuni. Spænende.