30.12.06

Árið 2006

Þá er það pistillinn.

Það bar helst til tíðinda að á árinu eignaðist ég barn (28. janúar), gifti mig (þann 8. apríl og skírði barnið Gyðu í leiðinni) og keypti mér íbúð (í október, flutti inn í nóvember). Hafa þetta allt verið mestu hamingju viðburðir (ja, nema kannski fæðing og flutningar, svona rétt á meðan.) Var í fæðingarorlofi alveg fram í ágúst en náði samt ekki að gera helminginn af því sem ég ætlaði að gera í því. Saumaði gardínur fyrir jólin, en bakaði bara eina sort. Gerði sem sagt allt það mikilvægasta sem hægt er að gera í einka- og fjölskyldulífinu á einu ári. Ekki nema von að maður sé svolítið sybbin.

Allavega, fjölskyldan sem nú telur fjóra einstaklinga hefur hafið búsetu á Ránargötunni við mikinn fögnuð allra viðstaddra. Segir mér svo hugur um að þar verði taumlaus hamingja ríkjandi á næstunni. Allir eru kátir, glaðir, hraustir og horfa með óskemmandi bjartsýni til framtíðar.

Hvað fleira?

Já, ég skrifaði leikrit fyrir Leikfélag Fljótsdalshéraðs. Það var sýnt í nóvember. Og sýndist sitt hverjum.
Skrauf líka nokkra einþáttunga. Einn var sýndur í októberprógrammi Hugleix. Sýndist mér vel.
Einnig var frumfluttur við sama tækifæri fyrsti einþáttungur Rannsóknarskips og Smábátur þreytti frumraun sína sem Hugleikari. Sjálf leikstýrði ég einhverjum tveimur einþáttungum, og það var gaman. Og fyrirliggjandi er allur heimurinn.

Nú ætlum við að eyða áramótum á Egilsstöðum. Erum búin að vera á ættaróðali Rannsóknarskips fyrir norðan í góðu yfirlæti, verðum hér til annars janúars og förum þá aftur norðurum, sækjum Smábát í föðurhús sín, og heim. Svo, hér hef ég um 3 daga til að hitta allar vinkonurnar og skoða alla nýlega fædda afkomendur þeirra, sem og hitta ömmur, frænkur, og allra handa skyldmenni til að sína litlu Freigátuna, þannig að ekki er til setu boðið.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

24.12.06

Jólakort ársinsMeð þökk fyrir allt gott á árinu.
Sigga Lára, Árni, Róbert og Gyða