4.8.09

2007 / 2009

Allt hefur hækkað. Nema laun og námslán. Þau standa í stað eða lækka. Allir eru að verða atvinnulausir, 3 fyrirtæki fara á hausinn á dag ríki og bæir djöflast í að skera niður, á vitlausum stöðum, auðvitað, og halda uppi ónýtum fyrirtækjabáknum sem einhverra hluta vegna mega ekki fara á hausinn. Allt stefnir í eilífan forarpytt erlendra skulda sem við komumst aldrei aldrei aldrei uppúr. Og krónan sekkur til botns og hver einasti hlutur innfluttur kostar handlegg og fótlegg. Persónulega hjá mér? Lánin hafa hækkað, launin hafa lækkað og íbúðin okkar stendur líklega engan veginn undir veðinu.

En fólk hefur skoðanir. Þær eru margar og misjafnar, en menn hamast við að lesa og skrifa. Tjá sig. Benda á lausnir, skamma þá sem eiga sök. Vilja ganga í EB eða ekki, samþykkja Icesave, eða ekki. Menn hrekja gömlu valdabröltarana aftur inn í skápana með sín lögbönn á fjölmiðla og gera stjórnarbyltingar með búsáhöldum. Fara í framboð, skipuleggja aðgerðir, skrifa reiðar greinar. Mæta á mótmæli.

Þegar almenningur er sammála stjórnar hann þjóðfélaginu.

Ég elska Ísland 2009.
Í græðgisgeðveikinni 2007 hefði ég getað hugsað mér að flytja til Noregs.

2.8.09

Lögin sem sýsli gleymdi:

Ábending frá föður vorum:

Ég er þeirrar skoðunar á lögreglustjóri hafi gleymt að líta til laga um ársreikninga, þegar hann samþykkti lögbannskröfu Kaupþingsmanna. Nafnbirting kann hins vegar að vera álitamál, en þar sem viðkomandi stofnun er í eigu almennings og áhætta hans mjög mikil hlýtur slík birting að vera eðlileg krafa.

Samkvæmt neðanskráðum lagatilvitnunum er skylt að greina frá því í reikningsskilum hversu háar fjárhæðir fyrirtæki lánar eigendum sínum. Ég sé því ekki að lagaákvæði um bankaleynd nái til slíkra hluta, þar sem í hlut eiga eigendur, en ekki viðskiptamenn bankanna.

Sigurjón Bjarnason

Lög um ársreikninga nr. 3/2006:

53. gr. Tilgreina skal fjárhæðir lána, svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar sem veittar hafa verið félagsaðilum eða stjórnendum félags eða móðurfélags þess vegna tengsla þessara aðila við félögin, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála.
http://www.althingi.is/lagas/hk.jpgÁkvæði 1. mgr. eiga einnig við gagnvart einstaklingum, nátengdum þeim sem þar eru taldir.

Lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002

58. gr. Þagnarskylda.
http://www.althingi.is/lagas/hk.jpgStjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
http://www.althingi.is/lagas/hk.jpgSá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.