8.9.04

Átti alltaf eftir að setja hlekk á síðuna þar sem innihöld og athugasemdir við þættina Sögumenn samtímans birtust í sumar. Hér er hann.

Annars bara, rignir og rignir. Hálfviðgerða þakið á handritasafninu lekur og lekur. Og ég nenni ekki með bílinn í viðgerð og skoðun af því að ég þarf alltaf að vera að nota hann.

Nú er sýning í kvöld þannig að ég kem ekki til með að vita fyrirfram hvað verður í DV/Fréttablaðinu á morgun. Jæks.

Vandlifað í þessum heimi.

7.9.04

Tilkynningar

Útvarpsþátturinn Sögumenn samtímans er kominn á einhvers konar segulþráð. Þetta verður síðasta afrek mitt í þeirri ágætu þáttaröð. Allir sem nenna leggi við hlustir á rás 1 um klukkan 18.35 á laugardaginn nk., þann 11. september. (Og þið megið getta einu sinni um hvað þátturinn er.)

Svo eru sýningar á Beisk tár Petru von Kant í gangi. Nú eru aðeins 5 sýningar eftir og þar af er orðið uppselt á eina þannig að menn þurfa að fara að drífa sig ef þeir ætla að sjá. Sýningarnar sem eftir eru, eru:

Miðvikudag 8.9. kl. 20.00 - Uppselt
Föstudag 10.9. kl. 20.00
Laugardag 11.9. kl. 20.00
Föstudag 17.9. kl. 20.00
Laugardag 18.9. kl. 20.00

Sýnt er í gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði (við tjörnina) og miðapantanir eru í síma 848 0475. Miðinn kostar skitinn 1000 kall og sýningin tekur rúman klukkutíma í flutningi, svo þetta fer ekkert með allt kvöldið. Svo er ég komin í kvöldvinnu þannig að þetta gæti orðið síðasti séns til að sjá mig dingla mér á sviði, allavega á næstunni. Svo drífa sig nú!

Þá held ég að ekki sé fleira sem ég geri á opinberum vettvangi þessa vikuna, enda er þetta nú slatti..

Ég er að huxa um að skoða eina íbúð í dag. Um að gera að gera sollis í þessari líka haugarigningu, maður sér þá hvort hún lekur.

6.9.04

Að Byrja á Byrjuninni.
Jæja, þá er að fara að reyna að eyða peningunum sem maður er að fara að eignast. Næsta mál á daxkrá: Að skoða íbúðir í eigin persónu, í stað þess að liggja bara slefandi yfir myndunum á netinu.

Ætla að byrja á að skoða það sem mér líst á sem er:
a) í austurbænum
b) ódýrara en 9 milljónir

Sá flokkur samanstendur af kjöllurum og hanabjálkum, en það er kannski bara allt í lagi. Hver þarf svo sem að sjá út? Er kannski bara bjánagangur að vilja endilega geta staðið uppréttur heima hjá sér? Frá grundvallarkröfu um baðkar vík ég nú samt ekki!

Þetta er nú örugglega alveg illa leiðinlegur prósess. Enda sennilega á að kaupa það fyrsta sem ég sé, bara út úr leiðindum.

Af hverju fást annars íbúðir ekki bara í venjulegum sjoppum? Maður ætti bara að geta labbað inn í Svarta Svaninn og sagt:
"Hurru, ég ætla að fá tvo pakka af Salemi og eina íbúð með baðkari. Altílæibleess."
Þá er frumsýning afstaðin, það er nú aldeilis fínt, hún heppnaðist ágætlega, held ég. Hörður er reyndar búinn að slátra frammistöðu minni á leiklistarvefnum, en þá ber manni náttlega heilög skylda til að segja sem svo "Iss, hann hefur ekkert vit á þessu".

Og, lífsgæðakapphlaupið hefur loxins náð í skottið á mér. Kláraði eitt yfirlestrarverkefni fyrir Islingua fyrir helgi, er að fara í stúdíó á eftir að klára Sögumenn samtímans fyrir næstu helgi og svo er ég komin með aukavinnu við að prófarkalesa DV, seinniparta kvöld og helgar.

Sem sagt, bæbæ bóheimlíf. Nú fer ég að velta fyrir mér húsnæðiskaupum fyrir alvöru og hugsa um hluti eins og að fara með bílinn í skoðun og eitthvað. Láta mig langa í sófasett og ákveðnar tegundir af gólfmoppum fárast yfir verði á þvottavélum, svo eitthvað sé nefnt.

En þar sem nýja vinnan er staðsett í Hlíðunum þá fer ég að horfa meira á 105 svæðið íbúðapælingunum. Er jafnvel að velta fyrir mér að skoða eina sem er eiginlega bara alveg á Hlemmi... og á jarðhæð í ofanálag. Náttlega alveg agaleg staðsetning... og þó, rétt hjá löggustöðinni!