20.9.08

Svei mér þá

Lagðist aðeins yfir Glettingsmál í dag. Ótrúlega heillandi. 
Í tilefni þess að í dag ætlaði ég að reyna að koma öllu í umbrot. Og það er bara merkilega lítið eftir! (Samt soldið.) Tóxt í öllu falli að senda erindi í allar áttir, svo nú held ég að ég sé að verða búin að geta allt sem ég get. Svo er bara að taka eina spýtu í einu og henda í umbrotsmanninn, eftir því sem þær berast. Stíga og snúa.

Rannsóknarskip er búinn að vera einstaklega duglegur að halda barnaskaranum í skefjum í dag svo Móðurskipið geti setið við tölvuna, gruflað, símað og tölvupóstað. Og nú er hann með allan ungahópinn í Kringlunni.
Og kríurnar flippa.

En fyrir dugnaðinn fæ ég að bregða mér af bæ og ætla að gera mér ferð á Rósenberg hinn þriðja og sækja þar tónleika með Túpílökum. Þetta verður mín fyrsta heimsókn á þriðja Rósenberginn. Og ég ætla að passa mig vandlega að bindast þeim stað ekki of sterkum böndum. Enda ekki á stefnuskránni að fara að venja komur mínar á öldurhús. En sami pöbburinn skal sko hreint ekki fá að brenna frá mér í þriðja sinn.
Ekkisens ekki.

Og disk úr hvaða leikriti var ég að hlusta á við samningu þessarar færslu?

19.9.08

Úldnari

Úldið hefur heldur ágerst eftir því sem líður á daginn. Þarf að lesa þrjá harmleiki í vikunni. Þar af er einn eftir vin minn hann Strindberg. Mig langar bara að lesa Tinna. Í mesta lagi.

Og á morgun gerist það. Yfirsýn skal náð og það sem er tilbúið að Glettningnum fer í umbrotsmanninn. Það sem vantar verður innheimt á næstu dögum. (Kannski samt ekki gengið mjög hart að konunni sem er að fara að gifta sig á morgun.) Allavega vona ég að eftir morgundaginn fari ég að sjá glytta í endahnútinn á öðru tölublaði þessa árgangs af Glettingi.

Og þá verður mér nú svo létt að ég er mest að huxa um að fara á Túpílakatónleika og fyllirí á Rósenberg.

Í kvöld ætla ég að panta að fá að svæfa bæði börnin. Og steinsofna yfir hvoru um sig. Rumska kannske með öðru til að sjá Ljótu hálfvitana flengja Hvergerðinga í Útsvari.

Úldn

Góðu fréttirnar eru þær að líklega kemst Freigátan inn á leikskóla um svipað leyti og seinni framtönn Hraðbátsins klárar að koma úr kafinu.

Að öðru leyti er nú bara allt svefnlaust, andlaust og ömurlegt í dag.
Nenni ekki með ormana út í rokið, sérstaklega þar sem Freigátan er með einhvern vott af hori. Smábátur hoppaði eitthvað í gær og meiddi sig í hælnum og fer til læknis á eftir. Við Hraðbátur áttum fjórðu svefnlausu nóttina í röð, eða eitthvað. Tönnin sem ég hélt að hefði klárað að laumast upp í gær er víst ekki alveg komin.

Skóladagur í dag og ég er svo fullkomlega ólesin að ég hef sjaldan upplifað annað eins. Sem er mjög slæmt í málstofu þar sem 8 manns eru skráðir og 4 mæta venjulega.

Er svo fullkomlega búin að missa sjónar á tilgangi lífsins að ég nenni ekki einu sinni að endurskipuleggja neitt. (Sem er yfirleitt það sem gerist þegar ég þarf að hanga heima hjá mér.)

Góðu fréttirnar eru þær að eftir að Freigátan byrjar á leikskólanum og Hraðbáturinn er kominn með síðustu tönnina í bili verður þetta hreint ekkert mál, fram að áramótum.

18.9.08

Kaf og pólitík

Freigátan stóð sig eins og hetja á sundnámskeiðinu í gær, þó hún fari nú ekkert í kaf, ennþá. Hraðbáturinn fór hins vegar á kaf í fyrsta sinn í dag. Ég dýfði honum einum átta sinnum, eftir öllum reglum kúnstarinnar, og honum fannst það bara eintómt stuð. Svo sullaði hann og buslaði á alla hina. Svo var kennarinn hún Sóley með myndavél og hann brosti sínu blíðasta myndavélabrosi í hvert sinn sem hún kom nærri. Myndir birtast hér, alveg um leið og þær koma á netið.

Undir kvöld vorum við síðan bara tvö frammi, ég að elda og sá stutti stóð í göngugrindinni alveg ofan í fréttunum á stöð tvö hvar Davíð konungur predikaði um hvað allir væru nú vondir við vesalings krónuna. Skiptir engum togum að Hraðbátur rekur upp gælulegasta hjal sem ég hef nokkurn tíma heyrt frá honum. Greinilega mjög hrifinn af Davíði. Í hinum fréttunum var hins vegar Össur að messa, og þetta voru viðbrögðin:

Eitthvað virðist honum nú illa í ætt skotið, svona pólitískt. Drengnum.

17.9.08

Það er að hvessa

athugaði tveggja ára dóttir mín, nokkuð skarplega, þegar við vorum á leiðinni á sundnámskeiðið hennar. Og nú er aftur komið mesta hávaðarok. Þetta er nú bara að verða eins og síðasta haust. Aftur. Vona bara að plágurnar endurtaki sig ekki.

Freigátunni er annars alltaf að fara fram að tala og oft hljómar hún alveg svakalega fullorðin og fyndin. Um daginn var pabbi hennar "ruglaður" og ég var "klikkuð." Ef ég svara ekki eftir nokkur "mömm" þá heyrist: Sigga Lára, á ég að verða rauð! (Rauð þýðir reið.) Og besta afsökunin fyrir öllu sem hún vill ekki/nennir ekki að gera, er: "Ég get það ekki, mér er svo illt í bakinu." En það lærði hún að pabba sínum þegar hann var í bakinu í sumar.

Stundum ruglast líka orð saman. Hún er mikið búin að vera að spekúlera í draumum. Þegar hún vaknar á morgnana og fer að tala um kisur eða eitthvað sem hana hefur verið að dreyma, þá hef ég verið að reyna að útskýra drauma fyrir henni. Á einum DVD diski heimilisins er síðan ódámurinn hann Kalli á þakinu að leika draug.
Um daginn heyrðist eitthvað þrusk frammi á gangi og Freigátan skreið upp í fangið á mér og sagði: Ég er hrædd. Það er draumur frammi á gangi.

Og ég held það sé enn að hvessa. Það ætlar bara allt um koll að keyra. Vona bara að svalavagninn sé nógu þungur til að hann fari ekkert mjög langt.

Já, og pabbi minn á afmæli í rokinu. Hann mjakast nær og nær eftirlaunaaldrinum en var nú samt að fá sér mastersgráðu í einhverjum hundleiðinlegfræðum af Bifröst um daginn. Hamingjuóskir með hvurutveggja.

Spá og spé

Einkar ögrandi dagur í dag. Rannsóknarskip rétt kemst heim til að hleypa okkur Freigátu á sundnámskeið um kvöldmatarleytið og þarf síðan að fara aftur í vinnuna og halda einhverja foreldrakynningu. (Sem ég held að sé kynning á námi nemendanna fyrir foreldra. Ekki kynning á foreldrum.) Svo ég er óvenju einstæð og heimavinnandi í dag.

Góðu fréttirnar eru þær að klukkan er alveg orðin 10 og ég er ekki alveg búin að missa lífsviljann. Börnin eru dugleg að leika sér saman. Reyndar fylgir skemmtilegustu leikjunum ævinlega mikill hávaði. Vonandi er enginn að reyna að sofa í húsinu. Núna hleypur Freygátan æpandi fram og til baka og Hraðbátur er í göngugrindinni og öskrar úr hlátri. Einstaklega skemmtilegt hjá þeim. Og Hraðbátur merkilega brattur miðað við að hann var sívaknandi og grátandi í nótt. En nú held ég líka að önnur framtönnin sé ölla að byrja að koma úr kafinu.

Svo erum við búin að sópa og setja í þvottavél og uppþvottavél og förum alveg að drífa okkur út að athuga hvort vonda veðrið hefur ekki skilið eftir sig einhverja skemmtilega polla.

Annars fékk ég alveg svakalega skemmtilega Tarottspá í gær. Ég er alla jafna eiginlega alveg hætt að spá í spilin. Sennilega vegna þess að ég er byrjuð að lifa hamingjusöm til æviloka. En fékk mér samt "spá daxins" á Facade í gær, í einhverri rælni. Og það var bara ekkert nema "velgengni" og "fjárhaxlegir ávinningar" og "gríðarleg sköpunarorka" og ég veit ekki hvað. Og það sem gæti staðið í vegi fyrir mér væri að fá góða vinnu... Sem segir mér nú heilmikið.
Svo kom líka dauðinn. En það er alltaf ljómandi. Það er einhver viðsnúningur. Sem ég vona að sé að ég hætti endanlega að láta neitt í heiminum fara í pirrurnar á mér... ja, það má alltaf vona.


16.9.08

Rok og rugl

Það ku vera hálfur mánuður eftir af heimaveru Freigátunnar. Svo nú geri ég ráðstafanir til að ná eins miklu mömmujóga og ég get. Rannsóknarskip bjargaði morgninum og var heima svo ég kæmist í morgun. Þá er einn þriðjudagsmorgunn og fimmtudagsmorgun eftir. Og tvö fimmtudagssundnámskeið. Er farin að naga mig alvarlega í handarbökin að hafa látið hana hætta á gamla leikskólanum.

En í gær var tekið á því. Úti að hoppa í polla frá því eldsnemma í morgun, svo í heimsókn á verðandi leikskólann í útivist fyrir hádegi. Allir lögðu sig í kór eftir hádegið og svo var þrusað aftur út á róló og mokað og skóflað fram að kvöldmat.

Í dag eru menn öllu rólegri. Enda haustlægð með roki og fárviðrisviðvörun og leiðindum úti. Smábátur fór í fyrsta píanó- og tónfræðitíma vetrarins. Og Rannsóknarskip og Freigáta ætla að hætta sér út í fárviðrið til að láta gera við dekkið á hjólinu hans, svo hann geti nú verið alveg fljótur eins og vindurinn (eða rokið) upp á Vatnsstíg.

Annars var ég að telja dagana í þessari viku og næstu. Þeir eru margir.

15.9.08

Önnur

Var eitthvað að fikta með símann minn úti áðan, og hann bauðst allt í einu til að senda myndirnar sem ég var að taka á bloggið mitt. Ég kvað það vera honum velkomið. Ekki laust við að samband mitt og símans míns hafi kærnað nokkuð. Og þennan fídus er nú skemmtilegt að nota.


Haustmynd14.9.08

Sunnudaxafköstin

Átti einstaklega árangursríkan dag. Fór t.a.m. yfir fullt af vídjókameruspólum sem er eftir að setja upptökurnar af inn á tölvuna. Og merkti þær með því sem var á þeim. Mikið djöfull svakalega var ég nú feit og þunglynd þegar við vorum í Frakklandi. Össöss. (Hefði sennilega þurft að vera aðeins lengur til að horast almennilega af franska þunglyndinu.)

En geðið er gott í dag. Held ég. Fór í Vesturbæjarlaugina með Freigátuna seinnipartinn, hjólandi, og náði vonandi að brenna einhverju af helgarsukkinu. Svo er Glettingurinn minn búinn að fá aðeins að kenna á því, og vonandi get ég klárað hann í vikunni. Allavega ef Freigátan skyldi nú fá að hefja hina langþráðu leixkólagöngu sína. Ef ekki ætlum við aftur í Laugardalinn. Ég er búin að finna græjur til að tjóðra Hraðbát niður í barnavagninn og kannski nennum við meira að segja í Húsdýragarðinn í næstu ferð. (Auk þess sem ég þarf að versla slatta við hið nýstaðsetta Bandalag.)

En mikið lifandi skelfing vona ég samt mikið að hún verði orðin leikskólastelpa fyrir vikulokin.