6.8.05

Hommumst á hálendinu

Titill færslunnar er í tilefni daxins, en hefur ekkert með innihaldið að gera.
Þetta var bara það fyndnasta sem ég heyrði í Gei Præd göngunni í dag.

Er flutt í Imbu-Skjálf og búin að fá mína fyrstu gesti í kaffi. Allir ættu einhvern tíma að prófa að flytja í þrisvar sinnum stærra húsnæði. Ég gerði það í annað skipti í röð í gær. Búslóðin mín varð allt í einu oggulítil og komst í eitt hornið á stofunni. Þetta voru 18. flutningar mínir síðan ég flutti að heiman. Var einmitt að huxa um að gera einhvern tíma færslu um alla staðina sem ég hef búið á, til að sú heimild sé til, áður en ég fer að gleyma stöðum.

Ætla samt ekki að gera það núna, þar sem mér er illt í rassinum og ætla í bað.

5.8.05

Fyrirboðar?

Ætli það hljóti ekki að vera fyrir einhverju gasalega góðu ef maður vaknar síðasta daginn í íbúðinni sinni með dauða randaflugu í rúminu sínu? Og gengur síðan í gegnum flunkunýjan kóngulóarvef á leiðinni niður stigann sinn, á leiðinni í vinnuna í síðasta skipti þaðan?

Fyrirboðar þess að ég flytti í dag voru allavega annars vegar Bára syss sem kom á miðvikudaxkvöld og pakkaði stofunni minni, og svo Nanna og Ásta, sem pökkuðu eldhúsinu í gær. Þetta voru meir að segja svo miklir fyrirboðar að ég hefði ekkert getað flutt í dag án þeirra. Ljóst að það þarf að halda grill á nýja pallinum, einhvern tíma áður en Bára flytur til útlandanna.

En mig bráðvantar allavega eina smá sólbaðsveðrahrinu, áður en veturinn kemur almennilega. Til að geta pallað og grillað. Annars held ég geti verið að veturinn sé kominn á skrifstofunni minni. Það er allavega orðið galið að gera og menn farnir að panta leikrit eins og þeir fái fullt borgað fyrir það.

4.8.05

Url

Það er eins og venjulega. Allt í einu. Einmitt þegar mar þarf að vera að stelast til að prófarka reglulega vonda þýðingu í vinnunni brjálast allt í annríki. Ójá, Gay Pride gangan í ár kemur til með að líta út eins og auglýsing frá Bandalagi íslenskra leikfélaga.

Fór í sjúkraþjálfun í gær. Get huxað mér margt verra heldur en að fara einu sinni í viku næstu 5 mánuði og láta nudda á mér rassinn. Gallinn er hins vegar sá að mér skilst að með intensívri sjúkraþjálfun og gífurlegum dugnaði við að gera sem minnst, sé hægt að koma því til leiðar að þetta verði "ekkert mikið verra" og "lagist huxanlega" eftir fæðingu. Fór þó aldrei svo að maður væri lengi án horfa á krónískum eymingshætti.

En, þar sem mínar fyrri krónískur hafa hrunið af mér eins og vatn af gæs, þá er ég bjartsýn og þar að auki búin að heita á Nykurtjörn. Ef mér batnast einhvern tíma skal ég ganga upp að henni. (Ef ég mögulega nenni.)

Held annars að Alheimurinn sé að kenna mér að meta líkama minn. Aldrei fattaði ég hvað maður notaði vinstri höndina mikið. Fyrr en ég braut hana. Þá fattaði ég að hún var ómissandi. Ekki var ég nú heldur mikið að spekúlera í jafnvægisskyninu mínu. Fyrr en það yfirgaf mig. (Fyrir þann tíma var ég reyndar bara alveg mikið fyrir að drekka mig ringlaða. Finnst það ekki gaman lengur.) Og ekki hefi ég áður gert mér grein fyrir því hvað mjaðmagrindin manns er mikið þarfaþing. Maður er bóxtaflega ALLTAF að nota hana. Ég vona nú samt að Alheimurinn hætti uppteknum hætti áður en öll líffæri eru búin að fá fyrir ferðina. Þetta fer nebblega að verða dáldið þreytandi.

Annars, ætlaði að flytja í Imbu-Skjálf í dag, frestaði því til morguns, vegna eigin eymingjaháttar og olíuberunar á gólf heimilis míns komanda sem stendur víst yfir.

Ætla að vera dugleg að hvíla á mér rassinn í dag.

3.8.05

Hinn íslenski narsissismi?

Var að horfa á heimildamynd um hernámið á Íslandi í gær. Sem var gaman. Fyrir utan eitt sem vekur mér alltaf jafn mikinn bjánahroll. Auðvitað var næstum hverju einasta eftirlifandi hermannsgreyi sem hingað kom þann 10. maí 1940 stillt upp við vegg og hann spurður hvað honum hafi þótt um land og þjóð.

Komm on! Mennirnir bara í vinnunni. Þurfa að skreppa og hernema eitt sker. Eru reyndar ekki á því nema í örfáa daga. Og hvað? 50 árum síðar vill pakkið á skerinu fá spegilmynd af sér sjálfu í staðinn. Jeij! Það sér okkur einhver! Ó hvað það gefur okkur mikið meir merkingu í stórveraldlegu samhengi!

Já, íslenska þjóðin er líklega mikið í ætt við hann Narcissus sem drukknaði í eigin spegilmynd.

Í framhaldinu fór ég að spá í hversu herfilega ég myndi móðga margar aðrar þjóðir ef einhverjum væri annað en sama hvað mér þætti um þær. Hrædd um að Bretar og Frakkar færu illa útúr því. Norðmenn líka. Eistar, Litháar og Færeyingar hins vegar veeel. Og Írar ágætlega.

Ég veit hins vegar ekki til þess að aðrar þjóðir séu svo spegilmyndagraðar að þær séu neitt að spyrja að þessu. Merkilegt nokk. Efast um að nokkur Kóari hafi spurt neinn Hugleikara: Hádjúlæk Mónakó? Held þeim sé bara nokkuð fokkíng sama hvað slordónum utan úr heimi finnst um land og þjóð. Eins og eðlilegt er hverri þjóð með nokkurn veginn heilbrigða sjálfsmynd.

Sennilega þarf íslenska þjóðarsálin þerapíu.

Fór í stutta könnunarferð

um fumskóga félagsmálaráðuneytisins. Í augnablikinu vantaði mig nú bara löggildan húsaleigusamning, en skrapp í staðinn aðeins um fenjar húsaleigubóta og fæðingarorlofs. Þar þarf maður nefnilega að verða sér úti um fjölmenntun sé ætlunin að blóðmjólka kerfið með barneignum. Það er hins vegar greinilega ekki fyrir hvern sem er. Til að finna út úr því hvernig á að sækja um blóðmjólkun þessa, þarf maður að helst að hafa gráðu í viðskipta og hagfræði. Og nennu. Og gífurlegan tíma og orku í að finna sér pappíra út um allan bæ. Úff hvað þetta verður eitthvað gaman.

Grindverkur beit fast í rassinn á mér í gær, þar sem ég var óþæg. Það var svo vont að ég fór að grenja og huxaði næstum um að fresta fram yfir helgi flutningunum sem ég var annars búin að tímasetja á fimmtudaxkvöld. Eins gott að ég er að fara í sjúkraþjálfun í dag. (Mjög spennt. Hef aldrei farið í svoleiðis og hef ekki hugmynd um hvað er gert þar.)

Í öðrum fréttum, það er hreinlega verið að rífa gluggana ÚR skrifstofunni minni. Að aftan. Það finnst mér sniðugt og hlakka til að hafa einstaklega ferskt loft í dag. Er að spá í að spurja manninn hvort ekki sé hægt að gera eitthvað trix þannig að það sé lítið mál að taka þá bara úr á sumrin.

Og nú hefur einhver sluxi og slúbbert átt að blogga frá Mónakó í um daginn í gær. Komið fram yfir hádegi þar og engin færsla lætur á sér kræla. Jafussumsvei.

2.8.05

Eftirgrennslan leiddi í ljós

að þurfi maður að leigja sér sterka karlmenn til að flytja fyrir sig búslóð, þá er það lítið mál. Held reyndar að mennirnir sem ég réð komi utan af landi, alveg frá Hafnarfirði, en það er sama. Tók ekki nema 10 mínútur að finna og ráða þartilgerða flutningsmenn á stórum bíl sem ætla að flytja allt mitt hafurtask inn í Imbu-Skjálf á fimmtudaxkvöldið, að staðartíma. Og það án þess að ég þurfi að lyfta fingri eða dýfa hendi í kalt vatn.

Í framhaldi af því hélt ég lítið mál yrði að láta færa heimasímann sinn. Greinilega langt síðan ég hef þurft að eiga samskipti við Símann (hf?). Eftir lannnga mæðu á hóld fannst ekki tilvist íbúðarinnar sem ég er að fara að flytja í með þeim afleiðingum að kannski, ef ekki "finnst útúr þessu" á "línustöðinni" þarf að "koma maður heim" og "athuga málið". Þetta hljómaði einhvern veginn eins og síminn minn verði kannski huxanlega kominn í gagnið í fyrsta lagi um jól og í nokkrar mínútur fannst mér ég vera komin aftur til Frakklands. Nánar tiltekið í biðröðina á pósthúsinu. Eins og gerist jafnan þegar ég þarf að eiga samskipti við Símann.

Í allefall, lítur út fyrir að ekki verði þverfótandi fyrir mönnum heima hjá mér við að þjóna þörfum mínum, þar til Rannsóknarskip og Smábátur sigla til hafnar.

Var spurð að því um daginn, óviðbúin, hvað afkomandinn verðandi ætti að heita, í flotalegu samhengi. Held að fram að fæðingu sé eðlilegast að hann heiti Kafbátur.

Nornabúðin

Nú bara verð ég að brúka allt mitt vit til að plögga. Fór í gær á opnunarhátíð stórsniðugrar verslunar. Í dag er fyrsti dagurinn sem Nornabúðin við Vesturgötu er opin fyrir viðskiptum. Verð að lýsa yfir hamslausri hrifningu af framtakinu og tilvist þessarar indælu verslunar. Þarna er hægt að versla sér, meðal margs annars, tarotspil af ýmsum gerðum, tæki og tól til rúnagaldurs, allskonar heilsute og síðast en ekki síst, galdra. (Ég kolféll fyrir fávitafælunum. Held að mikill markaður sé fyrir þær.) Og, fyrir utan allt annað þá er þessi fína sjoppa algjörlega í leið minni heim úr vinnunni, þ.e.a.s þegar ég verð flutt í Imbu-Skjálf. Hef huxað mér að ónáða búðarrekendur í tíma og ótíma.

Í bili verður opið frá 14.00-18.00 á daginn, skilst mér. Láðist að spyrja um helgar, en mun plögga betur þegar ég veit meira.

Til hamingju elsku Heiða og Eva.
Vona að viðskiptin verði ekkert nema gífurleg gargandi snilld, samt ekki svo mikil að þið þurfið að flytja. Vil geta droppað við í kaffi á leiðinni í og úr barneignafríum næstu árin.

31.7.05

Gönguferð

Sem farin var í tilefni af satanískum hausverk (sem virðist fylgja sunnudegi verslunarmannahelgar þó maður sé hreint ekki einu sinni á fylleríi) endaði í Mónakó.

Þ.e.a.s. í vinnunni hvar ég uppgötvaði 2 í viðbót við hinn opinbera Hugleik sem bloggar frá Mónakó. Og er duglegur við. Nú er semsagt hægt að fylgjast með gleðinni hjá Hullurum á Hullvefnum, hjá Varríusi og Hjalta. Eftir langferð um öll þessi blogg er ekki laust við að manni finnist mar hafa bara farið í smá ferð. Besti brandarinn sem ég hef heyrt þaðan var þegar norskur áhugaleikhúsmaður spurði formann vorn: Hvað er þetta eiginlega með danskar áhugaleiksýningar?

Þetta er mjög fyndið ef maður þekkir eitthvað norskar áhugaleiksýningar.

Mín verslunarmannahelgi hefur farið í ýmislegt skemmtilegt. Er búin að henda heilum haug af pappír og allskyns drasli sem ég get engan veginn munað hvers vegna ég var að geyma. Eitt af því fáa sem geymast skal eru leikdómar af því ágæta verki Ungir menn á uppleið. Ég fann þá, las þá, fann hvernig höfuð mitt stækkaði um nokkrar hattastærðir, og ákvað að henda þeim ekki.

Svo er ég búin að stunda djúpar rannsóknir á sjónvarpsdaxkránni. Sá óvart "The Contender". Þvílíkar djööööfulsins kjeeeellingar, verð ég nú bara að segja. Americas next top models yfirdramatisera ekki einu sinni svona mikið. Eða grenja um börnin sín. Eða mæður sínar. Er helst á því að boxarar séu væmnasta pakk í heimi. (Það var kannski, eftir alltsaman, ekki himnasælan í hjónabandinu sem gerði hann Bubba svona mjúkan allt í einu? Menn meirna kannski bara svona við boxið? Rannsóknarefni?)

Í öllu falli, held ég haldi áfram rannsóknarvinnu á öllum vígstöðvum. Og ef einhver skilur að hvaða stað Herra Varríus er að hinta varðandi óformlegt boð á leiklistarhátíð, má sá hinn sami gjarnan láta mig vita.