21.11.08

Föstudaxfundurinn

Ætli þetta sé þessi vikulegi: Friða lýðinn fyrir mótmælinn-fundur 
eða ætli eitthvað sé að gerast í alvöru?

Hrædd um að ef ekkert sé að gerast í ríkisstjórnina-burt/kosningamálum heldur bara meira slef og lygar séu þau bara að hella olíu á mótmælin. Ég var ánægð með Samfylkingarmenn til að byrja með. En nú er ég að verða hreint afhuga Sollu. Næstum jafnmikið og Hnakkus.

---

Pfff. Þetta var nú alveg skilgreiningin á "of lítið of seint." Mér leið nú bara eins og það væri verið að múta mér til að halda kjafti. Og það er STRAX kominn niðurskurður í heilbrigðiskerfinu! Ætlaði ég ekki að flytja úr landi þá? Jæja, nenni nú samt ekki fyrir jól.

20.11.08

Frábært!

Þá erum við orðin skuldugasta þjóð í heimi. Frábært, skítplebbar. Og ykkur finnst enn ekki ástæða til að boða til kosninga? Og ef einhver setur út á eitthvað sem gerðist í stjórnarháttum eða útrás fyrir hrun er svarið ÆVINLEGA: "Það er ekkert óeðlilegt við það."
Það er alveg eðlilegt að helmingurinn af ríkistjórn viti ekki hitt eða þetta. Að ekki hafi verið hlustað á aðvaranir frá neinum. Að seðlabankastjóri og útrásarvíkingar hafi verið í einhverju einkastríði sem nú hefur sett þjóðina á hausinn. 
Það var "ekkert óeðlilegt" við kerfið eins og það var. Er það nokkuð, Solla?

Enginn sem hruninu olli sér neitt athugavert við neitt sem hann sjálfur eða hans "lið" gerði síðustu 10 árin eða svo.

Sama liðið stýrir landinu og sama liðið á ennþá stórfyrirtækin. Ekkert óeðlilegt við það, er það nokkuð? Samkvæmt stjórnarskránni getur forseti leyst upp þing og boðað til kosninga. Spurning um að fara að hringja í hann. Margir og oft.

Annars eru þetta náttúrulega fávitar. Í staðinn fyrir að fara í varnarstöðu og segja alltaf "ekkert óeðlilegt" og gera alla brjálaða, væri ekki nær að segja: "Við endurskoðum allt kerfið." Og: "Já, boðað verður til kosninga í vor vegna breyttra aðstæðna." Það er bara svo miklu pólitískt gáfulegra og vænlegra til vinsælda í næstu kosningum, hvenær sem þær verða. En dugar sennilega ekki einu sinni til.

18.11.08

Engin leið að hætta

Ég er nottlega svoddan bjartsýnitrýn. En ég leyfði mér að vona að seðlabankastjóri væri að sjá að sér og segja af sér þegar ég heyrði að útvarpa ætti ræðunni hans beint í morgun. Öðru nær.

Hins vegar þurfum við greinilega ekkert að leita að sökudólgunum. Í ákafanum að ganga hver frá öðrum eru þeir greinilega að byrja að skjóta sig í fæturna og jafnvel höfuðin. Bræður munu berjast. Svo ganga þeir hver frá öðrum og við lýðurinn þurfum bara að urða hræin og taka við.

Áhugavert í ljósi fjölmiðlaumræðunnar á Nasa í gærkvöldi að þessari ómerkilegu (kosninga...) ræðu skuli þurfa að útvarpa beint. Í heilan fokkíng klukkutíma! Á meðan þessir stórmerkilegu og stækkandi borgarafundir fá í mesta lagi nokkrar setningar í slagorðastíl í nokkrum fréttatímum. Er reyndar útvarpað, en eftirá. Sama með mótmælin á Austurvelli. Það er ekki frétt að fleiriþúsund manns með hverri vikunni mótmæli nema einhverjir hendi eggjum.

Annars hef ég samúð með fjölmiðlamönnum. Sérstaklega þeim sem þurfa að reyna að spyrja stjórnmálamenn að einhverju og uppskera útúrsnúninga, fyrirlitningu og stundum hálfgerðan skæting. Þó ráðafólk sé búið að taka sig á um marga kílómetra frá því sem var fyrst eftir hrun þá missa menn óþægilega oft eitthvað út úr sér sem kemur upp um þá ímugust og fyrirlitningu sem þetta fólk virtist hafa á hinum almenna þjóðfélagsþegni. Þeim finnast fjölmiðlamenn aðgangsharðir. Ef marka má borgarafundinn í gær finnst almenningi fjölmiðlamenn alls ekki nógu aðgangsharðir. Ekki skrítið að þau passi sig á að sniðganga borgarafundina þar sem almenningur getur spurt óþægilegra spurninga.

Hvernig í veröldinni getur fólki sem er (búið?) að setja þjóðina á hausinn fundist það hafa efni á öllum þessum valdhroka? Fyrirlitningin á milli mín og ráðamanna er að verða nokkuð gagnkvæm.

Eitthvað fallegt

Í morgun bauð ég horgemlingunum mínum að spila jólatónlist. Fékk svar frá Freigátunni: 
- Nei. Frekar Stíga og snúa.

Svo var haldið allsherjardanspartí við tónlistina úr Eplum og eikum sem heppnaðist með þvílíkum ágætum að menn liggja steinsofandi eftir.

Sem þýðir að Móðurskipið getur tekið sér stund í að lesa stikkprufur úr almúganum á veraldarvefnum í frekari undirbúningi fyrir byltinguna sem hún hefur huxað sér að taka alvarlega mikinn þátt í eftir að hafa mætt á borgarafund í gærkvöldi og smitast af lýðræði.

17.11.08

Flokkurinn

Þannig er þetta, sem sagt. 

Séu menn ósáttir við flokkinn er ástæða til að hætta á þingi og í pólitík.

Séu menn búnir að skíta upp á bak, setja þjóðina á hausinn og þurfa að hafa lífverði vegna þess að þjóðina langar líklega að drepa þá, þá er ekki ástæða til að hætta á þingi eða segja af sér embætti.

Sem sagt.

Byltinguna þarf að gera innan úr flokkunum. 
Ókei. 

Einar Rafn Haraldsson sýndi okkur leiðina um árið þegar hann gekk með virkjanasinnasamtökin Afl fyrir Austurland í Náttúruvernarsamtök Austurlands og var í meirihluta á aðalfundi. 

Nú ættum við öll sem eitt að ganga í Sjálfstæðisflokkinn og mæta á landsfund hans í janúar.

Og margt væri jú skemmtilegt að gera svo. Eins og að leggja flokkinn niður og úa á marga menn.

Í augnablikinu aðhyllist ég Dallas-aðferðina. Látum bara eins og það sé árið 1991 og kjósum Þorstein Pálsson í formannssætið.*

Eins og máltækið segir ekki: Af tvennu illu fylgir nokkur alvara.

*Ef grannt er skoðað má nefnilega rekja allt ólán Íslands aftur til þess fræga formannaslags í Sjálfstæðisflokknum þegar Davíð náði formannssætinu undan Þorsteini og flokkurinn lagðist á frjálshyggjuhliðina og hætti að vera "íhald". (Sem hann er síðan kannski aftur orðinn núna.)
Þar, m.a., byrjaði ballið.

16.11.08

Leiðindi, leiðindi

Ætli það þurfi ekki bara að leggja í alveg huuuundleiðinlega vinnu á Íslandi í endurbyggingu regluverksins og hagkerfisins frá grunni þannig að enginn megi ráða vin sinn, eða sjálfan sig, til neins og að alla hluti verði bara að gera... gáfulega.

Ef ég væri á þingi núna myndi ég sko drífa í að segja af mér. Þessa vinnu þarf að vinna samhliða því að taka endalausan hala af óvinsælum ákvörðunum. Ég er löngu hætt að fatta hvað liðið er að spá að hanga á ráðherrastólum sínum eins og hundar á roði. Það eru erfiðir tímar framundan. Og þeir verða verstir á þingi, bæði erfiðir og leiðinlegir. Þ.e.a.s fyrir venjulegt fólk.

En ýmsir virðast nú komnir fram á sjónarsviðið sem hafa virkilegan áhuga á, og gáfulegar hugmyndir um, hvað þarf að gerast til að Íslenska stjórnkerfið, og þar með hagkerfið virki. Hagfræðingar skrifa gáfulegar greinar í haugum og hrúgum og heimspekingar eru líka að koma sterkir inn. Svo bara allskonar snillingar. Mig langar að sjá þessa menn, ef ekki á þingi þá í ráðgjafarstöðum úti um alla vinnuna sem vonandi fer að fara í gang. (Ekki að ég hafi froskarassgatsvit á því hvað er gáfulegast að gera, hef bara einhverjar óljósar hugmyndir um að menn ættu kannski að vera með einhverja menntun eða reynslu af einhverju sem tengist ráðuneytunum sem þeir ætla að stjórna og ráða hæfasta fólkið í viðeigandi störf.)

Svo veit ég líka að til eru menn sem eru búnir að vera svo algjörlega obbsessd af hagkerfisumræðum í mörg ár að hann hefur verið næstum búinn að drepa kærustuna sína úr leiðindum úti á djamminu af því að hann getur ekki hætt að tala við vini sína um hagkerfið á fylleríum. (Minnir mig á hvernig við Berglind gátum orðið á eðlisfræðibrautarárunum.)

Semsagt, Siffa bró og hagkerfisvini hans á þing!

En ég er ekki að djóka með þetta, ég fékk hálfgerða magapínu bara við að skrifa þessa færslu. Held ég sé í alvörunni komin með eitthvað óþol gagnvart kreppuhjalinu öllusaman. Eða kannski er þetta bara vond samviska yfir að hafa ekki enn drullað sér á Austurvallarmótmæli sem eru þó í um 7 mínútna göngufæri.