1.10.04

Góðir hálsar, við lifum undarlega tíma.

Nýráðinn hæstaréttardómari er ævinlega hliðhollur Flokknum. Honum mælti enginn með, nema sá sem var ráðinn síðast, en hann er frændi Flokksins.

Nýráðinn rektor Landbúnaðarskólans á Hvanneyri er félagi Landbúnaðarráðherra úr hestamennskunni. Umsækendur með doktorspróf og áratuga starfsreynslu voru bara svo óheppnir að vera það ekki.

Nýráðinn Þjóðleikhússtjóri virðist hafa það fyrst og fremst sér til ágætis, fram yfir aðra umsækendur, að vera í matarklúbbi með Menntamálaráðherra og þar að auki í Flokknum. Vanfærni í mannlegum samskiptum og fádæma fáviska um leikhúslíf í landinu (svo sem eins og að halda að 20 ára gamall leikhópur sem ævinlega hefur starfað í hundraðogeinum byggi í Svarfaðardal) var engin fyrirstaða.

Og nú verða menn í Flokknum, sama hver flokkurinn er, að vera sammála forystunni í einu og öllu eða grjóthalda sér saman ella (sbr. nýjasta leikrit Framsóknar) og það er BANNAÐ að bjóða sig fram gegn sitjandi flokksformanni (sbr. Samfylking nýlega). Sundrungu innan Flokksins skal ævinlega haldið leyndri fyrir sauðsvörtum almúganum, sem hefur hvort sem er ekki vit á neinu.

Góðir Íslendingar, velkomnir til Sovét.
Maður er nú ekki alveg aldeilis að standa sig í plögginu. Rétt að segja alheiminum frá því að um helgina er mánaðarlegt hjá Hugleik í Kaffileikhúsinu. 6 einþáttungar, sýningar laugardax og sunnudaxkvöld, 1.000 kall inn. Mér sýnist á öllu að þetta verði hin besta skemmtan og það sem ég þekki af þessum þáttum er hreinasta afbragð. Þarna sýnir t.d. Tóró minn á sér höfundarhliðina í fyrsta sinn, að sjálfum sér fjarstöddum.

Er að reyna að raða saman helginni hjá mér... þarf að vinna mikið og missi af mörgu.
Suma daga fara allir öfugu megin frammúr. Menn sem tölvuforrit. Get ekki fengið neitt til að virka hérna, næstum, en sá þó hinn skemmtilegasta póst frá Færeyjum hvar fram kemur að við Vilborg munum dvelja þar í "twin-kamar".

Það er föstudagur. Fyrsti þessa mánaðar og það rignir eldi og brennisteini. Þau undur og stórmerki eru að gerast að ég veit ekki til þess að mig vanti neitt blað í dag. Eftir því sem ég best veit er allt draslið mitt farið í Íbúðalánasjóð. Hvað síðan gerist er mér meira og minna hulin ráðgáta.

En, í dag eru 3 vikur sléttar í fyrirhugaða afhendingu! Jeij!

30.9.04

Ég held að börn séu að brjóta verkfallið umvörpum og læra fullt. Sonarsonur Vilborgar er til dæmis hjá okkur í dag og stefnir í að verða afbragðs bandalaxstarfsmaður. Er að læra á græjur sem ég kann ekki einu sinni á.

Þetta er kannski bara spurning um að setja greyin beint í starfsmenntun?

Tjah, ríkið vill ekki borga fyrir venjulega menntun (þar sem það skilar ekki „eiginlegum" haggnaði) sveitarfélögin geta það ekki. Kennarar eiga ekki að þurfa að vinna sjálfboðavinnu. Ef ríkið tekur síðan aftur við skólunum, þá verða þeir einkavæddir og bara þeir sem eiga peninga, og fullt af þeim, geta menntað börnin sín.

Held það sé löngu tímabært að endurstofna kommúnistaflokkinn áður en þjóðfélagið dettur endanlega á hægri hliðina og siglir þaðan beina leið til Helvítis.

Það er nú bara mín skoðun... ekki að ég nenni í pólitík akkúrat núna.
Fékk mér nýjan síma í gær. Hann er fallegur. Bráðum á ég nýja íbúð. Fljótlega upp úr því nýja tölvu, nýtt rúm og nýja þvottavél.

Nú skulu sem sagt gerðar nokkrar tilraunir til að fjárfesta í hamingjunni þar sem heldur gengur illa að handsama hana með öðrum ráðum.

29.9.04

Ég held ég hafi aldrei á ævinni átt jafn mikið af pappír. Ég er með fulla tösku, og svo á ég þykkar möppur á ýmsum stöðum úti í bæ. Tilvera mín er orðin rækilega staðfest og skjalfest, er búin að fá vottorð um meira og minna allt sem ég er og hef gert í lífinu, nákvæmar útlistanir á öllum peningum sem ég á eða gæti mögulega fengið lánaða og svo útreikninga á ýmsa vegu á öllu saman.

Samt vantar, á hverjum degi, eitt til þrjú blöð. Og yfirleitt þarf ég að fara á einn af sömu þremur stöðunum til að fá þau. Allir eru síðan af vilja gerðir að láta mig hafa fleiri blöð, það er ekki málið. Og ég skil alveg tilganginn með þessu öllu saman. En það virðist vera lögmál að það gerist ekki nema ca. eitt blað á dag.

23 dagar í afhendingu, geri ráð fyrir að það þýði um 23 ný blöð. Þarf að kaupa mér möppu.

Í fyrradag varð síminn minn ársgamall, og fór þar með úr ábyrgð. Í gær ákvað hann að nú væri nóg komið og hætti að hlaða sig. Þetta segir manni náttúrulega bara nákvæmilega það að maður ætti ekki að alltaf að kaupa ódýrasta símann í búðinni. Ég er reyndar bara nokkuð kát, er búin að hafa augastað á nýjum síma um nokkurt skeið og hyggst fjárfesta í slíkum seinnipartinn, í leiðinni til eins pappírspésans.

Trallallah... jájá, allt gott, bara.
Þetta er hluti einkar skemmtilegs tölvupósts sem skrifstofunni barst í gær:

"Kanst tú siga mær, hvør úr Íslandi kemur á fundin í Føroyum 28.-31. oktober?
Verða tað tú sjálv og ein aftrat?

Blíðar heilsanir"

Það getur ekki orðið leiðinlegt í Færeyjum.

Blíðar heilsanir,
Ein aftrat.

28.9.04

Núna eru 24 dagar þangað til ég á að fá PiparPenthásið mitt afhent.

Auðvitað er ýmsu óreddað, eins og til dæmis heilum haug af peningum, en samt sem áður getur mar náttlega ekki stillt sig um að láta sig dreyma um hvernig allt lífið muni breytast, eins og hendi verði veifað, þegar búseta verður hafin í Húsinu mínu.

Hér eru nokkrar helstu framtíðarhorfur:

1. Ég þarf að komast að því hverjir hafa búið á hanabjálkanum mínum, helst frá upphafi (a la Sesselja Agnes, fyrir þá sem þá bók þekkja) og helst vil ég að Þórbergur Þórðarson hafi leigt þar sem fátækur námsmaður. Mun allavega bera þær sögur út.

2. Fyrir kraftaverk mun ég hætta að reykja, eiga alltaf margar tegundir af te og gera jógaæfingar á morgnana. Eignast allskonar baðdót með blómailmum og fara í kertaljósaböð í tíma og ótíma með innhverfri íhugun.

3. Mun ekki detta íða um helgar, sökum nálægðar við miðbæinn, heldur sitja heima í nýja ruggustólnum, hlusta á rás 1 eða klassíska tónlist og prjóna, eða lesa eitthvað af merkilegu bókunum sem hingað til hafa bara verið snobbað hilluskraut.

4. Mun ekki fleygja mér eins og örvæntingarfull lóðatík fyrir fætur fyrsta mannvesalings sem lítur á mig tvisvar, heldur bíða Alveg Róleg, með Reisn, Innri Kyrrð og Æðruleysi, eftir Hinum Eina Rétta. (Einhvern tíma geri ég svo tékklista yfir hvaða kröfur H.E.R. skal uppfylla.)

5. Á meðan ég bíð mun ég eyða afgangs orku í að skrifa Ódauðleg Meistaraverk og stefna á Nóbel. Ævinlega óaðfinnanlega tilhöfð.

6. Ég mun baka og elda af hjartans lyst, eins og hver önnur aðalpersóna í Snjólaugarbók og halda fámenn og innileg matarboð með exótískum smáréttum og heimpekilegum rökræðum um listir og menningu. Gjörning þennan mun ég jafnan fremja íklædd jarðarlituðum þægindaklæðnaði með viðeigandi lýsingu og tónlistarvali.

Sem sagt, 1 Artífart Miðbæjarrotta, coming up!

27.9.04

Fyrir margt löngu kokkuðum við Berglind upp lyf við andlegri og líkamlegri vanlíðan. Ég man ekki hvað sú töfrablanda átti að innihalda, fyrir utan hamsatólg. Ég held ég sé hins vegar að þróa hina fínustu atferlismeðferð. Hér koma:

Nokkur atferlisráð við andlegri og líkamlegri vanlíðan sökum dömps eða annars tilfallandi

- Eyddu nokkrum milljónum sem þú átt ekki í Lífsgæðakapphlaupið og veðsettu alla fjölskylduna í þágu eigin þæginda.

- Láttu vini þína sýna þér sætustu vini sína... sem reynast síðan vera of sætir til að þú þorir að tala við þá.

- Finndu uppá illu alter-egói og spilaðu Simpson-Matador í karakter. (Sigríður Hórkona var t.d. alltaf í fangelsi...)

- Horfðu og hlustaðu á annað fólk, sérstaklega þá sem eiga bágtara en þú. Það setur hlutina í samhengi.

- Farðu á nokkra fundi til að ræða vandamál tengd ódauðleikanum.

- Og síðast en ekki síst, vinna. Mikið og alltaf. Kemur í veg fyrir svefntruflanir.

Svo mörg voru þau orð.

Ég athugaði hins vegar næturlífið örlítið um helgina, aðallega til að skoða aðeins líf einnar þeirra sem hefur það tvímælalaust verra en ég, þó ekki væri nema fyrir að vinna á Ölstofunni. Á galeiðunni er hávaði og ég held ég geti ekki bætt því á listann til líðanabætingar. Huxa að ég sniðgangi þann menningarkima bara áfram, þrátt fyrir mikil veiðiplön og fyrirsjáanlega búsetu í miðbænum.

Annars á nýtt og betra greiðslumat á leiðinni, sem og loforð um viðbótarlán, vonandi verður allt komið á sinn stað fyrir miðvikudag. Og eftir mánuð verð ég komin með íbúðina mína! Þá fyrst verður nú hægt að fara að... geríðí.

Og viðbótarlánasjóður var að hringja... það vantar blað... hananú, þar byrjar það...