1.7.06

Júlíííí!

Búin með fyrsta bindi af Tengdadótturinni og staðan er þannig að enginn er tengdadóttir neins... (Í bókinni, sko, ég er enn tengdadóttirin á þessu heimili. Og nýt mín!) Jú, nema reyndar ein sem ég held að sé alveg að fara að drepast. Ljómandi. Þetta meikar hreint engan sens. Freigátan sofnuð úti í vagni og ég að fara að þýða hryllingsmynd. Ætla að reyna að klára sem mest fyrir fótbolta. Hef ákveðið að halda bara með portúgölskumælandi þjóðum í dag.
Jeij!

30.6.06

Þannig var það...

Maðurinn í bókinni giftist aftur, systur þeirrar dauðu, sem hann átti son með. Er að verða búin með fyrsta bindi af "Tengdadótturinni" og er enn engu nær um við hvaða tengdadóttur er átt. Nema þá helst að það sé kannski sú sem sonurinn á eftir að ná í, en í augnablikinu er hann skotinn í fátækri (en voða fallegri) kotungsdóttur, en faðir hans vill að hann giftist einhverri fantaríkri sem er mikklu eldri, og hreint ekki eins sæt. Þeir eru þó sammála um að hann ætti hreint ekki að giftast freku stelpunni frá Fellsenda, þar sem hún er svo kjaftfor og kemur frá montnu og skuldugu heimili. Ætli hún verði þá ekki bara tengdadóttirin? Læt vita.

Og Ítalir og Þýskarar komnir í undanúrslit. Rannsóknarskipið spáir því að hinn leikurinn verði England-Frakkland. Það finnst mér alveg hroðalega boríng. En ef það verður Brasilía-Protúgal verður þetta næstum tómur latínó leikaraskapur og grenj... Held mig langi mest í Portúgal-Frakkland... Annars eru allir sem ég hélt með að dottnir út þannig að mér er alveg að verða skítsama.

Og ég er búin að vera að huxa mikið til hennar Rannveigar minnar Þórhalls, þeir sem þekkja hana, og hafa ekki heyrt, þá eignaðist hún oggulitla stúlku þann 9. júní, í flugvél, þremur mánuðum fyrir tímann. Sú litla stendur sig eins og hetja en er á vökudeild og verður lennnngi. Hún var um eitt kíló þegar hún fæddist. Þær hefðu nú alveg mátt fá nokkrar vikur af minni meðgöngu... Þessu er misskipt.

29.6.06

Nýjustu tölur

Freigátan fór í skoðun í gær. Er orðin 7,4 kg og 64 cm og komin í hattastærð 42 cm. Hún var líka sprautuð og lét sér ekki bregða frekar en síðast. Mikill ógurlegur harðjaxl sem stúlkan ætlar að verða.

Hér er annars sumar og sól og við ötlum út.

26.6.06

Þetta helzt...

Hér í Brekkunni í Eyjafjarðarsveit er nú komin sumarblíða. Fé er farið á fjall, utan nokkrar rytjur sem trúlegast fá að vera heima við í sumar. Heimafólk sýslar eitt og annað og í kveld fór allt karlkyns, utan húsbóndinn, á knattspyrnuæfingu.

Sést nokkuð hvað ég er að lesa? Fann bara skáldsöguna "Tengdadóttirin" og þótti bara einstaklega viðeigandi að lesa hana. Hún þarf reyndar sennilega að verðaframhaldssaga mín í tengaforeldrahúsum því hún er í þremur bindum. Mikla ógurlega ritræpu hefur hún nú haft, hún Guðrún frá Lundi. Ég er strax farin að halda með stúlkunni sem ég sé í hendi mér að eigi síðar í sögunni eftir að verða vonda og illgjarna tengdadóttirin. Sú er kvefsin og kjaftfor og klæðist eins og karlmaður.

Hér er annars bara þýtt og horft á fótbolta til skiptis, og stundum í einu, og stundum elta menn eina og eina kind yfir að Svertingsstöðum þar sem hún á heima. (Og alltaf þegar ég sé nafnið á þeim bæ á skiltinu hérna við heimreiðina þá heyri ég fyrir mér orð Sævars (að mig minnir) þegar við skildum Rannsóknarskipið eftir þar í leikferðinni í Freyvang 1997: "Ekki vissi ég að hann Árni væri svertingi.")

Og mér til mikillar kátínu þurfti ég að hefja daginn í dag með því að gera yfirlestur á textum í forkastanlega skemmtilegri mynd. Sem hefur meðal margra annarra gullkorna að geyma setninguna "Móðir þín var hamstur og faðir þinn lyktaði af ylliberjum."

Dagurinn varð allur eftir því indæll.

The Great Cornholio!

Beavis og Butt-Head og The Holy Grail eru verkefni þessara daga. Húmorinn á heimilinu er á gífurlega háu plani þessa dagana.

Erum flutt aftur í sveitina.

Meira síðar. Jámjám.