1.12.06

Nóvemberlok

Við hjón erum búin að vera gjörsamlega að bilast. Vorum farin að tala um að hætta rúmlega öllu. Höfðum ekki sofið hálfan svefn síðan við mundum eftir okkur, að okkur fannst, og alltaf allt eftir. Svo kom fyrsti desember og eins og bylur dytti af húsinu. Og ég var að fatta hvað við vorum að reyna að gera, allt í einu, í nóvember.

En nú erum við búin að flytja, hætt að þurfa að þýða á nóttunni, alveg að verða búin að leika og leikstýra, gubbupestin búin, Ransóknarskip að verða kominn í jólafrí í skólanum og stjórn Hugleiks næstum komin í jólafrí líka. Og skollin á desemberrólegheit í vinnunni minni.

Enda skal öllusaman nú slegið upp í kæruleysi, ég ætla í leikhús í kvöld.

Og svo nokkrar myndir:


Sæt systkin


Hænuvíkursvipur


Fyrsta snjóþotuferðin

30.11.06

í fyrirjólinu

er soldið skemmtilegt að hafa verið í bókmenntafræði. Maður sér gamla skólafélaga, og jafnvel kennara, allsstaðar laumast fram á sjónarsviðið og segja mönnum hvaða bækur þeir eiga að gefa hver öðrum í jólagjafir. (Og fáir sem fá nenna síðan að lesa þær til að vera í aðstöðu til að rengja viðkomandi eða samsinna.) Heyrði einmitt lesið úr nýútkominni bók þegar ég var á leið í vinnuna í morgun. Hún er eftir bókmenntafræðing. Sem kemur ekki málinu við.

(Ja, nema maður vilji hætta sér út í ormagryfju áhuga- atvinnu umræðunnar sem rekur annað slagið upp ljótan hausinn í leiklistargeiranum. Samkvæmt þeim skilgreiningum ætti mér að finnast alveg fáránlegt að einhverjir óbókmenntafræðimenntaðir amatörar séu fá laun fyrir bækurnar sínar!)

Allavega. Mér gengur eitthvað illa að komast að efninu.

Í bókarbrotinu var semsé kastað fram skilgreiningu á landslagi í skemmtanalífi miðbæjarins sem ég hafði ekki áttað mig á. Nefnilega, að það skiptist um Lækjargötu. Fyrir neðan eru ríkir plebbar og ljóskar heimskur, og fyrir ofan séu artfartarnir.
Þetta fannst mér sniðugt. Og kannski ekki rétt, en örugglega ekki alveg rangt.

En hvað segir það þá um mann ef maður, þá sjaldan maður rekst út á galeiðuna, sækir eingöngu staði sem er Í Lækjargötu? Býr þar kannske landsbyggðarlýðurinn?

Njósn

Þegar maður er að reyna að hætta að nöldra við sjálfan sig á göngunni þá verður manni stundum á (eða gerir það algjörlega viljandi) að heyra hvað aðrir eru að nöldra við sjálfa sig og aðra. Í gær varð ég áheyrandi að hálfu samtali þar sem ung kona talandi í gsm-síma labbaði fyrir aftan mig þar til samtalið fyllti mig svo miklum hrolli að ég spítti í og stakk hana af. Samtalið var svo sem ekki um neitt sérstakt. Það var bara ákveðinn tónn í því sem gerði það að verkum að fyrir hugskotssjónum mér svifu ótrúlega mörg ömurleg og niðurlægjandi samtöl úr mínu eigin lífi.

Flaug mér þá í hug setningin:

Að reyna að eiga í sambandi við mann sem er haldinn skuldbindingafælni er álíka gáfulegt og að ætla að heilsa handalausum manni með handabandi.

29.11.06

Allir gubba

Líka gestir og gangandi. Bára systir kom í heimsókn, gangandi frá Noregi sem gestur, og gubbaði líka. Síðan er hún bara búin að lufsast um heima hjá mér, græn í framan. Í staðinn gabbaði ég hana til að vera fram yfir helgi og hjálpa mér að þrífa og allskyns.

Til stendur að hækka svefnleysismörkin á heimilinu. Ég er fyrir mína parta og Rannsóknarskips orðin hundleið á að þýða fram á nætur og vera svo með augnlokin á hælunum alla daga. Annars náði ég alveg góðum klukkutíma í röðun heima hjá mér í gær, og nú er alveg næstum farið að líta þar út eins og hjá fólki. Píanóið er á leiðinni í dag eða á morgun eða eitthvað. Og ég held við reynum að drífa síðustu ruslatægjurnar út úr Tryggvagötunni fyrir eða um helgi.

Annars er helgin að verða útúrskipulögð. Freigátan komst óvænt inn í ungbarnasund. Við förum þangað á laugardaginn og hlökkumum ógurlega til. Sama laugardag eru píanótónleikar hjá Smábáti, þrítuxafmæli og hvur veit hvað. Helst vildi ég klára að þrífa íbúðina fyrrverandi áður en allt þetta samkvæmis- og menningarlíf aðventunnar hefst... Mar sér til hvað maður nennir.

Hitti Bergindi og Guðmund Stein í gær. Hann var aldrei slíku vant vakandi og er að verða myndarkarlmaður, þriggja og hálfs mánaðar og næstum jafnstór og Freigátan. (Sem varð bæðevei 10 mánaða í gær. Myndir verða settar inn um leið og magapínum og annríki sleppir.)

Er á kaffiflippi og búin að afkasta á við hálfan mánuð á undanförnum klukkutíma.
Og bara get ekki hætt.
Það hressir, Bandalaxkaffið.

28.11.06

Jákvætt hugarfar

Ég nöldra. Þegar ég er að labba einhversstaðar, sem ég geri oft, fæ ég gjarnan útrás í því að nöldra stanslaust, að mestu í hljóði, við sjálfa mig. Yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Oft einhverju sem ég hreinlega bý mér til eða gef mér. Og ég er að reyna að hætta.

Um daginn ákvað ég að reyna að labba alla leiðina heim úr vinnunni án þess að nöldra. Entist ekki nema niður á miðjan Laugaveg. Næsta dag var ógurlega gott veður, svo ég greip til þess ráðs að fara alltaf að glápa á efri hæðir vinstra megin við Laugaveginn þar sem sólin skein og allt var svo ógnarfagurt. En allt kom fyrir ekki, alltaf var ég búin að nöldra mig bláa án þess að taka eftir því.

Þangað til ég samdi Jákvæða Hugarfarssönginn. Hann syngist við lagið Nú er Gunna á nýju skónum (ja, eða einn var að smíða ausutetur, ef það eru kannski ekki að koma jól) og hljóðar svo:

Jákvætt hugar jákvætt hugar jákvætt hugarfar
Jákvætt hugar jákvætt hugar jákvætt hugarfar
Jákvætt hugarfar
Jákvætt hugarfar
Jákvætt hugar jákvætt hugar jákvætt hugarfar

Þetta söng ég, að mestu í hljóði, alla leið heim, og nöldraði ekki baun.
Verður iðkað framvegis.

26.11.06

Gat gubbað

Og það ekkert smá. Við hjónin notuðum helgina í aldeilis hreint magnaða gubbupest. Og Freigátan er enn í maganum og notaði daginn til að kúka í öll fötin sín.

Aldeilis eins gott að það var til lykteyðandi sprey á heimilinu... Já, var.