26.9.08

Teiknimyndasögudót

Var einhvern tíma að leika mér í teiknimyndasöguforriti í sniðuga makkanum mínum.


Náði myndum af þessu stórkostlega hláturskasti í dag.

Kvikmyndahátíð!

Í svona leiðindaveðri er best að lænöppa bara nokkrum snilldum og horfa á þær allar í röð. Það finnst Freigátunni allavega. Eldsnemma í morgun hófst kvikmyndahátíðin með sýningu myndarinnar "Hoowinked" sem Freigátan mun eflaust alltaf hald að sé hin eina og sanna Rauðhettusaga. Þá tók við myndin Courious George, með ljómandi skemmtilegri tónlist Jacks Johnson og textuð af Rannsóknarskipinu. Og nú er að hefjast sýning á Shrek hinum þriðja sem fengin var að láni í Hafnarfirðinum um daginn og er alveg að verða búið að spila í gegn.

Í framhaldinu þykir mér ekki ólíklegt að sýnt verði eitthvað af Múmínálfunum, jafnvel nokkrir þættir af Kalla á þakinu og svo jafnvel Barbapapa á frönsku. Annars lætur sýningarstjóri ekkert uppi um áform sín fyrir það sem eftir er dax, heldur heimtar bara það sem andinn blæs henni í brjóst, þegar hverri mynd lýkur.

Hraðbátur er farinn að fá sér lúr og Móðurskip heldur að hún sé jafnvel að fá einhverja flensu og er búin að vetrarstilla alla ofna í húsinu og fá sér allavega þrjá kaffibolla. Það nefnilega gengur ekki þar sem Rannsóknarskip og Smábátur ætla norður í land í dag. Við verðum því hér ein og hjálparvana fram á sunnudag.

Og í dag ætla ég að rannsaka hvernig er að mæta fullkomlega ólesinn í málstofutíma!

24.9.08

Gert útaf...

Eftir einstaklega geðvondan innidag í dag var haldið utan í dag, hvernig sem viðraði. Enda viðraði ýmislega.

Úthaldið var gert í hálfgerðri súld og fyrsti viðkomustaður var splunkunýr róló sem verið er að gera í grenndinni. Svo vel bar í veiði að sandurinn var kominn í sandkassann. Þó svo nýkominn að það var ekki einu sinni búið að moka neitt í honum. Svo börnin vígðu hann í um klukkutíma og voru eftir það söndug uppfyrir haus bæði tvö.

Eftir smá dust var haldið í strætó. En þar sofnaði Hraðbáturinn sem fastast. Leiðin lá upp í Laugardal í gegnum hvern var gengið rösklega alla leið upp á hið nýja Bandalag, hvar Móðurskip endurnýjaði kynnin við annað fullorðið fólk og fékk sér nokkur niðurdrepandi leikrit fyrir harmleikjakúrsinn. 

Í bakaleiðinni var dundað lengi í Laugardalnum. Meira að segja lengilengi. Freigátan fékk að fara sínu fram og taka alla útúrkróka sem hana langaði til, var enda mestallan tímann fyrir eigin vélarafli. Þegar farið var að glitta í strætóstoppistöðina voru þó fæturnir hennar litlu farnir að verða nokkuð þreyttir og Hraðbátur, þá nývaknaður, líka orðinn þreyttur á langsetum í vagninum, svo skipt var um hlutverk. Freigátan var flysjuð af útifötum og fékk að leggja sig í vagninum en Hraðbátur fékk pollabuxur og hásætið ofan á honum og öskraði af hamingju.

Það var einstaklega þreytt, margt smátt fólk sem skreið heim á Ránargötu um hálftvöleytið. Og nú eru þau alveg harðsofnuð. Og ekki er nú allt fjörið búið í dag. Við Freigáta erum að fara á sundnámskeið klukkan hálfsjö.

Á morgun er síðan ætlunin að Móðurskip fái Freigátufrí. Þ.e.a.s., Rannsóknarskip kemur heim um tíuleytið svo við Hraðbátur getum farið vagnandi í mömmujóga, þaðan förum við viðstöðulaust í mat með mömmujógakonum á Maður lifandi og örkum þá sem leið liggur út á Hrafnistu þar sem við ungabarnasundum. Verðum sumsé að heiman allan daginn. Eins og ég var búin að gera ráð fyrir að hafa alla fimmtudaga í september og október, mér til geðheilsubótar. 

Í gær hékk geðheilsan nefnilega á síðasta bláþræðinu þegar Rannsóknarskip kom heim út vinnunni, og Móðurskip tók frekjukast og heimtaði að fá að hafa einn útifimmtudag svo meiri líkur væru á því að við mæðgur gengjum báðar heilar til skógar frá helginni. Þá verð ég nefnilega aleinstæð í 48 klukkustundir þar sem Rannsóknarskip og Smábátur ætla að breggða sér norður.

Ef ekki rætist síðan úr leikskólamálum í næstu viku hringi ég sjálf á barnaverndarnefnd.

22.9.08

Ný megrunaraðferð!

Eftir allt streðið er ritstjórn tímarits alveg einstaklega grennandi. Við hvert ætem sem mér text að berja saman, með myndum, myndtextum og öllusaman og horfa á eftir í umbrotsmanninn, léttist ég um ein 10 kíló. Hef misst 40 í dag og enda í svona mínus 80 í vikulokin með þessu áframhaldi.

Og stundum er nú gott að eiga eldjökulgamla tölvu. Einn afkastamesti greinahöfundurinn "minn" er óttalegur tréhestur og brýkur hvorki internet né geisldrif heldur mokar í mann greinum á floppídiskum. (Og segir hverjum sem kvartar að það sé hægt að kaupa svoleiðis drif "með hala" á skitinn 2000 kall.) Ég var búin að vera að vesenast með þessar diskettur, ekki á leiðinni að nenna að fara og fjárfesta í svona, annars skítódýrum, kostagrip. En svo datt mér í hug að gá undir borð. Haldiði ekki að aldraða heimilistölvan lumi nú barasta á svona A: fínasta floppídrifi!
Hef sjaldan verið jafnfegin því að hafa ekki nennt að öppgreida tölvubúnar heimilsins að neinu viti.

Svo þetta gengur nú ljómandi. Ætla mér að reyna að losna við nokkra kílótugi í viðbót í kveld, alveg án þess að hreyfa mig af borunni.

Og Glettingstengt, en samt ekki. Hún Rannveig Þórhalls, Glettingskona og vinkona mín, gekk í það heilaga, eða ekki, á laugardagin. Athöfnina framdi slökkviliðsstjórinn á Egilsstöðum úti í óbyggðum Seyðisfjarðar, að heiðnum sið. Heilsist þeim hjónum og stórfjölskyldu þeirra allri.

21.9.08

Gaman var í gær

jájájá.

En nú er helgin að klárast og alvaran heldur betur að taka við. Enn er slatti af vinnu eftir í Glettingnum, þannig að alla vikuna fær Rannsóknarskip krakkakrílin í hausinn um leið og hann kemur inn úr dyrunum á daginn og Móðurskipið hverfur inn í eitthvert skúmaskot heimilisins með tölvuna sína. Það er ekki nema rétt svo herslumunurinn eftir. Held ég.

Svakalega eru allir með hroðalegar klippingar og yfirskegg í Swingtown. Mesta furða að nokkur hafi haft lyst á að sofa hjá neinum. Hvað þá allir hjá öllum.

Og þá er að reyna að lifa af síðustu vikuna með Freigátuna í leikskólaleysinu. Bara vonandi að veðrið fari eitthvað að skána. Það er eiginlega ekki búið að vera smábörnum út sigandi. Og til að hafa menn í sæmilegu skapi er miklu betra að hafa einhverja viðringu. Best að gá á veðrið hjá mbl.