20.8.10

Jó! Siggi!

Sigurður Einarsson fær illa öjmingjalegar spurningar.
"Hvernig tilfinning er að vera eftirlýstur af Interpol?"
"Áttu von á að verða ákærður?"
"Hefurðu hreina samvisku?"

Komm on.

Heyrðu, Siggi? Hvernig tilfinning er að hafa sett þjóð sína á hausinn?
Ertu stoltur af sjálfum þér? Finnst þér ekkert að þú ættir að éta minna og skammast þín?
Heldurðu að einhver trúi því að þú hafir ekki stolið neinu? Veistu hvað þú ert mikill hrokapungur og aumingi að hunskast ekki strax í yfirheyrslu?
Hvernig er að vera landráðamaður og fáviti og verða sennilega bráðum drepinn af einhverjum fúlum og blönkum fyrrverandi verktaka á Íslandi? Hvernig tilfinning er það nú?

Og hvar eru peningarnir? Ha? Sem þú stalst? Ha, Siggi?
HVAR ERU HELVÍTIS PENINGARNIR?

Og, heyrðu, er satt að þú hafir selt andskotanum augun úr þér af því að þú VARST EKKI MEÐ NEINA SÁL?

Látum Johnny National sitja fyrir Sigurði næst þegar hann sést.

16.8.10

Art of the Heart. 1. hluti.

Í þriðja sinn í sumar er ég komin heim eftir ævintýraviku og langar að gera fátt annað en að hanga á fésbókinni og vita hvað allir hinir eru að gera. Þar sem ýmis smáatriði eru þegar að hverfa í stressþokuna er ég að hugsa um að skrásetja. Bæði fyrir þá sem af misstu en ekki síður fyrir sjálfa mig.

Það eru 6 á síðan Bandalag íslenskra leikfélaga bauð North European Amateur Theatre Alliance, NEATA, að halda leiklistarhátíð samtakanna á Íslandi árið 2010. Meðlimir þessara samtaka eru bandalög áhugaleikfélaganna á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum, níu alls, og hafa þau skipst á að halda leiklistarhátíðir á tveggja ára fresti frá stofnun samtakanna sem var á sambærilegri leiklistarhátíð sem Nordisk Amateurteaterraad, NAR, hélt í Harstad í Noregi árið 1998.

Semsagt. Árið 2004, þegar allt var í blússandi uppgangi á Íslandi, var hátíð haldin í Eistlandi og þar ákváðu Íslendingar að bjóða heim árið 2010. Síðan hefur undirbúningur verið í gangi. Slatti af nefndum komið og farið, nokkrir aðal- og haustfundir samtakanna verið undirlagðir af hátíðartali og mikið vatn runnið til sjávar í Íslensku samfélagi. Hvað um það, Menningarhúsið á Akureyri, Hof, sem alltaf hafði verið planað að hafa hátíðina í, reis... nokkurnveginn, og við fengum að hita það upp fyrir formlega opnun.

Ég mætti til starfa á sunnudagskvöld. Þá hittist starfsfólk hátíðarinnar, eða þeir sem mættir voru á svæðið, á Bláu könnuna í óformlegt spjall. Morguninn eftir var síðan mætt niður í Hof. Þar var ýmislegt tilbúið en furðugeðgóðir iðnaðarmenn lögðu dag við nótt til að klára það sem eftir var.

Vér starfsmenn, sem síðar urðum grænbolaða liðið, vorum eins og maurar um húsið við að búa til leikhús úr einum sal (sem er ljóspanelaður og parketaður, hreint ekki leikhúsvænn að upplagi) græja stóra sviði fyrir fyrstu sýningu hátíðarinnar, tæknitröllin hengdu upp ljós sem áttu helst að duga fyrir allar sýningar hátíðarinnar, fundum herbergi fyrir fundi og leiksmiðjur, búninga og sminkaðstöðu, og bjuggum okkur til starfsmannaherbergi. Þar bjó kaffivél Bandalagsins og þar var soldið fundað og skrafað milli stríða.

Ég var ábyrg fyrir upplýsingamiðstöðinni. Hún komst upp á þriðjudegi. Þann dag mættu allir leikhópar á svæðið. Sjálfboðaliðar orðnir grænbolaðir svo þeir þekktust betur úr almúganum. Fyrir opnunarathöfn fengu starfsmenn líka nokkur spennandi verkefni. Það þurfti að þvo sjóinn fyrir sjósundsatriðið og vefja járnhjarta í bómul, því svo átti á kveikja í því. Starfsmenn frömdu súrrelaískar athafnir hægri og vinstri, meðfram því að taka á móti leikhópum og leiða þá í allan sannleikann (og sannfæra þá sem komu fyrstir í gegnum borvélagnýinn að jú, húsið yrði tilbúið fyrir kl. 20.00 að staðartíma.)

Klukkan 20.oo var allt klárt. Ja, sem þurfti að vera það.
Opnunarathöfn varð hin hátíðlegasta, hönnuð af Rúnari Guðbrandssyni. Til liðs við sig fékk hann meðal annars ungmenni frá Akureyri sem hafa unnið þar við skapandi sumarstörf, einn hest og eina geit. Já, og forsetann. Eftir ræður og dýrasýningu var síðan streymt inn í stóra sal og horft á fyrstu sýningu hátíðarinnar. Hún var Umbúðalaust frá Leikfélagi Kópavogs og að henni var gerður góður rómur. (Ég sá hana ekki. Var frammi að vesenast eitthvað.)
Í hátíðarklúbbnum spiluðu síðan miðaldaútgáfa af Helga og Hljóðfæraleikurunum og var gerður góður rómur að meðal þeirra sem á hlýddu. Það voru reyndar ekki margir þar sem flestir voru farnir heim með ferðaþreytu.

Framhald síðar...

15.8.10

Samtal

Rannsóknarskip: Ert þú að gera eitthvað á þriðjudagskvöldið?

Móðurskip: Ég ætla aldrei að gera neitt framar.

Mikið gríðarlega ógurlega svakalega var nú gaman að halda Leiklistarhátíð NEATA í óvígðu Menningarhúsi Akureyringa, Hofi að meðvirku fjölmenni. Langar mest að skrifa díteilaða "rýni" á allt heila klabbið á næstu dögum, ef ég nenni. Fyrst og fremst til varðveislu.

Í kvöld er hins vegar punkterað og bensínlaust og glápt á Battlestar Galactica.