6.5.11

Artífartbörnin

Smábátur syngur og dansar í Hörpunni á barnamenningarhátíð þann 15. maí, næstkomandi. Það er daginn eftir Júróvísjón. Þá verður flutt þar einhvers konar bræðingur úr söngleiknum Hárlakki sem framinn var í Hagaskóla fyrr í vor, við ógurlegan fögnuð. Hann er einnig að bíða eftir að fá að heyra hvort hann mun leika í kvikmynd í sumar. Nokkuð stórt, skilst mér.

Sá elsti er sumsé bara búinn að meikaða. Þarf ekki að orðlengja það. (Enda urðum við dáldið stolt þegar við komum einhverju sinni á sýningu í Vesturbæjarskóla, þegar hann var þar, þá um 10 ára eða svo, og sáum að hann hafði skrifað einhversstaðar að hann ætlaði að verða Hugleikari þegar hann yrði stór. Stolt stund. Enda lék hann sinn fyrsta einleik hjá því leikfélagi skömmu síðar.)

Þau yngri hafa líka verið að sýna efnilega takta í einhvers konar listhneigð.

Við Freigátan vorum að ræða um sumarið. Hún sagði: „Þá ætla ég bara að láta mig dreyma gula liti því sumarið er allt í gulu. Núna dreymir mig bara hvítt því það er vindurinn.“
Eh... ókei. Efnileg í artífartinu.

Bróðir hennar, Hraðbátturinn, átti líka merkilega innsetningu um daginn. Systir hans var að horfa á einhverja Barbímynd, sem hann hafði nú takmarkaðan áhuga á, svo hann kom fram þar sem ég var að vesenast. Þar setti hann tóma óhreinatauskörfu á hvolf. Ofan á hana setti hann lítinn Ikea stólkoll. Þar ofan á setti hann lokið af óhreinatauskútnum. Þar ofan á raðaði hann ýmsu smálegu, m.a. naglaklippum og tannstönglum. Svo fór hann á bak við þetta alltsaman og sagði, með bjagaðri röddu: „Einu sinni var kall. Hann var inni í húsinu sínu og borðaði svo mikið að hann varð allt of stór.“ Svo kom hann fram fyrir og sagði (með eðlilegri rödd) „Þetta var leikrit.“

Ef fólki finnst við hjónin artífarta yfir okkur? Bíðiði bara!
Yngri börnin okkar eiga eftir að verða einhverjir algjörlega óskiljanlegir skúlptúra-hljóðmyndar-innsetningalistamenn!

5.5.11

Vor

Takmörk dagsins eru tvenn.
Að reyna að nenna að fara yfir eins mörg próf og ég mögulega get... (Af 100 mögulegum) Og reyna að éta ekki of mikið.
Já, og drekka ekki kaffi. En ógeðslega mikið vatn. Einhversstaðar í bakhöfðinu langar mig að taka smá ávaxtakast og aðlaga mataraæðið pínu (og mjókka kannske ofurlítið?) áður en skólinn byrjar.

Nú eru að verða 2 ár liðin frá átakinu "byrja að skoða hvað maður étur og hreyfa sig eitthvað." Það virkar alveg. Í ljós kom að það er mikilvægt fyrir mig að hreyfa mig helling, til þess að ég hafi orku í alla kyrrsetuvinnuna og haldi draslinu gangandi. Hins vegar hefur í ljós komið að maður brennir alveg fáránlega litlu.

Ergó: Ef maður ætlar að breyta um lögun hefur það allt að gera með hvað maður lætur mikið af mat (og matarlíki) í smettið á sér. Það skiptir ekki einu sinni sérstaklega miklu máli hvað það er. Bara að éta ekki í óhófi. Dáldið einfalt. Eða hvað?

Nei, ekki einfalt. Ég er brauðfíkill. Alveg kreisí í allt með saltbragði. Ég drekk eiginlega aldrei gos og get átt súkkulaði þangað til það skemmist... En brauð og brauðtengt get ég étið endalaust. Og sérstaklega á kvöldin.

Og annað sem ég átti ekki von á að fatta. Það er óstjórnlegt mikilvægi þess að hvíla sig nóg. Þegar maður verður þreyttur, tala nú ekki um langþreyttur, þá er svo stutt í ílöngun í allskonar orkusprengjur og óæti. Ég þarf helst að hunskast í bælið fyrir ellefu. Svo ég detti ekki íða.

Leiðin fram hjá þessu eru vatn í óhófi, og ávaxta og grænmetiseign. Ég kaupi vínber, litlar gulrætur og epli, þegar mér finnst vera komið gott af óhollu kvöld-áti. Fyrstu kvöldin í afvenjun raða ég í kringum mig allskonar hollu. (Svo endar með því að ég hætti að nenna því. ;)

Hjólaði annars heim úr vinnunni í gær. Það gekk ágætlega, þangað til keðjan datt af. En það hjól (verslað af konunni sem var að flytja út úr íbúðinni á neðri hæðinni á 5000 kall fyrir nokkrum árum) ætti alveg að duga okkur í bili. Stefnan er að vera með skiptiskipulag á hjóladæminu, annað hjóli í skólann á morgnana og hitt keyri með börnin, svo skiptum við og sá sem hjólaði um morguninn keyrir og sækir seinnipartinn. Þessi hjólatúr tekur annars enga stund. 20 - 30 mínútur.

Jæja. Búni bunkinn af prófum er ennþá miklu lægri en eftir-bunkinn.

36 dagar í skóla!
(Ætla samt ekki að verða eins og skólafíklarnir í gamladaga, sko. Vantar bara alvarlega eitthvað viðmið í þessum yfirferðarleiðindum.)