28.1.11

Allskonar fyrir ömmur, frænkur og aðra forvitna

Þetta er með ólíkindum. Þessi stúlka (ótrúlega eðlileg á svipinn á þessari mynd, en myndast annars eins og mamma sín) er fimm ára í dag. Það sem er með ólíkindum er að ég er nýkomin með hana heim af fæðingardeildinni. Eftir þrjú svona örskotstímabil verður hún semsagt tvítug.

Hólímólí.

Annars hef ég gleymt að segja fréttir af kílóakeppni hjónanna. Staðan er gríðarlega jöfn og spennandi og við höfum alveg skipst á að hafa forystu. En þegar staðan var tekin í gærkvöldi var ég búin að missa 3 kíló frá áramótum og Rannsóknarskip rúmlega 3 og hálft. (Taka verður með í reikningin að tvö kíló hjá hvoru voru líklega jólakíló, sem runnu af um leið og hangikjötsáti sleppti. Svo þetta "kíló á viku" mynstur er nú líklega ekki að fara að haldast.)

Svo þannig er staðan með það. Annars var önnur sýning á Helgi dauðans í gær. Alveg sæmilega margir í salnum og sýningin gekk ferlega vel. Þetta virðist bara ekkert sökka hjá okkur.
Allir að koma!

27.1.11

Háskólaruglan

Nú hefur nokkið lengi staðið til að við skreppum til Kanada með allt liðið. Stefnan var upphaflega sett á 2012, en þar sem það kostar milljón (í alvöru, ekki næstum neitt) að vera með Hraðbátinn í dagvistun fyrri veturinn sem við yrðum þar var áætluðum vistaskiptum frestað til 2013. Alltíkei.

Upphaflega stefndum við reyndar á Manitoba en allir sögðu að þar væri geðbilaðslega kalt. Þá var nú eiginlega farið að miða á Toronto en Rannsóknarskip var nú samt alltaf að fá ábendingar á University of British Columbia í Vancouver. Mér fannst það nú eiginlega allt of langt í burtu, en loksins þegar ég dratthalaðist inn á heimasíðuna þeirra sá ég að þarna var líklega fjölskylduvænsti og flottasti skóli í heimi. Svo stefnan hefur verið þangað síðan.

Nema hvað nú fyrir skemmstu fer Rannsóknarskip allt í einu að tala um að hann sé of langt í burtu! Eftir að vera búinn að selja mér hugmyndina og hvurveithvað.

Reyndar er nú sennilega gáfulegt að láta hann sækja um í fleiri en einn skóla, og láta síðan auðnu ráða. Hins vegar er frekar flókið hvað ég er með mikla fordóma gagnvart ýmsum löndum.
Skilyrði er að landið sé enskumælandi. (Helsta takmarkið er jú þrautþjálfun enskukennarans í því tungumáli og bókmenntum einhvers hinna ensku málsvæða.

En ég fer ekki með börn til Bretlandseyja. Það eru alltaf allir fullir þar. Ég er líka haldin fordómum gegn Bandaríkjunum. Alltaf allir dópaðir þar, auk þess sem Bandaríska hrunið gæti alveg verið á leiðinni. Í báðum þessum löndum sökkar líka almenna skólakerfið alvarlega og einkaskólar eru fokdýrir. (Ókei, ekki á Írlandi. En þar eru allir kaþólskir og ennþá fyllri en annarsstaðar. Svo það er samt úti.)

Kanada er enn inni í myndinni. Og auðvitað eru fleiri skólar þar úti um allt. Miðjan á því er samt kannski soldið úti, vegna kulda. En Prince Edwards Island kemur auðvitað alveg til greina. (Hver vill ekki eyða tveimur árum á slóðum Önnu í Grænuhlíð? Alveg örugglega aldrei neinn fullur þar...)
Svo skoðaði ég Nýja Sjáland. Það held ég sé nú algjör paradís... en var ekki upphaflegt markmið endurskoðunar að fara skemmra í burtu? Hmmm...

Svo getur vel verið að til séu skólar um öll þessi lönd sem eru gargandi fjölskylduparadísir með geðbiluðum enskra bókmennta og leikhúsrannsóknadeildum sem ég er alveg að missa af. En vill til að ég er að fara til Japan að hitta leikhúsnörrasamfélagið í sumar og er t.a.m. að fara í 13 tíma flug frá Istanbul með kunningja mínum sem er búinn að læra í Bandaríkjunum og Írlandi og stendur í ströngu við að sækja um post-doc stöður í öllum hinum enskumælandi heimi og getur sjálfsagt mælt með einhverju og sigað mér á aðra leikhúsnörra til að spyrja um allan fjandann.

Enda... það eru víst ennþá tvö ár til stefnu.

Best að tékka samt aðeins á háskólanum hennar Önnu í Grænuhlíð, áður en maður hypjar sig á Bandalagið.

Smá viðbót: Fann nú hreinlega lúxusútgáfuna af Grænuhlíð, til leigu fyrir slikk. Spurning um að drífa sig bara NÚNA!

26.1.11

Hart (í) bak!

Smá baksaga.

Þannig er að árið 2004 lyfti ég málningarfötu. Ég hélt hún væri tóm, en hún reyndist troðfull af málningu. Og ég meiddi mig í bakinu. Leið og beið og ég fann fyrir þessu svona tvisvar á ári. Þangað til vorið 2009, þá var ég orðin alveg að steindrepast. Eitthvað gat ég látið þetta skána með hlaupum og ólátum og svona, en aldrei almennilega.

Um tveimur árum síðar drulluhakkaðist ég loksins til læknis. Sá gaf mér bleðil til að fara með til sjúkraþjálfara. Og þangað fór ég í morgun. Algjörlega viðbúin að fá slæmar fréttir um varanleg örkuml, aðgerðir og endalausan kostnað í sjúkraþjálfun ævilangt eða lengur.

Þegar ég hafði stamað upp sorgarsögunni sagði fjallmyndarlegi sjúkraþjálfinn: „Já. Þú hefur tognað í bakinu þarna um árið og þú viðheldur bólgunni með því hvernig þú situr.“
Ég þarf að mæta til hans þrisvar eða fjórum sinnum, sitja almennilega, og málið er dautt.

Sem sagt, þunglyndi, kvíði og pirringur undanfarinna mánaða reyndust vera þreyta og ég lagaði það sjálf með því að hvíla mig nóg og bakið laga ég með raðskatinu á mér. Raðaði vinnustólnum þannig að ég sitji í honum eins og manneskja og get byrjað að láta mig hlakka til Í NÆSTU VIKU þegar ég verð ekki lengur eins og gamalmenni í stoðkerfinu.

Kannski maður hefði nú átt að öjlast til að láta athuga þetta eitthvað, svona tveimur árum fyrr.

Horfði annars tvisvar á Zeitgeist – Moving Forward í gær. Engar nýjar upplýsingar þar, svo sem.
Í því samhengi eru spennandi hlutir að gerast í Túnis og Egyptalandi. Þjóðirnar þar virðast eitthvað vera að hrista af sér gullrassana. Og Stjórnlagaþingið? Kom ekki á óvart að það yrði stöðvað með öllum tiltækum. Það búa tvær þjóðir í þessu landi. Tvö mannkyn í heiminum, reyndar. Það hriktir í stoðum gamla peningavaldakerfisins úti um allt. En það á ekkert eftir að hverfa hljóðalaust inn í sólarlagið.

Þetta er rétt að byrja.
Og margir verða dauðir og heilmikið ónýtt áður en yfir lýkur. Og ekkert víst að yfir ljúki fyrr en eftir hundrað ár, eða svo.
En heimsveldi hafa hingað til endað með að hrynja. Og heimsveldi peninga(manna)nna virðist ætla sömu leið.

Ég ætla nú bara að láta mér batna í bakinu og halda áfram að rannsaka leikhús.