10.12.04

Langtímamarkmið: Næstu jól ætla ég að eiga Aftur Sama Kærastann.

Var að huxa um jólagjafir handa Nýja Manninum og Nýja Barninu og hef ekki hugmynd. Og fékk margfalt deja vu. Þetta eru sumsé fjórðu jólin í röð sem ég á Nýjan Mann og veit ekkert í minn haus. Finnst klént að bjarga mér önnur jólin í röð á Liverpool-dóti. Hef reyndar þann valkost í ár að bjarga þessu með áfengi (gagnvart Rannsóknarskipinu, ekki Smábátnum... ennþá... held ég...) en notaði það eiginlega þegar hann átti afmæli.

Ég er orðin of gömul til að nota hugmyndaflugið á hverju ári. Þess vegna segi ég og skrifa, og Morrinn má éta mig í heilu lagi ef ég stend ekki við það, ég ætla Aldrei Aftur að Skipta um Mann. Aldrei.

Ef það verður aftur reynt að að dömpa mér ætla ég bara að stinga puttunum í eyrun, loka augunum og syngja hátt: „Heyri ekki tilðín! Lallallah!“

Og ef það text samt, á einhvern lymskulegan hátt, eins og t.d. í tölvupósti, og einhver annar ætlar að fara að gera hosur sínar grænar fyrir næstu jól, þá ætla ég að segja: „Þegiðu og farðu, nenni ekki að tala við þig fyrr en eftir áramót.“

Allt útspekúlerað.
Nú er heima.
Nákvæmlega 2 vikur í aðfangadag, baðkarið mjakast nær og nær Betlehem og þjóðfélagið nær og nær barmi taugaáfalls, og ég er ekkert farin að gera. Íbúðin mín lítur alls ekki út eins og systir mín hin smámunasamari sé að fara að vera þar um áramótin og ég veit ekki neitt um jólagjafir handa neinum. Sé fram að að eyða næstu tveimur helgum í Smáralindinni með taugadrullu.

Desember, alltaf sama stuðið.

Get þó ekki á mér setið að senda öllum námsmönnum nær og fjær innilegar samúðarkveðjur. Man allt of greinilega hvað þeir eru að ganga í gegnum *hryll* allavega nógu vel til að ætla aldrei að læra neitt framar.

Ég man hins vegar ennþá lengra aftur þegar desember var skemmtilegasti mánuður í heimi. Maður fékk súkkulaðidagatal (ekki enn búið að finna upp á þeirri fásinnu að súkkulaði væri óhollur morgunmatur fyrir börn), fékk í skóinn, og svo var jólaköku- og laufabrauðsbakstur og amma gerði flatbrauð niðri í kjallara. Og litlujól. Og alvörujól. Og áramót sem voru ekkert misheppnuð þó manni láðist að detta íða og manni var alveg sama hver væri að spila á ballinu. Gjörsamlega endalaus haugur af skemmtan.

Hvað varð eiginlega af þessu öllu saman? Það kannski bara rétt sem mamma mín (hin næstum sextuga kona sem er ekki orðin amma) andvarpar um hver jól: Það eru nú eiginlega engin jól nema það séu börn...

Beini þeim tilmælum til bróður míns, hins harðgifta, að fara nú að bæta úr þessu! Helst fyrir jól!
(Ef hann þorir... veit reyndar ekki hvernig nokkru barni myndi reiða af með þrjár frenjur eins og okkur systur hans fyrir föðursystur... þannig að ég skil vel ef hann þorir ekki...)

8.12.04

Pfff. Uppfylling fyrirheita um hálft atvinnuleysi virðast nú ætla eitthvað að láta á sér standa... Eins og staðan er í dag lít ég út fyrir að vera að vinna á Dévoffinu frá og með deginum í dag til og með fimmtudax í næstu viku. Svindl... En vona nú að uppsögn mín taki gildi einhvern tíma á þeim tíma. Nenni allsallsekki...

Fór með einkabarnið, ásamt með ljóta miðanum frá skoðunarmanninum, á verkstæði í morgun. Þar tók við því föðurlegur maður sem lofaði að sjá til að það fengi bót allra meina sinna og yrði búið að fara í endurskoðun fyrir daxlok. Þá er bara eftir að láta laga framrúðuna, sem mennirnir á hinu verkstæðinu sprengdu. En ólíklegt er að greyið komist í nýjan alklæðnað (heilsprautun) fyrir jól, sýnist mér. Litla græna gæludýrið mitt er samt allt að verða hið fínasta.

Á þessum árstíma annríkis hjá öllum öðrum gerist hins vegar alltaf nokkuð merkilegt á minni skrifstofu. Nefnilega mest lítið, fyrir utan einn og einn jólasvein sem vantar skegglím. Það er byrjað að sjást niður úr haugunum af því sem ég þarf að skrá og vesenast með þannig að hér ríkja rólegheit, fyrir utan eina og eina sprengingu frá athafnasvæðinu við hliðina. Þær gera það að verkum að minjagripum í hillum fer fækkandi, sem aftur gerir jólahreingerningu komanda auðveldari. Og er það vel.

Það rignir annars hundum, köttum og páfagaukum í dag. Ekki sérstaklega jólalegt... Var samt að fatta að ég er að fara heim í heiðardalinn eftir nákvæmilega 2 vikur!
Jibbíkóla!

7.12.04

Nú ætla ég að stríða Höllu.
Þann 6.10. (rétt áður en ég fór norður á hinn afdrifaríka haustfund) skrifaði hún nefnilega svohljóðandi komment á bloggið mitt:

Líklega er helst að finna karla með fulle mem úti í skógi? Þeir eru amk ekki á Akureyri og nágrenni Sigga mín, ef þú ætlar að skoða þig um fyrir norðan ljúfan!

Hahaha! Sumir hafa greinilega minni trú á sinni heimabyggð en efni standa til!
Halla þó! Nú held ég að Rannsóknarskipið verði hvumsa.

6.12.04

Best að hætta að þvæla um einhver jólalög og fara að einbeita sér að því sem máli skiptir. Er ekki einu sinni byrjuð að huxa um jólagjafir. Hvað þá fara í búðir. Geissssp.

Þessa dagana eru þeir auðþekkjanlegir sem vinna í búð. Það eru þessir þreyttustu sem maður sér. Þeir sem vinna á veitingastöðum væru enn auðþekkjanlegri vegna þreytu, ef þeir sæjust einhvern tíma annars staðar en í vinnunni.

Alltaf þegar ég á leið framhjá Lækjarbrekku þessa dagana fer um mig hálfgerður hrollur, en að sama skapi hálflangar mig að stökkva upp á Litlu-Brekku, skella Mariuh Carey í spilarann og fara að dekka upp, syngjandi hástöfum. Vona bara að sú freisting fari ekki að bera mig ofurliði. Þegar ég verð orðin atvinnulaus að hlutastarfi þarf ég nefnilega að skrifa dót.

Fór á tónleika með Hraun um helgina. Það var skemmtilegt. Gerði nákvæmilega ekkert annað og átti í mestu vandræðum með að halda mér vakandi það sem eftir lifði helgar. Skammdegisþunglyndið heldur betur farið að kikka inn. Það er alltaf jafnskemmtilegt. Þegar maður gerir ekkert, en er síðan með vonda samvisku yfir að gera ekkert, en gerir samt ekkert. Og fær meiri vonda samvisku. Þarf að fara að éta blómafræbbla og kál, eða eitthvað.