31.12.08

2008

Árið ku hafa verið sviptivindasamt. En samt munum við ljúka því á nákvæmlega sama stað og það hófst. Minna ólétt en með sem því nemur stærri fjölskyldu. Og með minna hor þar sem pensillínskammtar voru þetta árið innbyrtir fyrir jól, í akkorði. Það virkaði.

Semsagt, síðasta ár hófum við í góðærinu á Brekku í Eyjafjarðarsveit, heimili tengdamóður vorrar og mágs. Í ljómandi yfirlæti. Óvenju Smábátslaus vorum við þó, hann dvaldi í Ameríkunni vestra með móðurfjölskyldunni sinni þau jólin, áramótin og aðeins lengur. Svo var brunað í bæinn og Smábátur endurheimtur skömmu síðar.

Þegar þarna var komið sögu var Móðurskip orðið nokkuð þungt á sér, svona framantil. Af fyrri reynslu bjóst ég þó ekki við neins konar fjölgun í fjölskyldunni fyrr en undir lok febrúars. Ofurlítil Duggan kom öllum gríðarlega á óvart og ruddist í heiminn, þó ekki með látum heldur bara með léttum leik, þann 3. febrúar. Og í algjörri þversögn við dópþokuna sem Freigátan kom í heiminn í duttu engum verkjameðferðir í hug fyrr en eftirá, í þetta skiptið. Greip um sig nokkuð panikk í fjölskyldunni. Menn voru ræstir út um allt land til að koma og passa hin börnin, bílstóll var ekki kominn í hús svo við lá að sá stutti þyrfti á langlegudeildina meðan verið væri að redda honum heim. Reyndist hann síðan vera hið mesta rósemdarbarn svo það fór ekki meira fyrir honum utan bumbu en innan. Eiginlega bara minna, þar sem nú var hægt að leggja hann frá sér. Hann svaf svo mikið að Móðurskipi auðnaðist að klára einn kúrs í háskólanum á vorönn, sér til dundurs og geðheilsubótar. Rannsóknarskip kenndi í Hagaskóla síðasta vetur og Smábátur stundaði nám við Vesturbæjarskóla og Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Freigátan á leikskólanum Ægisborg.

Undir vor bárust þó þau skemmtilegu tíðindi að Freigátunni hefði auðnast pláss á leikskólanum Drafnarborg sem er bara beint hinumegin við götuna, í um 20 sekúndna göngufæri ef maður er tveggja ára. Hún fékk því að hætta á Ægisborg í vor þar sem fjölskyldan hugði á sumarsetu á Stöðum Egilsins. (Vonuðum á atvinnuleysi með haustinu svo hún kæmist nú fljótt og vel að á nýja leikskólanum. Meira um það síðar.)

Áður en sumarið skall almennilega á brugðum við okkur vestur á firði á ættarmót. Ógurlega skemmtilegt að koma þangað aftur. Og ljóst er að skipuleggja þarf vikudvöl í spúttníkk-ferðamannastaðnum Hænuvík einhverntíma á næstu árum. Ólíklegt að við nennum því þó fyrr en yngstu börnin eru orðin örlítið stærri og verða farin að kunna að meta að sulla í sjónum. Án þess að vinna sér meira tjón en að sökkva upp í stígvélunum.

Að afloknum skóla brunuðu Rannsóknarskip og Smábátur norður í land þar sem annar skyldi nema leikritun í Dalnum Svarfaðar og hinn dvelja í föðurhúsum. Sama dag ókum við hin austur á land með fulltingi Ömmu-Freigátu sem var aðstoðarmaður við langkeyrslu. Þá var fjölskyldan margklofin í næstum mánuð þar sem Rannsóknarskip, eftir að hafa rifið af sér tánögl í örvæntingu á leikritunarnámskeiðinu (soldið eins og þegar Van Gogh skar af sér eyrað) fór hann beint í að láta rífa úr sér hálskirtlana eftir króníska streptókokka nánast allan veturinn áður. Að því loknu fékk hann í bakið. Rannsóknarskip bruddi því parkódín forte í meira en mánuð í sumar og var á meðan til lítils gagns. En hefur verið betri maður síðan. Sérstaklega í hálsinum.

Meðan hans naut ekki við vorum við litlu börnin í foreldrahúsum mínum og fengum líka í nokkra daga svakalega duglega vinnukonu sem Freigátan kallaði Dísu. En það heitir hún ekki. Þetta var hún Sigþrúður föðursysturdóttir mín frá Patreksfirði. Hún var svakalega dugleg að hjálpa okkur og var hennar sárt saknað þegar hún hvarf aftur á vit villta vestursins.

Á Egilsstöðum leigðum við íbúð af kynlega kvistinum honum Jóni á Kelduhólum. Leiguna borguðum við í reiðufé þar sem náungi þessi er um áttrætt og af eldgamla skólanum og treystir ekki bönkum lengra en hann getur kastað þeim. Hann er í dag meðal ríkustu manna landsins. Íbúðin sem hann leigði okkur var fyrrverandi íbúð ömmu hennar Ásu Heiðar, ská á móti pabba og mömmu. Líka beint á móti fólki sem átti hund og við hliðina á fólki sem átti börn og sandkassa, kofa og fullt af dóti í garðinum og í næsta garði þar við hliðina á var trampólín. Eins og gefur að skilja var Freigátan einstaklega hamingjusöm með aðstæður.


Áður en haustið kom skrapp Móðurskip á eina leiklistarhátíð í Lettlandi. Á meðan hætti Freigátan alfarið að ganga með bleyjur. Mikill áfangasigur þar.

Þegar í Vesturbæinn kom og menn skyldu hefja skólagöngur kom síðan babb í bátinn. Meira að segja tvo af fimm. Góðærið var enn að plaga leikskólann sem Freigátan átti að byrja á svo hún komst ekki þangað nærri strax vegna manneklu. Þar með vandaðist nú nokkuð málið með lærdómi Móðurskips sem enn sat uppi með hálfkarað rannsóknarverkefni og kúrs og verkefni í skólanum auk mömujóga, ungbarnasunds og ýmislex sem nú var vandi í að komast. Ástand þetta varði langt fram í kreppu og tóku þá við hefðbundin leikskólapestargangar aðra hverja viku fram að jólum og hefur Hraðbáturinn tekið virkan þátt í honum. Smábátur er þó sem fyrr fílhraustur og Rannsóknarskip orðinn allur annar og pestarlausari maður eftir að hálskirtlarnir hurfu á brott. (Nema það hafi verið tánöglin sem hafði þessi áhrif.)

Móðurskipið lét þetta ennfremur ekkert á sig fá og hirti þrjár níur fyrir önnina þrátt fyrir krónískt geðstrop af manneklu og veikindum á heimilinu. Og er hrrrroðalega montin.

Rétt fyrir jól þegar jólafrí hófust hjá öðrum brast á með feðrunarorlofi hjá Rannsóknarskipinu. Hann verður því bara til heimabrúx eins og forsetinn fram til 15. ágúst næstkomandi. Móðurskip fer að vinna lokaverkefnið í náminu sínu á bókaforlaginu Bjarti eftir áramótin og verður þar við námsstörf í 12 vikur og að því loknu við skýrslugerð í 3. Heldur að því loknu glaðbeitt á atvinnuleysisbæturnar þar sem ég hef huxað mér að þykjast vera einhvers konar rithöfundur á meðan ég bíð af mér kreppuna. (Reyndar á maður víst að þykjast leita sér að vinnu á meðan og auðvitað væri það eftir minni heppni að ég fengi bara svoleiðis.)

Semsagt, á meðan hagkerfið stefnir hraðbyri til fjandans og verðbólgan verður uppúr öllu valdi höfum við huxað okkur að lifa á einum námslánum og einu fæðingarorlofi af kennaralaunum. Og hugnast oss það ljómandi. Til dæmist þarf enginn að fara lengra en sem nemur því sem Smábátur hefur að fara í Vesturbæjarskólann, 5 mínútna gangur í snjó og með skólatösku, á daglegur basís, þannig að bílbeyglan fær mest að vera í fríi. Rannsóknarskip hefur ennfremur verið með yfirlýsingar um brauðbaxtur og heimilishald allt hið nytsamlegasta svo ekki kvíðum við kreppunni. En Móðurskip hugsar þó til þorrabyltingarinnar og hyxt taka virkan þátt í henni fyrir hönd fjölskyldunnar.

Þessi áramót erum vér öll í norðrinu. Höfum til afnota orlofsíbúð og verðum í Brekkunni í kvöld. Þar er Rannsóknarskip einmitt staddur nú um stundir að aðstoða bróður sinn við rolluhirðingar en sá síðarnefndi lasnaðist eitthvað núna í árslok. Líklega þyrfti að láta rífa úr honum hálskirtlana. Já, eða táneglurnar.

Og nú brestur á gamlárskvöld. Skora á flatskjáreygendur að fleygja nokkrum eggjum í ávarp forsætisráðherra. Ef menn hafa áhyggjur af rispum má alveg eins hafa þau spæld. Og ljóst er að áramótaskaupið í kvöld verður með þeim vandasamari sem samið hafa verið. Ég huxaði með öfund til þeirra sem svörtu bókina höfðu með höndum í borgarstjóraruglinu, en eftir því sem fleiri og fleiri rugl hafa bæst í sarpinn á árinu hef ég eiginlega fyllst örvæntingar fyrir þeirra hönd. Bútarnir í Kastjósinu í gær lofa þó góðu.



Við óskum öllum vinum og ættingjum til sjávar og sveita, og hvurutveggja, árs og friðar og þökkum allan viðurgörning á því liðna.

Sjáumst á Feisbúkk...

30.12.08

Já! Og!

Fékk hinar einkunnirnar! Tvær níur! Þá er meðaleinkunin eftir þessa önn: Níu!
Og meðaleinkunnin yfirhöfuð orðin vel yfir átta!
Lýk þessu ári á montskýi!

Ekki amalegt veganesti á atvinnuleysisbæturnar í vor!

Komin norður!

Ferð gekk vel. Hraðbátur svaf næstum alla leiðina og Freigátu leiddist hvað hann var lélegur að skemmta henni.

Íbúðin sem við erum í er alveg ljómandi. Og við erum búin að vera ljómandi dugleg að hanga í henni. En nú erum við komin í sveitina og ég er að misnota internetið hans Sverris máx. Erum líka með Smábátinn í láni í dag. Í kvöld skilst mér að eigi að spila "heima hjá okkur." Verðum svo líka hérna annað kvöld.

Og ef ég ætti flatskjá myndi ég nota tækifærið og henda eggjum í áramótaávarpið hans forsætisráðherra Haarde. En ég sleppi því nú heima hjá tengdó. Það er teppi. Og túbustjónvarp.

Hef huxað mér að versla stjörnuljós í Hrafnagili í kveld.

Og meika vonandi að semja áramótapistilinn minn á morgun.

29.12.08

Norður

Erum að fara norður. Tilraunir til að pakka niður er verið að gera með organdi börn í hárinu ganga sæmilega.

Fórum á Vestrið eina í gær. Æði.

Hraðbátur á síðasta degi pensillíns og vaknaði í morgun með ekkert RS í lungunum sínum og engan reykingamannahósta.

Hlakka til að pakka börnum niður í bílstóla og bruna af stað með þau kyrrsett og vonandi verður ekki mikið grenjað á leiðinni.

Tölvan verður með í för en internetið eitthvað síður svo ég veit ekki hvað verður bloggað.

Komum aftur 5. jan.