3.11.07

Back-of-a-head?

Já, við erum búin að senda Sylvíu Nótt í Júróvísjón, hví ekki Gilzenegger? (Tala nú ekki um að hafa það Gilzenegger og Barða, skemmtilega ólíklegt eyki.) Ég vil allavega sjá mannfræðikenningar Gilz messaðar yfir Evrópu. Hvernig menn geta verið Scarfs og T-shirts. Og að kúlst alls sé að vera Back-of-a-head. Ég efa ekki að þetta á eftir að valda straumhvörfum í evrópsku mann- og menningarlífi.

Annars hefði ég ekki átt að vera svona drjúg með mig í streptunum um daginn. Er að fá einhvern fjandann. Verið að reyna að berja ósómann niður með valdi, búin að éta c-vítamín eins og nammi í dag og fara í heitasta bað í heimi og er núna með hitapoka á lungunum og te. Freigátan hamast við að endurgjalda umönnun haustsins og kemur reglulega með klósettpappír og snýtir mér. Stundum líka bumbunni, enda ekkert ólíklegt að Ofurlítil Duggan sé líka með kvef.

Best að éta nú öll verkjalyf sem má og fara að sofa. Klukkan 10 á laugardaxkvöldi. Ef það klikkar gefst ég alla leið upp og lext eins og pönnukaka þar til annað kemur í ljós. En stefnan er að batna í nótt!

2.11.07

Hillingar

Eyðilagði algjörlega fyrsta dag vetrarfrís Rannsóknarskips með því að pína hann til að eyða honum í IKEA. Út úr því höfðum við reyndar þessar ljómandi fínu hillur á ganginn, sem ná til himins og eiga að geta innihaldið allt bókasafn heimilisins, eða þar um bil. Í sárabætur fyrir að þurfa að eyða helginni í að byggja þær fær hann að sofa í allan dag.

Sjálf kom ég Freigátunni á leikskólann, en hún er að slá met í dag. Þetta er fyrsta heila vikan sem hún er á leikskólanum, alla, algjörlega án veikindafrís. Það er nóvember. Hún byrjaði á leikskóla í ágúst.

Ég fer alveg að þurfa að horfast í augu við að ég er að verða of ólétt til að vinna verkefni í Bókhlöðunni. Er búin að eyða klukkutíma í að vaða ég upp og ofan stiga til að viða að mér gögnum í ponkulítið verkefni sem gildir 3% af Ritstjórninni og Hræðilegu skrifunum. Komin með bæði grindverk og samdrætti og er mest að spekúlera í hvar er best að fæða í Þjóðarbókhlöðunni.

En nú er ég komin með þetta alltsaman og búin að hlamma mér fyrir framan tölvu, alveg tilbúin að byrja einhvern ógurlegan samanburð á greinum og ritgerðum, og hverju byrjar maður á? Jú, blogga eins og fáviti. Um ekki neitt. Merkilegur andsk...

Var annars að fá tölvupóst þess efnis að mér hefði algjörlega láðst og yfirsést að borga skráningargjaldið í háskólann. Ef ég geri það ekki undireins þá verður mér fleygt beina leið út. Jæja, fór aldrei svo að maður hefði ekki eitthvað að gera við barnabæturnar. Rannsóknarskip eyddi sínum í hillur.
Ætla allavega að borga þetta á eftir.
Og fara svo í búð.
Og síðan bumbusund.
Verð að fara að byrja á þessu fj... verkefni.
Grrrrr.

1.11.07

Lag

Gleðilega messu allra heilagra. Og Hrekkjavöku í gær. Nóg af útlenskum stórhátíðum.

Í dag er Rannsóknarskip í vetrarfríi og er að verða langt kominn með að kippa öllum heiminum í lag, fyrir hádegi. Hann fór til háls- nef- og eyrnalæknis í morgun, af því að ég heimtaði það. Fyrirfram var hann nú eitthvað að halda því fram að hann hefði ekkert að segja við lækni, af því að hann er nú ekki fár-fárveikur, akkúrat í dag.
Ég sagði honum að segja lækninum til dæmis frá stíflunni sem er búin að vera í nefinu á honum síðan 1992. Og svo frá öllum flensunum, hóstunum og sleppunum í haust.
Eitthvað hefur hann nú sagt gáfulegt, heim kom hann allavega með fullar hendur pensillíns og steranefspreys þar sem á að reyna að flæma út óbjóðinn í eitt skipti fyrir öll. Og læknirinn ku hafa úrskurðað nefið á honum sem "ofnæmislegt".

Ekki var látið þar við sitja í lagfæringum. Núna er hann með bílinn í smurningu, olíu- og dekkjaskiptum. Að því loknu huxa ég ekki loku fyrir það skotið að ég drífi hann með mér í IKEA og við fjárfestum í hillum og þá hættir haugur af bókum að vera heimilislaus og gangurinn okkar verður allur fínni. Ekki loku fyrir skotið að fleira verði skoðað. Ekki oft sem við hjónin komumst barnlaus í þessa ágætu búð. Best að gera nú lannngan lista.

Þá verð ég nú aldeilis búin að eyða deginum í annað en að læra. Er enn ekki komin að neinni niðurstöðu um valkvíðann frá í síðustu færslu svo enn er galopið fyrir tillögur, ef menn nenna að hafa þær.

31.10.07

Valkvíðakast

Fattaði að útvarpsþátturinn minn er örlítið... ja, smá slatta, of stuttur. Þar með er komin afsökun, ef ekki bara ástæða, til að nota tónlist. 1 - 2 lög. Í viðbót við hið augljósa, Allt fyrir andann. (Má kannski taka fram að þátturinn er um sögu Bandalags íslenskra leikfélaga og heitir Allt fyrir andann. Svo það lag var fyrirframskipulagt inn í þáttinn.)

Síðan ég fór að pæla í tónlistarvali, í dag, hefur mér dottið allt of margt í hug. Til dæmist eftirfarandi, í einhverri röð.

- Að nota upphafslagið úr Nóbelsdraumum sem upphafslag og lokalagið úr sama leikrit, Blekkinguna, sem lokalag. Af því það passar svo vel.
- Að spila Ekki úr Eplum og eikum, af því að það er svo hrrrroðalega flott lag. (Reyndar heill haugur af flottum lögum úr því leikriti.)
- Að spila Reiðilestur úr Kolrössu. Eða eitthvað annað úr Kolrössu. Allt gott þar.
- Að athuga hvort ég finn eitthvað gott á eina Freyvangsdisknum sem til er á heimilinu til að spila eitthvað íslenskt og áhugaleikústengt sem er ekki Hugleixt.
- Að spila Smink með Ljótu hálfvitunum, af því að það er fyndið og lauslega leikhústengt.
- Að spila lokalag The Man of La Mancha í lokin, ef ég finn það.
- Að spila eitthvað úr Túskildingsóperunni, af diskinum sem Toggi brenndi einu sinni handa mér, ef ég finn hann.
- Að spila eitthvað af Harry Connick diskinum sem er allur úr leikritum, sem Rannsóknarskip er að reyna að ota að mér.
- Að spila "vel er mætt" af því að Togga finnst það eiga að vera bandalaxlag.
- Að spila eitthvað frægt eða semí... eða ekki... úr einhverju leikriti, íslensku eða erlendu... hmmm...

Og þetta er mér allt búið að detta í hug án þess að gramsa neitt í neinu.
Og ég hef pláss fyrir ca. tvö lög. Annað yrði sennilega að vera í lokin.
Segi nú skoðanir sínar allir sem nenna að hafa svoleiðis, og endilega ef mönnum dettur eitthvað eitursnjallt sem ég þekki ekki í hug.

Fer í stúdíó á mánudag.

Meiri miðvikudagur

Það er fleira undarlegt við þennan miðvikudag. Ég er búin að vera með einhverja undarlegheitatilfinningu í allan dag. Núna síðdegis er ég að fatta hvað það er. Það er hreint ekkert slagviðri. Það er meira að segja sól! Ég er ekki lengur viss um að það sé miðvikudagur.

Enda eins gott. Ég misreiknaði mig á strætó í hádeginu (þorði ekki að hljóla því það átti að koma snjókoma, og svo á ég líka svona líka ljómandi ókeypis námsmannastrætókort) og rölti í skólann. Stytti mér leið í gegnum kirkjugarðinn við Suðurgötu. Þar var eitthvað af prúðbúnu fólki sem huggðist greinilega leggja blómakrans hjá einhverju fyrirmenninu, en ég sniðgekk það alltsaman og labbaði austanmeð til suðurs og heilsaði upp á Guðrúnu Á Símonar og Benedikt Gröndal í leiðinni. Þau sögu fátt.

Annar praktískur gestafyrirlesari í dag. Mér til mikillar gleði er Fífl ekki mættur í dag.
Gæti orðið honum til lífs, þangað til næst.

---

Mar fer nú bara alveg að verða tilbúinn að reka sína eigin útgáfu.
É'v'tekki hvað maður veit ekki, orðið.

---

Og nú er Rannsóknarskip kominn í vetrarfrí. Og Smábátur farinn í sitt vetrarfrí. En við Freigáta (og Duggan) megum víst halda áfram að púla í skólunum okkar fram að helgi. Svindl.

---

Það er svo mikið af kjellingum í þessum kúrsi, að í pásunni hljómar stofan eins og fuglabjarg. Gaggaggagg.
Ég og örfáu strákarnir sitjum í horninu, ekkigluggamegin, og þegjum.
Þegar Fífl mætir situr hann í kjellingahópnum miðjum.

Svo láta þær líka margar agalega kjánalega framan í kennarann... Hann er reyndar voða fyndinn kall, en mér finnst nú alveg óþarfi hjá þeim að missa stjórn á sér og verða að smjeri og flissa og gapa eins og illa gefnar unglingsstelpur. Frekar hallærislegt þegar konur sem eru nær mömmu minni en mér í aldri fara að láta svoleiðis.

---

En nú er annar kennari að kenna það sem eftir er annar. Og hann er kona. Þá er bara að sjá hvort strákarnir missa sig.

Skrít og óléttufréttir

Þetta er nú heldur asnalegur miðvikudagur. Öllu flugi var aflýst vegna rox í gærkvöldi svo Smábátur þurfti að fljúga norður löngu áður en hann vaknaði í morgun. Þeir feðgar fóru bara á flugvöllinn fyrir skóla hjá Rannsóknarskipi og fengu sér morgunmat þar. Eins og kerfið hafi ekki verið komið í nóg rugl, þá er frí fram að hádegi hjá mér vegna veikinda eins kennarans míns. Hann var nú fyndinn í tölvupóstinum sem hann tilkynnti það í og lagði til að við notuðum tímann í að vinna í því sem við eigum að vera að gera... en ég er nú bara að hugsa um að leggja mig.

Við Gyða löbbuðum í leikskólann, Rannsóknarskip er á bílnum og sækir hana seinnipartinn. Þá verður hann kominn í vetrarfrí fram á þriðjudag og verður væntanlega ógurlega hamingjusamur með það... þangað til ég tjæj honum að við ætlum að eyða næstu dögum í IKEA. ;-)

En nú koma óléttufréttir. Það er helst að frétta að það er alveg sama hvað teljarinn á blogginu mínu æðir áfram, teljarinn á blogginu hennar Siggudísar er alltaf meira en hálfum mánuði á undan! Mér finnst ég komin með gjænormós bumbu, en óléttubuxurnar eru ósammála og halda áfram að vera allt of stórar. Enda held ég að ég hafi bætt eitthvað litlu á mig "meððí" í öllu annríkinu. Bestu fréttirnar eru þær að ég er ekki orðin eina græna baun farlama. Labba bara allt sem mér sýnist og fer ekki einu sinni hægar yfir en á góðum ó-óléttum degi. Er samt dugleg að mæta í bumbusundið, aðallega af því að það er svo gaman. Og svo var ég að panta í meðgöngujóga tvö kvöld í viku, en mér skilst að þar sé nú frekar langur biðlisti. Svo ég veit ekki hvort ég slepp inn þar fyrr en kannski undir jól.
Ofurlítil Duggan er farin að verða nokkuð dugleg að sparka og hamast, en ég er samt með á tilfinningunni að hún/hann sé eitthvað rólegri en Freigátan. Kannski eitthvað meira af Brekkugenum í þetta skipti. Svo eru þeir alveg hættir að láta mann vera að mæta í mæðraskoðun í tíma og ótíma. Ég þurfti að fara síðast á 16 vikum og þarf síðan bara ekkert að fara aftur fyrr en á 29. viku. (Einhverntíma seinnnt í nóvember. Spurning hvort maður má nokkuð vera að því, þá.)
Annars finnst mér þessi ólétta vera eitthvað svo lítið mál að ég man sjaldnast eftir henni. Mér finnst ég þó vera aðeins farin að þurfa að sofa meira, aftur, enda alveg að koma að þriðja þriðjungi sem var síðast talsvert óþægilegur, ef ég man rétt.

Og með það er ég farin að sofa fram að hádegi.

30.10.07

Tak

Við Freigáta löbbuðum á leikskólann í dag, í snjókomunni. Þegar ég kom heim var ég svo yfirkomin af hreyfingu að ég skráði mig í meðgöngujóga tvö kvöld í viku. Ég held ég hafi bara næsum aldrei verið svona svakalega... virk, eitthvað. Einhverntíma hefði manni þú þótt fullmikið að vera í 20 einingum í mastersnámi, svo maður tali nú ekki um óléttur með fullt hús af börnum. En það er nú bara að ganga ágætlega upp. Ég er alveg á áætlun í öllu og hef næstum aldrei þurft að læra utan leikskólatíma hjá Gyðu. Þó ég mæti alltaf í bumbusund þegar ég mögulega get. Það hefur svo sem oft verið fínna heima hjá mér... en það hefur líka oft verið draslaralegra og óhreinna af minna tilefni.

Ég held þessi velgengni í öllusaman hafi líka mikið með það að gera hvað ég er búin að ná góðum tökum á þunglyndinu núna. Þessi örfáu viðtöl sem ég fór í fyrir jól í fyrra hafa skilað meiri árangri heldur en öll þunglyndislyfin sem ég er búin að éta, samanlagt. Núna veit ég að þegar ég er að pirrast, sérstaklega þegar ég fæ "keðjupirr" (byrja að nöldra við sjálfa mig yfir einhverju, fer yfir í eitthvað annað, og svo jafnvel það þriðja) að það er ekki "það" sem er að pirra mig. Það er bara eitthvað annað. Stundum veit ég hvað það er. Stundum er það ekkert sérstakt. Stundum er ég bara í vondu skapi af engu sérstöku. Og ég má það.

Ég er nefnilega ágæt. Alls ekkert fullkomin, og þarf ekki að vera það og myndi aldrei nenna því. Ég held að stór hluti af mínu þunglyndi hafi verið Alheimsvinsældakeppnin. Ég hef oft orðið gjörsamlega miður mín ef mig grunar utan af mér að einhverjum mislíki hugsanlega eitthvað sem ég hef sagt eða gert í einhverju. Þó þetta "eitthvað" sé eitthvað sem kemur engum við nema sjálfri mér, þá hefur alveg komið fyrir að ég hafi ekki getað á mér heilli tekið útaf því hvað "einhverjum" finnist það nú kannski ekki nógu gott. Og þá skiptir engu máli þó 99% alheims hafi lýst yfir skilyrðislausum stuðningi við alla mína tilvist og að þessi einhver sé himinhrópandi bjáni. Neibb, Alfullkomnun og Alheimsvinsældir skulu það vera. Ellegar geðbólgur dauðans.

Djuls kjaftæði.
Ég er loksins búin að átta mig á því að meira að segja á slæmum degi geri ég það sem ég tek mér fyrir hendur bara drulluvel. Og það er nú bara bísna margt, og fer fjölgandi.

Mér finnst þetta hreðjatak sem ég hef á svarta hundinum svolítið vera eins og að standa upp. Eins og ég sé búin að vera liggjandi, af því að ég hélt ég væri lömuð, en núna er ég búin að fatta að ég er það ekki neitt.
Og get allt sem ég vil.
Sem er gaman.
En ég ætla samt ekki að reyna að gera allt, bara eins og kemst í tímann.
Og svo má ekki gleyma að gefa sér tíma til að dingla sér og leika sér við krakkana sína og svoleiðis.
Og blogga. ;-)

29.10.07

Hvað þýðir "itta"?


Freigátan var svaka fegin að komast á leikskólann í dag og er eins og lítið ljós núna, búin að leika sér við Kormák Smábátsfrænda síðan hún kom heim. Hann er ári eldri en hún og þau eru orðnir miklir pallar og dugleg að leika sér. Hún er alltaf að koma með fleiri og fleiri orð, flest getur maður skilið, en nú er hún farin að nota eitt í tíma og ótíma sem við bara getum ekki fundið út úr hvað á að þýða.
Núna áðan sagði hún það mikið við mig, og ég spurði: Hvað meinarðu með "itta"?
Hún horfði á mig eins og ég væri meira en lítið treg og sagði: Bittak!

Ég er engu nær.
Einhverjar hugmyndir?

Það er bara annar i snjónum

sagði Smábátur í morgun, gríðarlega ánægður með vetrarkomuna. Ég er aðeins minna hamingjusöm yfir þessu. Bíllinn er á sumardekkjum og ég þarf að vesenast um allan bæ í dag. Skíthrædd við hálkuna. Og ætlaði þvílíkt að hjóla í skólann á morgun og hinn!
En fyrsta götusnjóinn þurfti nottla einmitt að bera upp á fyrsta daginn í aldir sem Gyða má fara á leikskólann og ég get þar af leiðandi farið og reddað öllu sem er búið að trassast síðustu vikuna.

Andvarp.

Bezt að fara að skafa af helvítis bílnum.

28.10.07

Ýmis undur og misstórmerki

Í gær lyfti Rannsóknarskip grettistaki. Honum tóxt að draga mig út eftir kvöldmat. Hugga móða kom og passaði og við skruppum á þýska gestasýningu í Borgarleikhúsinu sem hét Endstation America. Það var lærdómsríkt. Ég fattaði að:
- Ég sé næstum aldrei neitt þessi árin nema sýningar Hugleix, sýningar eftir sjálfa mig og erlendar gestasýningar.
- Það er alltaf meira og minna sama fólkið sem sækir erlendar gestasýningar. Slatti af Hugleik og nokkrir aðrir leikhúsnörrar. (Eins og Tinna Gunnlaux og sollis.)
- Stundum borgar sig ekki að sitja beint fyrir framan baðherbergisdyrnar, séu slíkar á sviðinu.

Þessi sýning var alveg fyndin. Alveg hægt að klæmast heilmikið á Sporvagninum Girnd á þýsku. Og notkunin á textavélinni var fyndin og mikið í stíl vioð greinina sem ég er að fara að vinna fyrirlestur og ritgerð uppúr í þýðingafræði.

Í morgun kom að langþráðri stund hjá Freigátunni. Hún fékk að fara út. Við dúðuðum okkur þangað til við litum út eins og tvær jólakúlur og fórum svo út á næsta leikvöll og tókum þvílík tilþrif í fótboltanum að Siffi móbró hefði orðið stoltur af. Svo fórum við í lannnnga gönguferð og ég velti fyrir mér hvort fólkið sem á gamla og ónýta einbýlishúsið á Unnarstíg sem upphaflega voru settar á 82 milljónir en er búið að vera á sölu í meira en ár, fari ekki alveg að verða til í að skipta við okkur á sléttu. Verst að ég veit ekki alveg hvort við erum nógu smíðin til að nenna að kaupa ónýtt hús sem þarf að skipta um allt í, að innan sem utan. Ég huxa að það séu nú alveg skiljanlegar ástæður fyrir því að þetta fína hús stendur alltaf tómt með gulnuð TIL SÖLU skilti í gluggunum.

Feðgar ætla að fara að baka fyrir kökubasar í kirkjunni (þetta hljómar nú eins og upp úr einhverri nútímaútgáfu af Húsið á sléttunni) og Móðurskipið þarf að klára ógurlega merkilega leikritsþýðingu og skýringar með henni fyrir morgundaginn.

Þannig ætlar nú sunnudagurinn að leggja sig.