15.9.05

Já, nú er hún Flekka komin af fjalli...

...og með tvo riðuvæna dilka með sér!

Þetta tjáði mér hann Árni Þistill (svokallaður vegna uppruna í Þistilfirði) í óspurðum fréttum á fylleríi einhvern tíma síðla hausts árið 1991. Held ég þetta hafi örugglega verið mín fyrstu samskipti við þennan einstakling, sem ég átti eftir að eiga nokkur mis-súrrealísk samtöl við næstu árin, en hvers tilvist var búin að gleyma. Þangað til Nanna skellti inn fréttinni af henni Flekku á bloggið sitt um daginn. Þetta fer víst allt í hringi.

Datt bara í hug að tjá hamingju mína með lífið og tilveruna, akkúrat núna. Venjulega sökkar eitthvað í lífi manns. Ef það er ekki vinnan, hin vinnan, eða einkalífið má venjulega treysta á fjármálin. Nú bregður svo við að allt er í þessu líka lukkunnar velstandi, og er eiginlega búið að vera um langa hríð. Var að enda við að sitja höfundafund í mínu eigins eldhúsi sem var Shcnilld. Út af verkefni sem er vaxandi æði. Í vinnunni er ljómandi, eins og venjulega, og hin er líka mestmegnis skemmtan. Rannsóknarskip og smábátur eru mér til daglegrar skemmtunar og yndislegheita hverskonar og heimilisfriðurinn er til algjörrar fyrirmyndar. (Enda vita menn að hann verður úti með hækkandi sól og fæðingu huxanlex hávaðabelgs. Endanlega!)

Nú er annríki vetrarins síðan að hellast yfir, leikárið að byrja, stjórnarfundur í vinnunni um helgina og svona, þannig að mar ætti kannski að fara að fara snemma að sofa í staðinn fyrir að sitja og tölva vitleysu? En, því miður. Allt of skemmtilegt að byrja í sjónvarpinu.

Mál að linni, enda trúlega mörgum orðið óglatt af kætinni og hinir orðnir öfundsjúkir. Ja, nema Ylfa. Held hún þoli þetta. Og skilji, reyndar, þar sem hún er fædd næstum á nákvæmlega sama tíma og ég og samkvæmt japanskri stjörnuspeki ku allt sem gerist eftir þrítugt hjá fólki fæddu um þetta leyti að vera gargandi fokkíng snilld.

Meðvirkni Guðs?

Í framhaldi af Biblíuumfjöllun Varríusar fór ég að grufla útí nokkuð sem mér datt í hug einhvern tíma í sumar. Spratt af vangaveltum um eðlismun hins kristna guðs og norrænna goða.

Lengi vel botnaði ég ekki almennilega í guðunum grísku, norrænu og hindí. Það er að segja, skildi ekki alveg hvernig trú á slík virkuðu. Komst síðan að eftirfarandi:

Hinir norrænu, grísku og hindí eiga það vissulega sameiginlegt með okkar að vera eilífir og yfirnáttúrulegir, held ég, og geta gert hvað sem þeir vilja. Og gera það. Og í því liggur munurinn. Þeir eiga líf. Þvælast um, sofa hjá, fara í fýlur, og eru stundum ekkert að horfa eftir því hvort maður sé að þóknast þeim eða ekki. Það er alveg hægt að byggja hof og stunda hvaða blót sem er, en virki það ekki þarf ekki að vera nein vitræn skýring á því. Goðin geta hreinlega haft annað að gera. Eða verið einhvers staðar á fylleríi. Eða að slást eða r***. Eða í fýlu.

Á meðan okkar Guð, þessi eini sem er mikið í mun að við vitum ekki um hina, virðist ekki hafa neitt betra við tíma sinn að gera en að skapa jörðina og mannkynið og lifir síðan bara algjörlega fyrir það. (Og einhvern veginn er það rökstutt þannig að honum þyki svona ógurlega kæfandi vænt um börnin sín. Veit um svoleiðis foreldra. Þeir eru mjög andlega vanheilir.) Ef bænum til Hans er ekki svarað STRAX þá er það sko náttúrulega auðvitað hluti af stórri stórri áætlun sem Hann er að framfylgja, en vill ekki segja hver er. Ennfremur sér Hann ALLAR misgjörðir og ef eitthvað slæmt gerist þá er það sko alveg pottþétt Guð að slá á puttana. Og mér heyrist hinn islamski Allah vera mjög á sömu línu. Kannski eðlilegt að á milli fylgismanna þeirra félaga, sem báðir þykjast einir sinnar tegundar, skuli stundum slá í brýnu? (Hef reyndar grun um að þarna séu fylgismennirnir fífl og um einn og sama himnadrauginn sé að ræða.)

Eftir að ég fór að skilja goðin norrænu, grísku og hindí, komst ég að því að ég skildi þau betur en eingyðið okkar. Í okkar trú er vissulega kannski boðið upp á betri þjónustu, en hún kostar líka meira. Lífstíðarhundstryggð, hvorki meira né minna, og ef maður er óvart á aðeins rangri hliðargötu, ef kaþólikkar til dæmis eða gyðingar hafa rétt fyrir sér, þá er maður nú aldeilis í vondum málum.

Og svo er það auðvitað þetta með sköpunina. Ef fjölgyðin skópu manninn eða jörðina, þá var það trúlega í hjáverkum eða óvart. Eða bara einhver svona skyndihugdetta. Sköpunarsaga Hindúa, Mhabarata, er mjög fyndin. Hún er löng og flókin, með stríðum og útlegðum manna sem meira og minna spruttu upp af ökrum eða eitthvað þannig, og tekur yfir einhver hundruð ára og í lok hennar eru allir dauðir. Nema ein kjeelling, einhver algjör aukapersóna úti í horni, sem reyndist allt í einu vera ólétt eftir guð í vélinni og gat af sér mannkyn allt.

Mér þykja eiginlega sköpunarsögur fjölgyðanna skemmtilegri en sagan af okkar Eina sem eyddi einni viku í að baka sér eilíf vandræði. Og fannst það gott!

Er þó í seinni tíð að aðhyllast Búddhatrú meira og meira. Ef trú skyldi kalla. Þar á bæ eru menn nefnilega ekki með miklar hugmyndir um eilífan guð. Hins vegar stunda menn innhverfa íhugun og skoða heimspekirit Búddha og eftirkomenda. Sem fjalla mest um að menn skuli slappa af og reyna að hafa vit fyrir sér. Og mér þykja stytturnar af litla feita kallinum sniðugar. Miklu fallegri til húsprýði en þessi dauði eða deyjandi á krossinum, þó hann sé vissulega kannski meira hönk, sérstaklega ef maður er fyrir síðhærða rokkgoðumlíka karlmenn.

Svo er það þetta með karmað. Mér finnst það skemmtilegt og er viss um að að baki því sé einhver alheimsk efnafræði sem gerir að verkum að menn uppskera gjarnan eins og menn sá. Ekki alltaf, þó. Ekkert er alltaf. En þetta tengist því hvernig galdrar virka, líklegast. Hvort þetta virkar eins og búddistar segja inn í eftirlífið skal hins vegar ósagt látið. Sé ekki tilganginn með því að trúa staðfastlega á framhaldslíf, eða ekki. Þetta kemur allt í ljós.

En ég verð að viðurkenna að sérgirni himnadraugsins okkar fer stundum dáldið í taugarnar á mér. Það er þetta með boðskapinn: Gerðu eins og ég segi þér, eða hafðu samviskubit ella. Og svo er það ekki einu sinni nóg, taki maður erfðasyndina inn í dæmið. Og svo notar hann líka samviskuklemmur illra foreldra: Heyrðu, ég fórnaði syni mínum, þarna! Já, og skammastu þín svo.

Og nú er ég líklegast búin að guðlasta svo rækilega að himnadraugurinn, páfinn, Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel eru líklegast allir búnir að úthýsa mér. En karmað gæti hafa skánað...

Heilagur grall?

Það er eiginlega talsverður heiður að fá að vaka fram á nótt til að texta commentary með Joss Whedon. Mér líður eins og við Joss höfum átt magnað stefnumót í gærkvöldi. Hef hins vegar aldrei huxað útí hversu mikil martröð það er að texta bullið í manninum. Hins vegar kemur enginn til með að sjá afraxturinn. Allavega þætti mér gaman að sjá það fyrirbæri sem horfir á, í aukaefni DVD-disks, deleted scenes, með commentary, textað. En ég veit allavega hvaða atriði eru EKKI í myndinni Serenity, OG hvers vegna!

Og mér sýnast bloggheimar hafa meira og minna dottið í biblíuna. Biblíuskýringar Varríusar eru að hafa gífurlegar afleiðingar, þær vekja m.a. blogg upp frá dauðum!

13.9.05

Sigga Feita!

Er lox að fara að nálgast að bera nafnið sem formaðurinn hefur stundum brúkað á mig frá fyrstu kynnum, með rentu. Föt dæmast umvörpum úr leik. E.t.v. skiljanlegt miðaða við ástandið, en ég er reyndar hrædd um að ofeldið hjá mömmu og tengdó síðustu vikur hafi ekki bætt úr skák. Ástandið ákvað allavega allt í einu að ná allan hringinn og mynda keppi á snöggtum fleiri stöðum en gott þykir. Ówell. Skilst að Nanna sé farin að vinna í Kringlunni þannig að það er hægt að trufla hana í vinnunni í leiðinni við fatakaup í fílastærðum.

Það er verra að grindverkið er hreint ekki að standa undir þessum ósköpum og er því kominn tími á sjúkraþjálfara og meðgöngusund og allan fjárann sem ég má ekkert vera að.

Og talandi um að mega ekki vera að, fann nýja skemmtilega tímasóun. Sudoku er skemmtilegt.

Og svo raxt ég líka á í sveimi um frumskóga meðgöngutengdra netheima, svakalegt lúkk á vef. Þetta er sko ekki fyrir viðkvæmar sálir.

PS. Raxt líka á setningu á ónefndum spjallþræði:

"Ég á að eiga mitt fyrsta barn [dags. sem ég ætla ekki að skrifa] og mér hlakkar geðveikt til."

Huxaði í framhaldinu margar pólitískt rangar huxanir.

12.9.05

Það er komin mynd

af Rannsóknarskipinu í veskið mitt.
Held það hafi aldrei áður verið mynd af neinum í veskinu mínu.

Hef sennilega bara ekkert verið með hjartað í buddunni.

Attur

komin í vinnuna. Flaug á 11. september. Það var gott.

Og þann sama merkilega dag stóð systir mín hin norska við stóru orðin og stofnaði sér blogg!

Og eru það mikil tíðindi og ljómandi.

Og von er til þess að systir mín hin fyrrum norska hætti blaðamennsku og fari þá kannski að blogga af einhverju viti. Hún ætlar víst reyndar í sálfræðimálin þannig að það er líklega vissara að hún passi sig á kærunefnd einkamála (eða hvað það nú heitir sem bannar sálfræðingum að hafa asperger í flimtingum) sem ku hafa augu á hverjum fingri. En það er synd. Held hún Hugrún sé fær um fyndnari ærumeiðingar og "trúnaðarbresti" en flestir... Þetta verður nú missir fyrir D-Voffið.