23.5.09

Lokaloka

Jæjah. Þá eru lokaverkefnin í húsi. Ég fékk dramatíska senu eftir hann Eyfinn til að leikstýra, tvo vel reynda leikara á sextugsaldri, lítinn feiminn senógraf og Teldustovupallinn (stofuna sem ég er búin að vera í allan tímann) til að leikstýra í. Trú ég að Jáarinn geti ekki farið öðruvísi en vel út úr þessu. Fjórir tímar í æfingatíma á morgun og svo leiklistarhátíð klukkan 2. Fimm verk eru á prógramminu. Stuttligt verður það nú.

Nú eru menn bara að búa sig í veisluna (með mati og dansi) og ég er að drepa tímann með smá beilísi. En þetta fer að klárast.

(Og þá er nú gaman að hafa nóg að hlakka til. Hitta fjölskylduna og svona... og svo eru þrjár vikur í næsta svarfdælska skólann, hvar verður skólað í 9 daga! Jibbíííí!)

Davur 5 (fyrri partur?)

Sýnishornakvöldið í gærkvöldi var ljómandi. Við létum leikara lesa smá úr höfundaverkum okkar og gerðu menn það með tilþrifum, á færeysku sem íslensku. Svo sáum við senum hjá leikstjórnarnemum. Svo var rosalega gaman að sjá hvað leikmyndunardeild var búin að vera að bedrífa. Þau eru búin að sitja og föndra, og voru komin með þessi líka flottu sviðsmyndamódel og allskonar inspírerandi klippimyndir. Ágústuhópurinn hér í Færeyjum sló síðan botninn í. Hann er alveg feykilega sterkur og flottur. Þeir sem voru á Leiklistarhátíðinni í Riga í fyrra myndu líklega þekkja nokkra þarna úr Óþelló-hópnum. (Sem er bæðevei á leiðinni til Mónakó á IATA hátíðina.)

Gærkvöldið endaði svo með spjalli og syngi hvar ég hélt áframa að rifja upp allskonar gamlar syndir á herra gítar. Man einhver eftir Don't think twice? Og allskonar Pink Floyd? Ójájá.

Þá er bara kominn leygardagur. Nú víkur prógrammið aðeins frá því sem maður á að venjast, sem er að rugla mig endalaust. Í kvöld er nefnilega lokakvöldið, eða eins og segir í prógramminu, veisla með mati og dansi, og lokadagurinn, með hraðsoðnum stuttverkum og öllusaman, er ekki fyrr en á morgun. Klukkan 4 á morgun er síðan bara allt búið og allir fara heim. Nema við jáararnir. Við förum í matarboð hjá sendiherranum.

Nú er pressa á honum Eyfinni. Hann situr og bisar við að snúa Listinni að lifa (einþáttungsversjón) og Sigurvegaranum mínum yfir á færeysku. Ég er hins vegar búin að vera að punta uppá Orrustuna með smáatriðum. Er komin sæmilega í gegn, og hef tíma og er í góðum blaðsíðufjölda til að punta og bæta við smáatriðum. Svo ég er eiginlega bara að dingla mér. Og svo er ég líka að pikka upp eitt og eitt lag, svona inn á milli.

Jæjah. Vinna.

22.5.09

Davur 4

Jájájájájájá.
Ég hef alveg gleymt að minnast á matinn hérna. Hann er hreinasta afbragð. Svo veitingar voru líka á kvöldvöku, fínasta snakk og ídýfur og svo bjórkassi og rauðvínsbelja, í boði hússins. MÁF veitir gríðarlega vel. Eitthvað þarf maður nú að fara að herða sig í drykkjunni ef maður ætlar ekki bara með bjórinn sinn aftur heim.

Í dag lét sólin aldeilis sjá sig. Ég labbaði aðeins í bæinn í hádeginu, og það var nú fujnt. Svo skrauf ég mig alla leið í gegnum Orrustuna, klauf persónur í herðar niður í hrönnum og þetta verður bara skemmtilegra með hverjum deginum. Setning dagsins: Mamma þín er frænka þín. Togginn er farinn að semja söngtexta.

Í kvöld er sýnishornakvöld á námskeiðum. Það verða lesnar einhverjar senur úr verkum okkar Eyfinns, svo fáum við að sjá hvað Ágústu, Sigrúnar og senógraffanámskeiðin hafa verið að bedrífa. (Ég er ekki enn farin að læra hvað Danskurinn heitir. En ég verð nú að fara að gera það. Hann hefur unnið með Odin Theatre og ISTA og er þar að auki skemmtilegur kall.)

Svo er ég búin að vera að gítara soldið. Orðin nokkuð flínk í Har du visor (sem mig er búið að langa að læra í ein 10 ár) en ætlaði síðan að kenna mér Sympatique með Pink Martini. Fann hljómana... og þetta reyndist einhver allt annar handleggur. Sem ég er ekki viss um að ég sé með.

Sýning á Ó þú aftur í kvöld. Vonandi gengur það eins og í lygasögu.

21.5.09

Dagur 3 á skúlanum

Jæja. Þá er fyrsti "heili" skóladagurinn að verða búin. Ég er búin að skrifa og skrifa og gera alveg sæmilegt. Heljarslóðarorrustan er öll að verða skemmtilegri og vitleysari en hún var fyrir. Og er þá mikið sagt. Langhundum hefur verið slátrað hægri og vinstri og ótal lítil samtöl hafa orðið til.

Í morgun las ég leikritið hans Eyfinns, sem er harla gott, og líka söngleikur, og honum gekk alveg merkilega vel að skilja okkur Benedikt. Svo spjölluðum við og kennarinn sagði mér allavega ekki að troða þessu neitt upp í félagsheimilið á mér.

Hádegishléinu vörðum við kennarinn fyrir framan útvarpið á internetinu og erum bara harla ánægð með Helgrindurnar mínar.

Svo er kvöldvaka í kvöld. Sjálfsagt ekki leiðinlegri á færeysku...

20.5.09

Dagur 2 kominn að kveldi

Best að rapportera.
Kennsla hófst um níuleytið í kveld. Hér er verið að kenna fjögur námskeið. Sigrún kennir leikstjórn á færeysku, Ágústa kennir leiklist á ensku, Daninn (sem ég er ekki búin að læra hvað heitir en er ógurlega merkilegur og hefur unnið með mönnum sem ég hef lært um í bókmenntafræði) kennir leikmyndahönnun á dönsku og svo skemmtilega vill til að hann Eyfinnur talar líka íslensku svo Toggi kennir leikritun bara á því ylhýra. Fjöltunguskóli.

Nú sýnast mér allir nemendur ganga lausir og allt er að leysast upp í einhvern tóngjörning frammi í anddyri. Enda taldi ég eina 5 gítara koma í hús með fólkinu ásamt öllu mögulegu öðru til að spela á.

Ég er búin að fá herberisfélaga, lítinn leikstjórnarnema sem heitir Barbara og segist ekki snorka.

Og andi Benedikts hefur heldur betur komið yfir mig. Auðvitað ætti maður að vera að sósjalera, en nú skrifast bara og skrifast. Sérstaklega eftir að ég opnaði bjórinn. Þá lifnaði nú heldur yfir Gröndalnum í sjálfri mér og líklegast gerir hann mig að mesta félagsskít sem komið hefur í skóla þennan.

Dagur 2 í Eyjum Færanna

Það er helst í fréttum að kennarar eru mættir og líklega hefur nemendum á mínu námskeiði fækkað niður í tvo. Við Eyfinnur verðum semsagt tvö að læra að skriva hjá Togga.

Ég vatt kvæði mínu í kross og ákvað að skrifa hér ekki hádramað sem ég var búin að ákveða, heldur reyna að koma einhverju lagi á Heljarslóðarorrustuna, söngleik. Hefi ég vélað lærarann í hlutverk meðhöfundar svo ég á von á sæmilegri framvindu. (Hann getur bara samið þessi Hálfvitalög í Svarfaðardalnum eða eitthvað. ;)

Og nú ætla ég að fara að athuga hvort búið er að aflétta gjaldeyrishöftunum af kortinu mínu. Sé svo kaupi ég bjór og örlítið fleiri gjafir handa fjölskyldunni minni. Eiginmaðurinn verður nú að fá eitthvað ógurlega fojnt fyrir að vera aleinn heima í heila viku, með öll börnin og buruna og þann yngsta að jafna sig af drullunni.

Blíðar heilsanir...

19.5.09

Færeyjar, bara

Jæja, þá er ég búin að finna internetið. Í fínu litlu stofunni þar sem ég og hinir tveir nemendurnir ætla að skrifa hjá honum Togga.

Þegar ég yfirgaf flotann í um hádegið í gær hafði verið gert nokkuð hlé á gubbunni og í dag heyrist mér allt stefna í rétta átt, Hraðbátur reyndar slappur en ógubbandi en er víst enn með heilmiklu afturdrifi og Freigátan borðar stanslaust. Og enn sem komið er virðist ég ekki hafa tekið neina gubbu með mér.

Þegar ég lenti hér í gær vissi ég svo sem ekkert. Var alveg viðbúin því að finna mér bara svefpokapláss einhversstaðar og finna svo Meginfélagsskrifstofuna í morgun. En á rútubílastöðinni sveif hin Færeyska Bandalax-Vilborg (sem heitir Meginfélax-Malan) á mig, keyrði mig hingað í Fólkaháskúlann hvar ég hef verið síðan í yfirlæti hinu besta. Hún harðneitar að leyfa mér að borga nokkurn skapaðan hlut fyrir námskeið/fæði/húsnæði á þessu námskeiði. Ég er jú komin "alla þessa leið". Jahérnahér.

Enda lét ég ekki mitt eftir liggja við að styrkja færeyskt efnahagskerfi í dag. Þrusaði í færeysku Kringluna og verslaði handa börnunum þar til kortið sagði stopp. (Sem minnir mig á... þarf líklega að kíkja í netbankann.)

Ég er líka búin að sofa í 12 tíma í striklotu, éta allt sem ég finn og fara í kaffi á Meginfélagið. Svo koma hinir íslensku vitleysarnir í kvöld og þá verður nú líklega friðurinn úti. Svo nú er víst best að leggja sig vel og vandlega.

Já, og ef menn öfunda mig hræðilega mikið þá get ég svo sem bætt því við að það er haugarigning.

17.5.09

Fréttir

Góðan og blessaðan daginn. Eins og sést erum við Hraðbátur búin að fara út í blíðuna í morgun. Aðrir heimilismenn sofa á sín grænu. Freigátan er að jafna sig eftir magapest en er ennþá voða slöpp. Gubbaði í morgun og er sofandi. Og það sést ekki á þessari mynd, en Hraðbáturinn datt um daginn og fékk kúlu. Svo datt hann aftur í gær á sömu kúluna og er núna eins og einhyrndur lambhrútur.

Ó, þú aftur?
En, sem sagt. Hugleikur frumsýndi Ó, þú aftur? á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins á föstudagskvöldið. Við mikinn fögnuð allra viðstaddra og ég held við séum bara mjög ánægð með útkomuna. Svo er víst að seljast upp á allar sýningar! En þær sem eftir eru, eru:
Í kvöld, sunnudag 17. maí
miðvikudag 20. maí
föstudag 22. maí
sunnudag 24 maí
miðvikudag 27. maí
fimmtudagur 28. maí
föstudagur 29. maí.

Miðapantanir á vef Þjóðleikhússins.

Það er ekki lengi gengið á Helgrindur af mörgum mönnum.
Áður en það gerðist var ég búin að stúdjóa útvarpsþáttinn minn og er harla ánægð með útkomuna af honum líka. Hann heitir Það er ekki lengi gengið á Helgrindur af mörgum mönnum – Hugleikur 25 ára og verður útvarpað á fimmtudaginn, uppstigningardag, klukkan 10.15. (Síðasti dagskrárliður fyrir messu, svo mikið sem.) Svo verður hægt að hlusta á hann á vef ríkisútvarpsins í einhverjar vikur á eftir.

Lokaverkefni
Sama dag og útvarpsþáttur stúdjóaðist og Ó þú generalprufaðist fékk ég einkunn fyrir lokaverkefnið mitt. 8. Meðaleinkunn úr náminu 8,11. (Hefði getað verið hærri, allt of margar einingar, en ég nennti ekki að láta taka neitt út. Svo þá er það bara útskriftin... sem ég ætla ekki að mæta á vegna fjarveru.

...og svo bara Færeyjar!
Þá er það næsta ævintýri. Ég er að fara til Færeyja á morgun. Á leikritunarnámskeið hjá Þorgeiri Tryggvasyni (af því að maður hittir hann nú alllldrei) á Færeyska Meginfélagsskólanum. Verðum í Læraraskúlanum í Þórshöfn, en þar hef ég nú alveg gist áður. Fyrir 10 árum í Sálnajónannaferð. Reyndar mæti ég á svæðið tveimur dögum áður en námskeiðið byrjar, einum degi áður en hinir Íslendingarnir koma, og veit ekki neitt... en ætla að hafa með mér svefnpoka og er búin að finna farfuglaheimili og hyxt líka heimsækja færeysku bandalagsskrifstofuna og svona. Og sofa gríðarlega fram að námskeiði. Það hefst á miðvikudagskvöldið og ég ætla að reyna að vera dugleg að senda einhverjar örfréttir hingað og á fésbókina.

Jæjah... best að reyna að fara að byrja að þvo, það sem þarf síðan einhverntíma að pakkast.