9.10.09

Að lifa október af. Dagar 8 - 11.

Ég mæli eindregið með því að menn haldi sig við líkamsræktarplön af gríðarlegri elju. Sem ég hef ekki verið að gera undanfarna daga, því er nú verogmiður. En stressbrjálæði geta alltaf átt sér stað, og slær þá yfirleitt mörgu niður á sama tíma. Þess vegna hef ég hugsað mér að hlaupa seinnipartinn, og stóla á að fárviðrinu verði eitthvað farið að slota. Eins er veðrið að setja strik í reikninginn með pöntun á barnapössun sem ég ætlaði að fá senda alla leið frá Egilsstöðunum í dag, en vonandi getum við eitthvað fundið út úr því. Sama veður setti strik í ferðaáætlanir systur minnar poppstjörnunnar svo hún verður hjá okkur um helgina og getur þá vonandi eitthvað reddað málum í samstarfi við skólasálfræðinginn ef amman hættir alfarið við öll ferðaplön.

Annars brast bara á með gríðarlegum rólegheitum. Tímum sem ég átti að vera í í dag frestað vegna veikinda auk þess sem styrkumsókn 2 þarf víst ekki að berast fyrr en á mannamáli. Sú má líka vera á mannamáli og er því pís off keik miðað við þá sem ég varð gráhærð við að klára á miðvikudaginn.

Hraðbátur meikaði það líka á leikskólann í dag, öllum að óvörum, svo allir komust í vinnurnar sínar.

Þá er ekkert að gera nema krossa putta að Færeyingar komist til landsins svo hægt verði að halda fyrirhugaða fáþjóðlegu stuttverkahátíðina Margt smátt í Félagsheimili Seltjarnarness á morgun.
Ekki hefi ég nú staðið mig í því að plögga hana, en þar verða á boðstólnum einhver 20 stuttverk frá slatta af leikfélögum hérlendis auk einhverra fimm nýrra verka frá Færeyjum. Ég hef ekki hugmynd um hverjir vina minna frá eyjunum mæta, en gaman verður nú að hitta það fólk aftur. Einn þáttur eftir sjálfa mig verður á boðstólnum og annar eftir Rannsóknarskip, auk þess sem hann leikur í mínum þætti. Það er viðeigandi þar sem að á morgun verða einmitt liðin 5 ár frá því að við Rannsóknarskip hófum vegferð vora sem kærustupar og verðandi lífsförunautar, á haustfundi Bandalagsins á Akureyri. Í tilefni þess ætlum við að reyna að fara saman út að skemmta okkur aðeins með stuttverkahátíðaraðstandendum og gestum annað kvöld, ef áðurnefnd pössunarplön ganga upp.

Þá er best að setjast yfir verkefnislýsingu doktorsverkefnis og rannsóknaráætlun og gera það nú reglulega, reglulega vel, eftir efnum og aðstæðum. Annars er það nú svo að menn eru yfirleitt að sækja um styrki í doktorsverkefnin sín eftir að hafa unnið að þeim í svona ár, þannig að 1 og hálfan mánuð inn í ferlið er hálfbrjálað að vera að þessu. Enda, ef ég fær annan hvorn þessara styrkja verð ég svo montin að ég verð ekki viðmælandi næstu árin. (Og var það nú nóg samt.)

Verð líka aðeins að segja frá gítarnáminu. Það gengur hroðalega skemmtilega, þó heimalærdómur hafi vissulega verið af mjög skornum skammti. Það var gott hópströmm í tímanum í gær og ekki laust við að það sé að rifjast upp fyrir mér að ég æfði mig nú dáldið á þessu þegar ég var unglingur, og átti meiraðsegja rafmagnsgítar. Allskonar trakteringar með aðstoð gítarnaglar eru allavega að ganga vonum framar. Svo er þetta líka bara svo yfirmáta skemmtilegt. Að sitja og strömma Smells Like Teen Spirit á kassagítar, við 5. mann, er til dæmis bara ferlegt kikk.

Óverendát.

7.10.09

Að lifa október af. Dagur 7.

Kláraðu eitthvað strembið og flókið og ómögulegt sem hefur tekið allan tímann, en samt ekki nógan tíma, því það er sennilega ekki nógu gott, sendu það út inn í eilífðina og hangtu svo vel og lengi á Facebook til að fagna, og gleyma.

6.10.09

57% niðurskurður á starfsemi áhugaleikfélaga!

Áhugleikfélög í landinu eru um 60 talsins. Með þeim starfa nokkurþúsund manns ár hvert auk þess sem nokkrir tugir fagmanna hafa hjá þeim atvinnu sína, að hluta, með leikstjórn og námskeiðahaldi.

Þetta starf er annars unnið í sjálfboðavinnu að langmestu leyti, þessi styrkur fer aðeins í að standa undir bráðnauðsynlegum kostnaði við leiksýningar og aðra starfsemi leikfélaganna, sem í mörgum byggðarlögum er eina leiklistarstarfsemin á svæðinu. Víða halda leikfélög námskeið fyrir börn sem fullorðna, þeim sjálfum að kostnaðarlitlu eða -lausu. En samfélaginu sem þau starfa í til mikils framdráttar. Flest setja leikfélögin á svið leiksýningar a.m.k. einu sinni á ári og oft af miklum listrænum metnaði.

Áhugaleikfélögin hafa löngum hangið á horreiminni og riðu t.a.m. ekki feitum hesti frá "góðærinu". Undir lok þess var fullur styrkur frá ríki að jafnaði talsvert undir helmingi leikstjóralauna fyrir hvert verkefni.

Samkvæmt fjárlögum íslenska ríkisins fyrir árið 2010 hefur verið ákveðið að ganga endanlega frá þeim með því að skera niður styrki til þeirra um meira en helming. Með þessu sparar ríkið heilar 14,4 milljónir á ársgrundvelli. Ljóst má vera að þessi upphæð skiptir engum sköpum fyrir ríkið en breytir öllu fyrir félögin.

Afleiðingarnar sem reikna má með að þetta hafi eru þær að félögin draga enn frekar saman í að ráða sér atvinnumenn og slatti hættir starfsemi. Þar með er farinn góður möguleiki á að halda, t.a.m., nokkur þúsund atvinnuleitendum í virkni.

Finnst mönnum þetta virkilega vera niðurskurður sem kemur til með að borga sig?
Þarf virkilega að spara aurinn þegar geðheilsa fjölda manns er í húfi?
Væri ekki ráð að styrkja áhugastarf í landinu, þegar tekið er tillit til þess að það kostar skítogkanil en getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífsgæði fjölda manns?

Að lifa október af. Dagur 6.

Er strax aðframkomin og dettur ekkert gott ráð í hug í dag. Nú er svo komið að ég er að missa rænuna af stressi yfir þessu styrkumsóknabrölti. Leiðbeinendur mínir eru allt í einu horfnir af yfirborði jarðar og hættir að svara tölvupósti. (Og ég lái þeim það ekki einusinni.) Enn er ég að bögglast við að skrifa lýsingu á verkefninu og veit ekki neitt um hvort ég er á "réttri leið" eða hvort "rétt leið" er einu sinni í boði í stöðunni. Ég á líklega að geta fundið þetta alltsaman út á sjálfri mér, með allar mínar gráður. Í staðinn er ég sybbin, stressuð og veit ekkert.

Hraðbáturinn er búinn að vera með eyrnabólgu, pensillín við því, sem honum finnst hroðalega vont, og magapínu af pensillíninu, og þar að auki líklega að fá tveggja ára jaxlana. Ég setti hann í hvíldarinnlögn á leikskólann í dag. Er öðrum þræði að bíða eftir að það verði hringt þaðan. Hvíldarinnlögnin er mest til að hvíla Rannsóknarskip sem er orðinn aldraður af álagi, eftir erfið umönnunarstörf undanfarna daga (og nætur.) Ennfremur flýtti ég háttatíma Unglingsins, í morgun. Nenni enganveginn að vekja menn hundraðsinnum og hafa svo morgunfýluna svífandi yfir vötnunum. Og þessa dagana eru mælarnir fljótir að fyllast.

Annars er systir mín poppstjarnan að snúa aftur úr vel heppnaðri, mánaðarlangri, tónleikaferð um Bandaríki Norður-Ameríku með hljómsveitinni The Foghorns. Bára ætlar að sofa úr sér hjá okkur í nokkra daga áður en hún flýgur aftur til frænda vorra í Noregi til að ljúka námi sínu. Ennfremur á ég von á foreldrunum í bæinn. Amman var komin með ömmubarnafráhvörf og ég gat séð henni fyrir fínustu afsökun. Hún ætlar að passa á meðan við hjónin bregðum okkur á íslensk-færeyska stuttverkahátíð á Seltjarnarnesinu um helgina.

Jæja. Best að skrifa eitthvað gáfulegt um máleiningar...

5.10.09

Að lifa október af. Dagur 5.

Horfðu út í snjókomuna og hugsaðu um jólin.

4.10.09

Að lifa október af. Dagur 4.

Gerðu ekkert markvert í heilan dag nema í mesta lagi gera heiðarlega tilraun til að elda eitthvað nýtt. Farðu í labbitúr seinnipartinn og horfðu á haustlitina og fallegur haustsólina og hugsaðu ekki um neitt, gott eða slæmt, á meðan.