27.12.10

Millijól

Kona ku ekki eiga að segja frá því en við erum farin í árlegu jólaferðina norður í land. (Ekki segja innbrotsþjófunum sem þið þekkið, og þið innbrotsþjófar, það er haugur af fólki heima um allt hús með börn, hunda og fílelfda karlmenn auk þess sem báðar tölvurnar fóru með okkur. So, there.)

Erum lent í Brekkunni hvar Hraðbátur heldur áfram jóla-hungurverkfallinu og nærist eingöngu á vatni, laufabrauði og stöku kartöflu. Greinilega meðvitaður um kreppuna og reynir að vera ódýr á fóðrum. Freigátan náði að sjá einn kött undir hægindastól og síðan heilan haug í sjónvarpinu og er afar glöð eftir. Þau eru nú sofnuð. Smábátur fór til föðurhúsanna í gær með eftir-storms-flugi og Rannsóknarskip er farið út í sveit að spila póker. Við tengdó erum að láta Skjá Einn skemmta okkur.

Svo eru að koma áramót. Þegar að þeim kemur verðum við flutt í orlofsíbúð á Akureyrinni hvar við ætlum að hafa slatta af tengdafjölskyldunni á Gamlárskvöld eftir ógurlegt útsölukrús. Einhverra hluta vegna gengur mér alltaf betur að versla á Akureyri heldur en í Reykjavík (og best á Egilsstöðum.) Meira úrval finnst mér EKKI betra. Mig vantar aldrei neitt margt. Og er alin upp við að ef það fæst ekki í kuffilaginu þá þarf maður ekki að nota það. Ellllska forræðishyggju.

Verst að ég verð líklega utan netsambands á nýjársmorgun. En þá hefði mig langað afar mikið til að pósta nýju uppáhalds nýjársmorgunssetningunni minni sem er úr besta nýjárslagi allra tíma, Nýjársmorgunn, með Sigurði og Memfismafíunni. (Eftir Braga Baggalút, off kors):
Nýjársmorgunn og örlög sín enginn veit!

En það tjóar ekki að lifa í eftirsjárflóði óskrifaðra Fésbókarstatusa. (Frekar en að sitja og grufla, gæskan.) Sérstaklega ekki fyrirfram.

Við hlustuðum annars mest á ýmislegt eftir áðurnefndan Braga á norðurleiðinni. Fyrst Sigurð og Memfismafíuna, Nú stendur mikið til, þá nýrri jóladisk Baggalúts og svo líka Gilligill. Aukinheldur var bragðað rækilega á Jónasi Sigurðssyni og Ritvélum framtíðarinnar. Alveg svakalega snilld þar á ferð.

Þá lýkur tónlistarumfjöllun. Er annars að lesa Takk útrásarvíkingar, hlæjandi eins og hross. Á næstu dögum ætla ég að fara með Nesböinn sem ég fékk í jólagjöf (af því að ég átti hann) og skipta honum út fyrir einhvern annan (þar sem ég á engan annan) og verð þar með horfin til reifaralands.