7.8.10

Fasismi! Já, og peningar...

Á þessum degi frelsis, fiskjar og hvurveithvað er ég að hugsa um að tjá mig aðeins um fasisma.

Skilningur manna á þessu hugtaki virðist vera nokkuð á reiki en kannski er beinasta tengingin í hugum fólks við alræðisskipulag Sovétríkjanna, þriðja ríkis Hitlers og svo, í seinni tíð, ráðstjórnarfyrirkomulagið í Kína. Fasismi felur altént í sér skert frelsi einstaklinga til alls mögulegs, jafnvel hugsana og skoðana.

Fasismi hefur í gegnum söguna sprottið af ákveðnu vandamáli. Nefnilega þeirri þróunarhneigð innan allra ríkja og stjórnunareininga heimsbyggðar að fantar og sækópatar komist til valda. Mannkyninu, eða stjórnunareiningum þess, hefur nefnilega alltaf verið stjórnað af einni tegund fólks. Föntum og sækópötum. Það eru þeir sem sækja það fastast að komast til valda og eru alls óhaldnir af ábyrgðartilfinningu gagnvart lýðnum. Og fólk hefur tilhneigingu til að gera það sem það vill.

Og fantar og sækópatar hafa tilhneigingu til að komast til valda.

Eina stjórnskipulagið sem eitthvað hefur orðið ágegnt í að halda veldi fanta og sækópata niðri, er fasisminn. Sá er hins vegar galli á gjöf Njarðar að ýmist er til hans stofnað (eins og í tilfelli Hitlers) eða hann endar í höndunum á (eins og í tilfelli Stalíns) versta fantinum og sækópatanum af þeim öllum. Og lýðurinn er engu bættari.

Fulltrúalýðræðið er kannski hænufet í einhverskonar valdi til fólksins. Menn fá þá allavega að velja sér fant og sækópat til að stjórna sér. En í dag stjórna stjórnvöld hins vegar ekki nokkrum hlut. Þau eru leppar peningapatanna. Þeir sem víla og díla á bakvið tjöldin og stjórna því hvert peningarnir streyma. Og hvert ekki. Peningarnir, eða "fjármagnið" sem er orð sem menn nota þegar þeir vilja fegra hvernig það hljómar, er það stjórntæki sem yfirfantarnir og sækópatarnir halda um, nú um stundir. Vandlega falið, dónalegt að tala um, eignarrétturinn heilagastur alls sem er.

Á miðöldum var kirkjan heilögust alls sem var.

En hún hrundi og miðöldum lauk. Og það tók fantana og patana smá tíma að ná áttum og völdum. En ferlega held ég að hafi verið gaman í Endurreisninni!

Ég hef heyrt menn hálf-óttast fasismann, en samt ekki almennilega sjá leiðina til að koma föntunum frá völdum. Alræði öreiganna hafa menn einhvernveginn reynt... og lukkaðist ekki alveg. En það er þetta með peningana.

Nú vitum við alveg að peningar ganga hvorki né tala. Þeir láta jörðina svo sannarlega ekki snúast og vaxa hreint ekki á trjánum. Allar hugmyndir um "vexti" eru þess vegna tilbúningur einn. Og er í alvörunni nauðsynlegt að eiga allt þetta drasl sem við þurfum ekki? Þarf virkilega að halda lýðnum "niðri" og passa að venjulegt fólk geri ekki bara það sem það vill? Múlbinda menn við 8 klukkustunda "vinnu" á dag til að sjá sér farborða, ef það?

Kannski kemur fasisminn.
En ég held menn ættu að hætta að vera svona hræddir við að kroppa í grunnstoðir nútímalífsins.
Þær eru nefnilega farnar að fúna dáldið.