17.9.10

Í nafni andagiftar

Í dag kveður við örlítið annan tón. Nú blasir við lúxusverkefnið leikritun.
Hvers vegna lúxus?

a) Engin heimildavinna.
b) Það er gaman.
c) Engin heimildavinna.

Svo er líka fyrsta uppkast komið. Meira að segja fyrir löngu. Svo það sem eftir stendur er að hreinsa burtu bernskubrek, asnalegar setningar, allt sem er ekki lengur fyndið, allt sem hefur aldrei verið fyndið, og reyna svo að bæta við skotheldu fyndi.
Nei, ég er ekki að skrifa áramótaskaupið, en leikrit verður samt bara fyndið og ekkert nema fyndið. Ekki broddur í nokkrum sköpuðum hlut og þvísíður pólitík.

Enginn veit enn hvað það heitir og það verður frumsýnt hjá Hugleiknum einhverntíma í janúar.

Í tilefni þessa verkefnis verður viðhöfð frekar óþekk hegðan um helgina. Til að byrja með er ég enn heima hjá mér og ætla að vera hér fram yfir Óskastund Gerðar G. Bjarklind. Mér til andagiftar og í tilefni þess að ég á ekki erfitt með að halda mér að þessu verki.

Það getur verið að ég haldi áfram að skrifa í skólanum á eftir, undir fyrirlestri og umræðum um Artaud. Mér væri alveg trúandi til þess. Í kvöld ætla ég svo á Ljótu Hálfvitatónleika, til að hressa uppá fyndið, og vonast síðan til að það endist allavega jafnlengi og þynnkan.

Allt fyrir Andann, off kors.
Best að gá hvað gerist á fyrsta kaffibolla!

16.9.10

Testíng...

Þegar maður er að reyna að skrifa 250 blaðsíður af "einhverju" á einum vetri getur verið alveg ferlega erfitt að komast í gang á morgnana. Stundum gerist bara ekki neitt. Skjalið ógurlega verður einhvernveginn alveg ósnertanlegt og dómgreindinni finnst henni engan veginn vera treystandi til að eiga neitt við það. Stundum er það kannski rétt.

Ég held að oftar sé þetta verkvælni. Eða jafnvel orðfælni. Skjalhelvítið er löngu orðið vitlaust og flókið. Búið að taka út alla kaflana sem voru í því til að byrja með og sennilega allt í einhverri vítlausri röð núna. Þannig að það þarf bara að ráðast á þetta. Brrrrúmmmm.

Til að komast í gang á morgnana er ég að hugsa um að skrifa bara alltaf eitthvað hérna. Æfa mig á orðum. Athuga hvað kemur. Láta puttana rifja upp hvernig á að skrifa.

Læt vita á morgun hvernig fyrsta tilraun gekk.

Annars kom haustið á mánudaginn. Og er alveg gríðarfagurt, vindasamt, gult og dásamlegt. Það sem er ekki jafndásamlegt er að októberþunglyndið virðist víða hafa haldið innreið sína. Ég vaknaði ekki almennilega fyrr en á miðvikudag og sá um alla fésbók að menn voru að glíma við svipaða drauga. En minn er allavega að láta undan síga. Er aftur farin að vera vakandi og allir skapaðir hættir að pirra mig.

Gæti haft með það að gera að í gær þegar ég gafst endanlega upp fyrir ritstíflunni horfði ég á Zeitgeist the Movie. Svo fór ég í bíó á Future of Hope. Þegar ég kom heim byrjaði síðan Draumalandið í sjónvarpinu.

Það getur vel verið að það sé séns fyrir mannkynið.

Hlakka til að sjá hvað Chomsky segir í lok mánaðarins.

Ókei. Nú verður Baktín tekinn í bakaríið.