13.8.04

Mikið djöfull svakalega eru mörg lönd í heiminum. Er föst yfir inngöngu þátttakenda á Ólympíuleikunum í Aþenu. Skammarlega mörg lönd sem ég hef aldrei heyrt um og ég er farin að vorkenna þeim sem komu fyrst inná alveg svakalega.

Hitinn á að halda áfram á morgun. Svei mér ef þetta fer nú ekki bara að verða svolítið þreytandi... er allavega að huxa um að nota tækifærið og rjómablíðuna í að mæta í kveðjuhóf hjá Tóró og Nínu í Eistneskum dræsukjól sem ég bjóst við að þurfa að lækka í tign, niður í náttkjól, þegar heim kæmi. Þá fær hann að fara einu sinni út.

Þá eru Grikkir komnir inná, þar með allir, og Björk að fara að syngja. Best að einbeita sér.

12.8.04

Og þá er ég komin aftur í nútímann.

Í fréttum er það helst að ég er búin að ákveða að kaupa mér íbúð.
Til þess þarf ég greiðslumat svo ég viti hverju ég hef efni á.
Til þess að fá sollis þarf ég að sjá út hvað ég get ímyndað mér að ég geti átt í útborgun.
Til þess þarf ég líklega að finna mér vilyrði fyrir lífeysissjóðsláni.
Til þess þarf ég að vita í hvaða lífeyrissjóð ég borga.
Til þess þarf ég að bíða þangað til Vibba kemur aftur í vinnuna.

Málið í biðstöðu í bili. Enda reikna ég með að taka veturinn í ferlið. Nógur tími.

Erum byrjuð að æfa Beisk tár Petru von Kant hjá leikfélagi Hafnarfjarðar. Það er gaman, en nokkuð snúið að reyna að læra texta með heilann soðinn.
Áður en lengra er haldið verð ég að tala aðeins um flugur og Guaccamole. Þar sem við gistum voru tvær litlar tjarnir með einhverjum gulgrænum viðbjæði í. Gárungarnir sögðu að þarna væru komnar stærstu guaccamole námur Evrópu og þar væru nú upplagt fyrir hugleikara að "synda í maukinu". Þetta þótti tveimur hullurum allt í einu alveg arfagóð hugmynd, einhverntíma í ölvímu nætur eftir sýningu, og stungu sér til sulls. Hefndist þeim nú eitthvað fyrir það, fengu í sig ýmsa guaccamoletengda óáran sem komst í flugnabitin þeirra með hinum slæmstu afleiðingum.

Hin ýmsustu flugnabit hrjáðu Íslendingana mjög. Sennilega langt síðan hinar eistnesku pöddur höfðu fengið almennilegt víkingablóð. Ég var nú heldur en ekki góð með mig á meðan á ferðinni stóð, fékk næstum ekkert bit... þegar heim var komið fór hins vegar ýmislegt að koma í ljós. Ég var sumsé ekkert sérstaklega bitheppin, heldur. Bara svakalega sein að fatta. Áfram með smjerið:

6.8.
Enn og aftur ræsing á óguðlegum tíma, í þetta skipti skoðunarferð til stúdentabæjarins Tartu. Það er fallegur bær nálægt landamærunum við Rússland. Við fengum leiðsagða skoðunarferð um bæinn með stoppum við styttur af ýmsum frægum mönnum og glefsur úr sögu þjóðarinnar. Það var fróðlegt, en nokkuð heitt í 32 stiga hita og sól. Eftir labbitúrinn fengum við frjálsan tíma til að þvælast um bæinn og honum var að einhverju leyti eytt í að hvíla þreytta fætur og sötra eitt og annað. Einnig herjuðum við talsvert á verslanir. Hugleikur verslaði sér m.a. "gong" og eftir það enduðu mörg lög og ýmislegt annað á "GONNNNG!"-i. Ég keypti mér rauðan og rósóttan sumarkjól með allskyns pífum, sem ég reiknaði sosum aldrei með að geta notað aftur, og var þessvegna í það sem eftir var ferðar.

Svo fóru allir saman út að borða á veitingastað sem áður var púðurgeymsla og þar voru íslendingar náttlega með læti og gong og sungust svolítið á við Dani, yfir glerþunn höfuð Finnanna.

Þegar við komum aftur til Vana Voidu hófst gagnrýnifundur um sýningarnar. Þar voru í Panel Jacob Oslag frá Damnörku og heimamaður sem ég man ekki hvað hét. Ýmislegt var sagt, misgáfulegt og stundum sýndist sitt hverjum eins og gengur.

Þessum næstsíðasta degi lauk með kvöldmat og kjafti á moskítóbarnum.

7.8.
Síðasti dagur hátíðarinnar hófst á ýmsum námskeiðum og þróunarfundi um framtíð Neata. Ég byrjaði á honum, en þar var ýmislegt rætt og rifist um. Svo fórum við nokkur á stutt námskeið í sviðsslagsmálum sem var hið skemmtilegasta. Við fengum að leika okkur með prik og berja hvert annað með höndunum. Fengum mikið út úr því.

Eftir hádegismat var síðan haldið til Viljandi á gestasýningu hátíðarinnar (þ.e. sýningu sem kom utan NEATA svæðisins) frá Belgíu. Hún reyndist hinn mesti hroði. Byggingarlaus hystería með vondum leik á köflum og hljóðmottu sem hefði getað drepið hest. Ég fór út í hléi, ásamt með hálfum salnum, og skammast mín ekki baun fyrir það, þó svo að mér þyki það mikil ókurteisi, svona alla jafna.

Um kvöldið var síðan lokapartí, það var hið ágætasta fólkið úr bandalagsskóla Eista skemmti okkur með því að gera grín að hinum sýningunum í skuggamyndaformi, og svo gerðum við sjálf grín hvert að öðru. Miðnætursnarl var síðan vel útilátið hlaðborð af allskonar smáréttum sem erfitt var að slíta sig frá. Kórónaði algjörlega matarhliðina á þessari hátíð sem var öll hin besta.

8.8.
Vöknuðum, pökkuðum og lögðum af stað heim. Ég ferðaðist alla leið með Lalla og Höllu. Við flugum strax til Köben og áttum langt stopp þar, þvældumst um strikið og versluðum smá. Á leiðinni heim sáum við Dóri eldingar. Fréttum seinna að það væri fyrirboði hitabylgju. Talandi um að taka veðrið með sér...

11.8.04

Hún móðir mín í kví kví virðist vera algjörlega sambandslaus við umheiminn í dag, allavega hefur mér ekkert gengið að ná í hana símleiðis í morgun.

Hún á alltént afmæli í dag, og fær hérmeð óskir til allrar hamingju frá barni 2.

Fyrst verð ég að minnast á kynni hátíðarinnar. Það var 16 ára snillingur, ógurlega virðulegur og samt fyndinn, talaði frábæra ensku sem hann sagðist hafa lært af sjónvarpinu. Fann margar og fyndnar aðferðir til að skipa fólki að slökkva á farsímunum.

4.8.
Gargandi blíða, vöknuðum um 9 í sauna-herberginu okkar. (Þetta var eina nóttin sem okkur kom sú fásinna í hug að sofa við lokaðan glugga vegna flugnafælni.)
Morgunmatur, rúta til Viljandi, hálfátta bjórinn og svo norsk sýning:

The Victorious
Wild Rose Theatre
Skrifað af hópnum

sem var nú óttalega klén, eitthvað. Kosturinn við hana var nú samt sá að hún var líka klén í tíma, ekki nema 20 mínútur þannig að það tók því ekki að sofa.

Að lokinni örlítilli verslunarferð var síðan komið að sýningu Íslendinga:

Undir Hamrinum
Hugleikur
Eftir Hildi Þórðardóttir

Skemmst frá því að segja að þessi sýning var fantaflott. Virkaði vel sjónrænt þó svo að áhorfendur skildu ekki textann og þakið ætlaði af húsinu í fagnaðarlátum að sýningu lokinni. Við Utangarðsmenn vorum ýkt montin af okkar fólki og ég gróf upp Hugleiksbolinn þegar ég kom heim á hótel og montaðist í honum eftir því sem veður leyfði.

Eftir miðdegismat og lagningu var síðan komið að sýningu Dana.

The story of deprivation
Teater etcetera
Eftir Jens Albinus

Þar var nú aldeilis illa farið með góða leikara. Handritið og uppsentningin var allt eitthvað "artífart sjálfsrúnk" með hljóðmottu dauðans sem gerði ekkert nema að pirra mann. Leikararnir stóðu sig ótrúlega vel, en manni var samt sem áður hjartanlega sama um þetta fólk. Það var einn brandari í sýningunni, en ég komst að því seinna að hún átti að vera fyndin.

Um kvöldið gerðu þó Danir heiðarlega tilraun til að bjarga lífi hátíðarklúbbsins með því að stofna "moskítóbarinn" fyrir utan. Það var illskárra heldur en að svitna og sofna inni.

5.8.
Þennan morgun hófst stjórnarfundur NEATA á reglulega ókristilegum tíma. Ég sat hann og skemmmti mér við að skrifa óformlega fundargerð þar sem ég skrifaði aðallega hverjir mér þættu sniðugir og hverjir asnar. Komst meðal annars að því hvers vegna danskar og norskar sýningar á þessum hátíðum eru undantekningalítið verri en aðrar. Það er vegna þess að veljendum finnst hreinlega ekki að velja eigi sýningar eftir því hverjar eru bestar heldur... ja ég veit eiginlega ekki eftir hverju. Þeir töluðu mikið um tilraunaleikhús, sem er sennilega að þeirra mati allar sýningar sem ekki eru "ferkantaðar" á einu sviði, í fimm þáttum, eftir Egner eða Ibsen. Svoleiðis sýningar vilja þeir senda, sérstaklega tilraunir sem ganga ekki upp. Þetta útskýrði ýmislegt.

Um hádegi var komið að Lettnesku sýningunni.

Tartuffe
The Theatre of Ventsplis
Eftir Moliere

Fantagóð uppsetning á Tartuffe, tæknilega flott og skemmtileg nýting á dýpt sviðsins. Kraftmikill leikur og ekkert að trufla mann nema einhver smáatriði. Sýningin fór reyndar hálftíma fram yfir tímamörk, ég hefði viljað vita af því fyrir vegna þess að ég var orðin soldið stressuð yfir því hvort ég næði ekki örugglega á næstu sýningu.

Sem var Sænsk:

Limpan
Hammarteatern
Allan Edwall

Fantagóður einleikur um fyllibyttu. Í hálfgerðum kabarettstíl, talsverður söngur en annars mest maður að segja sögur. Hljómar kannski ekki spennandi, en þetta var það. Leikarinn var svoooo flottastur og hélt manni við efnið allan tímann, þrátt fyrir hita inni og hörð sæti.

Eftir miðdegismat fórum við nokkur aftur til Viljandi, versluðum og þvældumst og lentum í síðdegisdrykkju sem gerði það að verkum að ég var alveg að míga á mig á sýningu Finna:

Mahnovitsina
Esa Kirkkopelto
Community Theatre of Kajaani

Leikrit með mikilli rokktónlist og annars konar um byltinguna í Úkraínu. Gargandi brjáluð snilld. Kom mér til að grenja. Var reyndar um hálftíma of löng, sem hefði huxanlega ekki böggað mig alveg jafnmikið hefði ég ekki verið alveg gjörsamlega að míga á mig. Örlítill byggingarlegur galli líka að hún var mjög kraftmikil fyrst en svo hægðist svakalega á öllu saman undir lokin. Samt sem áður, ég fílaði þessa sýningu í druslur.

Þá var haldið heim í kvöldmat og eftir hann gerðu Íslendingar tilraun til að lífga örlítið upp á hátíðaklúbbinn með söng. Slógum m.a. í gegn hjá Dönum með danska poppslagaranum Barbie girl í klassískri kórútsetningu.

Þessi dagur var allur hinn besti.

Seinna kemur svo greinargerð af skoðunarferð til Tartu, námskeiði í sviðsslagsmálum, Belgískum hroða og heimferð.

10.8.04

Jæja, þá er best að segja eitthvað frá þessari fínu hátíð sem ég var á.

Byrja á byrjuninni.

2.8.
Ég ferðaðist sumsé út með Vibbu, Höllu og Lalla. Við flugum til Köben um hádegið, (örugglega í fyrsta skipti sem ég er ekki að fljúga til útlanda um miðja nótt) stoppuðum stutt þar og héldum síðan áfram til Tallin. Þegar við komum á hótelið þar var næstum komið miðnætti, en við vorum í fullu fjöri, enda klukkan bara um 9 leytið að íslenskum tíma. Við fórum í bæinn og fundum stað þar sem hægt var að borða og drekka, ég endurnýjaði m.a. kynni mín af baltísku eðalsnakki sem er steikt rúgbrauð með hvítlauki. Þar með hófst þessi fína matarvika, en maturinn í Eistlandi var gegnumsneitt góður, þó hann liti reyndar misvel út.

Gistum á ágætis hóteli í Tallin, þar sem voru m.a. mjög greinargóðar leiðbeiningar um hvernig maður pantaði klám í sjónvarpið sitt. Ég lét það reyndar vera, en fékk hins vegar mikið út úr því að reykja í rúminu mínu.

3.8.
Vöknuðum í aftureldingu, fórum í morgunmat og fengum okkur rölt um gamla bæinn Í Tallin og fengum okkur síðan bjór klukkan hálfátta um morguninn að íslenskum tíma. Um hádegi þrusuðum við síðan út á flugvöll til að taka rútu til Viljandi. Landslagið á leiðinni var grænt og nokkuð skógi vaxið, þó ekki þannig að maður sæi bara tré. Gladdi mjög mitt Héraðshjarta. Komum til Vana Voidu, þar sem við gistum, um 3 leytið, þá var matur og síðan rúta til Viljandi á fyrstu sýningu hátíðarinnar.

Litháíska sýningin: Ungliðahreyfingin Aglija, uppsetning á sögunni um Rauðhettu eftir Mörtu Tikkanen.

Þetta var flott sýning, mjög hreyfilistræn og tæknilega frábær. Sennilega hefði maður skilið samhengið betur hefði maður verið búinn að lesa söguna, sem líklega er eitthvað "spinnoff" af upprunalegu rauðhettusögunni. Sýningin sjálf var samt alveg og hélt mér allavega nokkurn veginn alveg, þrátt fyrir ferðaþreytu og ótímabæran bjór um morguninn.

Svo var opnunarhátíð sem hófst á einhverjum einkennilegum dansi fluttum af eisneskum ungmennum og einhverjum slatta af ræðuhöldum. Hefði verið betra að vera ekki búin að sjá veitingarnar sem við áttum að fá eftir... Svo kom:

Eistneska sýningin. Stúdentaleikhúsið í Tartu. Elisaveta Bam eftir Daniil Harms.
Söguþráðurinn minnti soldið á Réttarhöldin eftir Kafka. Tveir ákærendur komu og ákærðu Elisavetu og enginn vissi almennilega tildrög eða þannig. Þau voru að gera tilraunir með að blanda saman ýmsum formum. Þau voru líka með hljóðmottur (nokkuð sem var regla frekar en undantekning á þessari hátíð) þetta gekk stundum upp hjá þeim, og stundum ekki, eins og gengur. Þokkalegasta útkoma samt.

Þá var aftur þrusað upp í rútu og keyrt til Vana Voidu og borðað og hátíðarklúbburinn athugaður. Á honum voru nokkrir meinlegir gallar. T.d. var bannað að reykja inni, þar var líka alveg svakalega heitt, þannig að ef manni varð á að setjast þar niður með sinn bjór var maður yfirleitt fljótlega sofnaður. Þetta kvöld héldu reyndar Eistar uppi ágætis stuði með nikkuleik og fjöldadansi, en þetta reyndist vera eina kvöldið sem upp á slíkt var boðið. Annars var yfirleitt ekki einu sinni tónlist þarna inni. Hátíðarklúbburinn var sumsé svo lamaður að 70 króna bjórinn gat ekki einu sinni bætt manni það upp.

Meira síðar.

9.8.04

Að fara á leiklistarhátíð er góð skemmtun.
Sumar sýningar eru reyndar jafnan ekki við hæfi barna, aðrar of vondar til að vera við hæfi mannkyns. En, með orðum Þorgeirs á NEATA fundi "We can't stop people from being stupid..." enda, ef ekki væru einhverjar vondar sýningar, og helst ókennilegur matur, þá væri ekki margt í minnum haft eftir hátíðir.

Nú er ég sem sagt komin heim frá landi eistnanna, einhverjar glefsur koma næstu daga, annars er ágætis ferðadagbók á leiklistarvefnum.