25.10.08

Kreppubörnin þurfa ekkert dót

Að búa til börn er góð skemmtun. Og svo skemmta þau líka hvert öðru.

Eldhússkápar eru gjarnan fullir af dóti. Missjaldan notuðu.

Ónýtir ísskápar eru til ýmissa hluta nytsamlegir.

Hafa má mikið gaman af eina dagblaðinu sem enn kemur í öll hús.

Þvottabalar. Sígildir.

Svo má faðmast...

...hnoðast...

...dansa og hlæja með vinum sínum.

Sko, það þarf engum að leiðast þó það sé kreppa og ekki til péningur fyrir nýjasta dótinu. Sem verður líka allt í lagi þegar allar dótabúðirnar verða farnar á hausinn.

24.10.08

Naumast

Ég hóf daginn á því að fara í fjármálaráðgjöf hjá Sparnaði. (Í boði námskeiðsins sem ég fór á um daginn.) Og það var eins gott. Útgjöld daxins námu nokkurra áratuga meðalneyzlu.

1. Fjárfest í ísskáp. Sluppum vel. (Þ.e.a.s., fengum flottari skáp fyrir péninginn sem við vorum búin að reikna með.)
2. Bíllinn af inniskónum. Kaupa þurfti tvö ný dekk. Sijitt.
3. Smábátur endurheimtist og í ljós kom að hjólinu hans hefur verið rænt. Sjittfokkhell.

4. Í kvöldfréttunum kom síðan í ljós að þetta skipti engu máli þar sem búið er að hengja á okkur skuldahala sem nær alla leið til Helvítis og barnabarnabörnin okkar verða líklega enn að borga. Hvað er þá einn ísskápur, nokkur vetrardekk og eitt innanviðársgamalt reiðhjól, á milli vina?

Þegar ég var svo búin að fá leið á Geir og komin í tölvuna komu í ljós svo stórkostleg tíðindi að allir skuldahalar týndust í gleymskunnar dá.

Glettingur kom úr umbrotinu!
Og hann er svo fagur að ég var næstum farin að grrrrrenja.
Má samt ekki vera að því að liggja mikið yfir honum þar sem ég ætla að reyna að svæfa áður en ég fer að sjá hinn margslátraða Makkbeþþ í Þjollanum.,

Stuð!

23.10.08

Ísskápur, heitinn

Eftir erfiða sjúkralegu hefur herra Ísskápur verið úrskurðaður látinn. Ferðir verða farnar um krepputómar raftækjaverslanir á morgun og fjárfest í arftaka.

Líklega í sömu ferð og ég fer og hitti fjármálasnillingana hans Ingólfs sem ætla að segja mér hvert ég á að troða því sem eftir verður af peningunum mínum, og hvernig.

Annars ætlar Rannsóknarskip að reyna að sjá um þetta sem mest svo ég fái tíma til að læra fyrir tímann á morgun. Sem er óskaplega tímabært.

Með vöxtum og verðbótum

Eftirfarandi hékk lengi uppi á vegg í herberginu mínu. Arfur frá Huggu syss, held ég. En bara fram að kapítalismanum. Eins og skuldir íslenska þjóðarbúsins hefur þetta greinilega vaxið og margfaldast og núna gengur þetta svona á netinu:


SÓSÍALISMI
Þú átt 2 kýr.
Þú gefur nágranna þínum aðra þeirra.

KOMMÚNISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar og gefur þér mjólk.

FASISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar og selur þér mjólk.

NASISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar...og skýtur þig svo.

SKRIFRÆÐI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar, skýtur aðra þeirra, mjólkar hina og hellir svo allri mjólkinni.

HEFÐBUNDINN KAPITALISMI
Þú átt 2 kýr.
Þú selur aðra þeirra og kaupir naut. Þú stofnar kúabú og hagnast vel. 
Þú hagnast vel, selur kúabúið og sest í helgan stein

SÚRREALISMI
Þú átt 2 gíraffa.
Ríkið krefst þess að þú farir í harmonikkunám.

BANDARÍSKA FYRIRTÆKIÐ
Þú átt 2 kýr.
Þú selur aðra þeirra og þvingar hina til að gefa af sér mjólk á við fjórar kýr. Þú ræður svo sérfræðing til að komast að því hvers vegna hún datt niður dauð.

ÁHÆTTUFJÁRFESTINGAR
Þú átt 2 kýr.
Þú selur 3 þeirra til fyrirtækis á opnum markaði með veði í gervifyrirtæki mágs þíns, gengur svo frá yfirtöku með vísan í skráningu á markaði þannig að þú færð allar 4 kýrnar tilbaka og skattaívilnanir vegna einnar til viðbótar.
Afurðarétturinn af kúnum 6 er færður yfir á fyrirtæki í Karíbahafinu, en leynilegur meirihlutaeigandi þess selur þér aftur réttinn að öllum 7 kúnum.
Samkvæmt ársskýrslu á fyrirtækið nú 8 kýr, með eigendarétti að einni til viðbótar. Þú selur eina kú til þess að þóknast ónefndum stjórnmálamanni og átt þá níu kýr. 
Rétturinn að nautinu er seldur almenningi í hlutafjárútboði.

FRANSKT FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Þú ferð í verkfall, skipuleggur mótmæli og tefur umferð... vegna þess að þú vilt eiga þrjár kýr.

JAPANSKT FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Þú endurhannar þær þannig að þær verða tíu sinnum minni, en framleiða tuttugu sinnum meiri mjólk. Þú markaðssetur svo nýja teiknimyndahetju, "Kúmann" sem nær miklum vinsældum um allan heim.

ÞÝSKT FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Þú endurhannar þær þannig að þær lifa í 100 ár, éta einu sinni í mánuði og mjólka sig sjálfar.


ÍTALSKT FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Þú veist ekki hvar þær eru niðurkomnar. Þú ákveður að fá þér að borða.

RÚSSNESKT FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Þú telur þær og kemst að því að þú átt 5 kýr.
Þú telur þær aftur og kemst að því að þú átt 42 kýr.
Þú telur þær enn og aftur og kemst að því að þú átt 2 kýr.
Þú hættir að telja og opnar aðra vodkaflösku.

SVISSNESKT FYRIRTÆKI
Þú átt 5000 kýr. Engin þeirra tilheyrir þér í raun.
Þú rukkar eigendurna fyrir geymsluna.

KÍNVERSKT FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Þú ræður 300 manns til að mjólka þær. Þú segir atvinnuleysi í lágmarki og blómstrandi landbúnað. Þú handtekur fréttmanninn sem sagði frá stöðunni eins og hún er í raun og veru.

INDVERSKT FYRIRTÆKI
Þú átt tvær kýr.
Þú tilbiður þær.

BRESKT FYRIRTÆKI
Þú átt tvær kýr.
Báðar eru með gin-og klaufaveiki

ÍRASKT FYRIRTÆKI
Allir virðast eiga fjölda kúa.
Þú segir öllum að þú eigir enga.
Enginn trúir þér svo þeir sprengja þig í tætlur og ráðast inn í landið. Þú átt enn engar kýr, en þú býrð þó amk í lýðræðisríki núna...

ÁSTRALSKT FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Bissnessinn gengur vel.
Þú lokar skrifstofunni og færð þér nokkra kalda til að halda upp á það.

NÝ-SJÁLENSKT FYRIRTÆKI
Þú átt tvær kýr.
Sú til vinstri er asskoti löguleg.

22.10.08

Orsakir og feitar afleiðingar...

Það er verið að mála sameignina. Þess vegna er vagninn hans Hraðbáts uppi í íbúð. Þess vegna fórum við ekki út að vagna í sólskininu þegar hann varð þreyttur. Ætlaði úr með hann í bumbupoka um hádegisbilið en mundi þá að ég var að bíða eftir ísskápsviðgerðarmanninum. 

(Sem kom og þarf að fá ísskápinn á verkstæði og skipta um pressu í honum. En það kostar þó ekki nema helminginn af formúgunni sem nýr hefði kostað. Bara vonandi að þetta fína ísskápsveður haldist fram á föstudag. Núna er ég að bíða eftir ísskápssjúkrabílnum.)

Var að spekúlera í að skreppa í ræktina á eftir, en mundi þá að það er sundnámskeið hjá Freigátunni um kvöldmatarleytið... ekki víst að ég nenni að gera bæði. 

Kannski ég léttist eitthvað við að afhára á mér lappirnar...

Jólin?

Ég var að vísu að vonast eftir að ísskápsveðrið héldist þangað til ísskápurinn væri kominn í lag. En svo brestur bara á með jólum! Mjólkin fraus á svölunum í nótt og við Freigátan sungum jólalög á leiðinni í leikskólann.

Svo nú erum við Hraðbátur bara heima að jólast og læra. Ynnndislegt.

Ég verð nú samt að fara að vera duglegri að fara í ræktina. Þetta bara gennnnngur ekki. Sérstaklega ekki eftir allt gúmmulaðið sem ég varð að elda í gærkvöldi af því að það var að skemmast af frystileysi.

Og það snjóar og snjóar og snjóar. Gríðarlega fagurt úti.

21.10.08

Síst einleikið

Nú í kreppubyrjun virðist óheppnin elta heimilistækin hjá okkur. Þurrkarinn búinn að vera í lamasessi en fékk bót meina sinna í gær (fyrir formúgu) en í morgun vaknaði ísskápurinn með hita og Freigátan líka, honum til samlætis. Klósettið er þar að auki að tapa sér í sírennslinu. Svo ég fæ að fórna næstsíðasta jógatímanum til að vera heima með báða ormana, matinn út á svölum og aldrei að vita hvort verður hægt að sturta niður úr klósettinu næst þegar þarf. 

Ég veit að nú eiga allir að æfa sig í að "vera án." En ég er hrædd um að ég sé að falla á fyrsta kreppuprófinu. Nenni hvorki að vera án ísskáps né klósetts. Nenni heldur eiginlega ekki að vera með eitthvað visa-rað-kjaftæði, svo ég býst við að gera það sem má alls ekki, taka út sparifé og eyða því snarlega. En hjól hagkerfisins stoppa þá kannski ekki alveg endanlega á meðan.

---

Konan á símanum hjá ísskápaviðgerðarstofnun ríkisins var ekki tilbúin til að úrskurða ísskápinn látinn í gegnum síma, þrátt fyrir háan aldur. (Ísskáps, ekki eiginn.) Þvert á móti sagði hún, eftir lýsingar mínar á sjúkdómseinkennum, að líklega væri bara belað í honum termóstatið og ég fæ viðgerðarmann á morgun. Svo þetta kostar líklega ekki nema hálfa formúgu. Og svo er von á málurum í sameignina. Þeir hafa hins vegar ekki sést enn, þannig að sá greiðsluseðill má víst bíða eitthvað. En ég færði samt peninga í startholurnar. Eitthvað segir mér nefnilega að þetta sé ekki rétti tíminn fyrir vísa rað eða yfirdrátt.

20.10.08

Allt Hitt


Kreppulesningar eru komnar í nokkuð fastar skorður. Þessa dagana eru það Baggalútur, Dr. Gunni og Hnakkus sem eru þeir sem ég les núna í aðdraganda byltingarinnar. En ég ætla að fjalla um fjölskylduna og leiklistina í dag.

Nú er Smábáturinn í fríi eftir að hafa rúllað upp samræmdu prófunum fyrir helgi. Hann verður á Norðurlandinu fram á fimmtudag. Rannsóknarskip er einmitt þá að byrja í vetrarfríi og verður því hrikalega feginn. Þessa dagana er nefnilega verið að reyna að venja Hraðbátinn af því að vakna áttatíu sinnum á nóttu til að kúra og drekka. Það þýðir að nú verður faðirinn að standa sig og gerði það með prýði í nótt. Ég er betur sofin en ég hef verið í marga mánuði. Hann að sama skapi illa.

Freigátan er á leikskólanum, eins og hún hafi aldrei gert annað. Það er að komast rútína á þetta. Hún vill alls ekki fara þangað á morgnana og alls ekki koma heim á daginn.

Heimilið er kannske í óvenjumikilli óreiðu nú eftir helgina en þar er um að kenna óvenjumiklu kæruleysi af hálfu Móðurskips þessa helgina. Er búin að dvelja langdvölum úti á Eyjarslóð og stunda tónlistarspuna af hjartans lyst. Verður hluti af dagskrá sem Hugleikur sýnir í listasafni Reykjavíkur... eða Íslands? Allavega því sem er þar sem áður hét hafnarhúsið, um mánaðamótin. Ásamt með einu eða tveimur stuttverkum eftir sjálfa mig, einu í leikstjórn Rannsóknarskips og miklu, miklu fleiru.

Svo fór ég á fantagóða sýningu í gær. Frumsýning hjá Leikfélagi Kópavogs á Skugga-Sveini í leikstjórn og leikgerð Ágústu Skúladóttur. Leiktexti heldur sér nokkuð vel, held ég, fyndið, skerí, viðkvæmt og harmrænt í hárfínu jafnvægi, æðislegt frammistaða leikara í svakalega flottu nýju leikhúsi við Funalind 2. MÆLI MEÐ!!! nánari upplýsingar á kopleik.is.