14.8.03

Í tilefni þess að DV er að fara á hausinn:

Faðir minn rak augun í þessa fyrirsögn í DV um daginn og varð furðu lostinn:
Heimilislausum fjölgar, fimm látnir
Já, þetta hljómar nú eiginlega eins og þeim sé að fækka...

Ég sá líka fyrir nokkru fyrirsögn á leiðara í því ágæta blaði sem mér fanns skrítin:
Miskunnarlaust og ógeðfellt ofbeldi
Sjálf reyni ég alltaf að hafa mitt ofbeldi miskunnsamt og geðfellt.

13.8.03

Lykil- nánustuframtíðarspil í tarotspá minni í dag:

Three of Cups (Abundance): A time of merriment and reflection spent in the company of friends and loved ones. The conclusion of a matter in plenty and perfection. The strength of a diverse community being brought together. May suggest a celebration, festival, anniversary, wedding, baby shower, or other joyous gathering.

Jihú!
Jæja börnene.
Þá fer alveg að bresta á menningarferð til höfuðstaðarins. Ef einhverjir hafa hug á hittingum utan brúðkaupsveislu þá þurfa þeir að fara að panta. Í bænum verð ég sambandslaus við umheiminn, venju fremur...

11.8.03

Urgh.
Ennþá mánudagur?
Djísus kræst.
Hver slökkti á tímanum?
Fiskidagurinn mikli á Dalvík
Best að gera örlítið betri úttekt á þessari ágætu helgi, svona fyrir öfundarkoffortin sem af misstu, og í tilefni þess að ég nenni alls ekki að vinna í dag.
Sumsé.
Við Einar Þór ókum norður á Dalvík að kvöldi föstudags, í mikilli fýlu út í veðrið sem var bara ekki neitt gott. Héldum að veðurklúbburinn hefði kannski bara klúðrað þessu. Fundum Kiwanishöll Dalvíkur þar sem Leikfélagið Sýnir skyldi láta fyrir berast. Svo fóru leikfélagar að streyma á svæðið. Mikið gaman að hitta alla og margar fastar hryggspennur teknar. Eftir örlitla skemmtunarupphitun, karókísöng og ýmislegt sem því fylgdi, voru menn síðan reknir í rúmið með harðfylgi þar sem ræsa átti mjööööög snemma næsta morguns.

Þá var reynt að sofa, gekk misjafnlega, enda gengur náttúrulega mikið á þegar 30 manns hrjóta í einu herbergi.

Klukkan 7 á laugardagsmorgni voru menn síðan rifnir upp og ferjaðir út í Hánefsstaðareit þar sem sýning Sýna, Draumur á Jónsmessunótt, skyldi fram fara. Þar var stundaður undirbúningur ýmis og öllu rennt einu sinni, í brjálæðislega góðu veðri með mest af liðinu með hálfgerðan sólsting og/eða í ofnæmiskasti. Veðurklúbburinn stóð nefnilega fyrir sínu þegar til átti að taka og hafði brjálaða blíðu. Allt gekk nú samt þokkalega upp, svæðið hentaði ljómandi vel og leikarar komust svona meira og minna allt sem þeir áttu að komast. Ljómi og sómi.
Um tvö var svo brunað út á Dalvík þar sem Píramus og Þispa skyldi leikin á hátíðarsviðinu auk þess sem einhverjir leikarar bruggðu sér í gerfi trúða og eldgleypa. Á Dalvík voru MARGIR! Þetta var eins og miðbær Reykjavíkur á 17. júní. Dagskráin var líka þéttskipuð og full af allskonar snilld, enda er Júlíus Júlíusson náttúrulega snillingur, eins og flestir sem þetta blogg lesa, vita.
Okkar innlegg í gamanið var líka til mesta sóma og gekk þokkalega, utan þess að Ástþór eldgleypir ákvað að brenna sig dáldið illa í framan. Hann tók því nú samt af karlmennsku en þurfti að vera með hausinn meira og minna ofan í klakafötu eitthvað fram eftir kvöldi, svona á milli þess sem hann lék.
Allavega, að þessum hrakförum loknum var aftur brunað út í reit og sýnt fyrir um 70 manns klukkan 18. Þið sem misstuð af þessu, ég get ekkert sagt til að hughreysta ykkur. Hún er algjörlega fullkomlega dásamleg. Valinn maður í hverju hlutverki og snilldin sveif yfir vötnunum.
Hins vegar eru víst einhverjar bollaleggingar að sýna meira í haust, allavega var mönnum fyrirmunað að skerða skegg sýn, sumum til mikillar armæðu. Súrt fólk sem missti af þessari umferð ætti að fylgjast með því, ég vil sérstaklega hvetja þá sem tóku þátt í sýningunni fyrir Austan á sínum tíma að sjá þessa uppfærlsu líka. Það er mjög fyndið hvað það er farið allt aðrar leiðir í mörgu.
Eftir sýningu var farið með fólk á Dalvík og það baðað. Svo aftur út í reit þar sem var grillað, sungið og tsjillað þangað til klukkan... eitthvað... ég hef ekki hugmynd. Svo var mönnum rúllað upp í rútu og í Kiwanishöllina okkar þar sem gleðskapnu var framhaldið lengi enn. Slatti af okkur kíkti á Papaball, þar var alveg sæmileg stemming en gífurlega margt fólk.
Eftir aðra nótt í hrotukór var síðan pakkað saman, kvaðst með tárum, og farið heim.
Þetta er náttúrulega alls ekki tæmandi úttekt. Margt er alls ekki fyrir viðkvæmar sálir, annað ekki prenthæft og svo er náttúrulega ekki hægt að muna allt sem gengur á. Þessu fólki verður jú allt að fyndi og maður hló að meðaltali 40 sinnum á klukkutíma, minnst. Það þarf hinsvegar ekki að orðlengja það að nú er mín ágæta leiklistarbaktería vöknuð úr löngum dvala. Það eru ennþá þrjár vikur þangað til LF byrjar að æfa og það finnst mér LANGUR tími.

Þar var nú samt ekki allt gamanið búið. Ég fékk far heim með Nönnu og co., þar sem mig grunaði að Einar þór myndi ekki vakna fyrr en á miðvikudag. Við túristuðumst slatta á leiðinni, komum við á Akureyri, skoðuðum foss og sulluðum smá í bláa lóni Norðlendinga við Mývatn.
Þegar heim kom var síðan stofnuð stórsveit fjölskyldunnar, en hún flytur í dag afmælissönginn á Kazoo, skeiðar og glas í tilefni af afnælisdegi móður okkar. í gærkvöldi brunuðum við Bára síðan á Seyðisfjörð þar sem við hittum Nönnu og co. aftur í svona post mortem þar sem við sátum dreymin á svip og töluðum um hvað hefði verið gaman og gerðum okkar besta til að gera systur mína elskulega gula af öfund.

Og nú er það bara að bíða eftir brúðkaupshelginni ógurlegu og reyna að þykjast lifa eðlilegu lífi á meðan.

10.8.03

Dalvík er Góður staður.
Fiskur er Góður.
Gott veður er Gott.
Leikfélagið Sýnir er Gott leikfélag.
Draumur á Jónsmessunótt úr Elliðaárdalnum er Góð sýning.
Paparnir eru Góð hljómsveit.

Þetta var Góð helgi.