6.2.09

Íhaldslausa landið!

Ég er ekkert mjög mikið að djóka með landflóttann, verði Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn eftir kosningar. Bara neeeenni ekki að reyna að draga fram lífið og fæða og klæða fjölskyldu í einhverju markaðs- og frjálshyggjukjaftæði í landi án velferðarkerfis sem er þar að auki á hausnum með manni og mús. Þar sem verið er að rembast við að græða á daginn og grilla á kvöldin, þessa fáu aura sem eru eftir af alþjóðlegu yfirdráttarheimildinni. Og ég heyri allt of mikið í Sjálfstæðismönnum þessa dagana sem hafa greinilega ekkert annað í huga en að gera nákvæmlega það.
Ég verð svartsýnni um að ég nenni að halda áfram að vera hérna með hverjum deginum.

Og hef voða mikið horft til Kanada. Einhverra hluta vegna. Þó ég viti næstum ekkert um landið. Enda er það næstum aldrei í fréttunum, af góðu eða slæmu. Sem er líklega ástæðan fyrir að mér finnst það hljóma ágætlega. Sennilega engin þjóðargeðhvörf þar.

Áðan sagði faðir minn mér nokkuð sem gerði þetta land algjörlega "fyrirheitið". Sjálfstæðisflokkurinn í Kanada beið einhverntíma svo svakalegt afhroð í kosningum að hann var lagður niður. Tilfinningar mínar gagnvart kanadísku þjóðinni, sem voru bara svona hvorki né, eru nú talsvert hlýjar.

Ætla að halda áfram að fylgjast með leiguverði og umsóknarfrestum í doktorsnám í Toronto.

5.2.09

Hannesarvörn

Þegar Heimdellingarnir fara að brúka reglurnar sem komu ekki í veg fyrir að þjóðin færi á hausinn sem málsvörn gegn þeim ásökunum um að regluverki hafi verið ábótavant, finnst mér ég heyra í Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni þegar hann tönnlaðist á því að það væru skrilljónogfimmtíu (hvað þær voru nú margar) tilvísanir í bókinni um Halldór Laxness, sem rök gegn því að hann hefði framið ritstuld, þegar vandamálið var að tilvísanir voru bara hreint ekki jafnmargar og tilvitnanirnar.

Mér finnst að fólkið sem setti þjóðina á hausinn, regluverksfífl sem útrásarfávitar, eigi að hafa vit á að grjóthalda sér saman í nokkur ár.
Og skammast sín.

Góðærisklósett!

Dagar sem hefjast á því að maður getur lesið laaaangt blogg og bakþanka sem aukaglaðning hjá Dr. Gunna eru ævinlega mjög góðir dagar.

Annað sem gerðist áður en ég fór í vinnuna var að skipt var um klósett heima hjá mér. Í gærmorgun kom nefnilega maður í heimsókn, alveg eldsnemma, og reif allt-of-stóra sturtuklefann úr allt-of-litla þvottahús-baðherberginu mínu og henti honum. Og í morgun fór gamla og ónýta klósettið í gúanóið. Í staðinn kom nýtt, eðalgræja úr Byko. Svo sem eins, en þau stóðu hlið við hlið frá í gærkvöldi og ég er farin að naga mig í handarbökin yfir að hafa ekki tekið mynd. Klósetttískan er nefnilega greinilega til, og hefur breyst frá 1987. Nýja klósettið er allt "rennilegra". Kantaðra. Ekki eins rúnnað. Með taka sem maður ýtir á til að sturta í staðinn fyrir svona stöng sem maður togar í.
Nýja klósettið er góðærisklósett.

Svo eru menn eitthvað að fárast yfir því að flísarnar á baðherberginu séu "lausar". Ég horfi og horfi og sé næstum enga dottna af. Og þar með ekki vandamálið. Og nenni síst að láta endurflísaleggja, nema svona rétt í gatið þar sem sturtuklefinn var.

En brátt verður hægt að halda heilmikið dansiball í baðherbergis-þvottahúsinu okkar. Sem er eins gott. Ekki líklegt að maður hafi efni á að stækka við sig húsnæði á næstu 10 - 20 árunum.

Verð að taka undir með Doktornum í dag. Lífið í þessu landi er ein allsherjar geðhvarfasýki. Geðveikt góðæri - geðveik kreppa. Hvernig væri nú að stefna bara á einhvern sæmilegan milliveg?

4.2.09

Spekúler

Ég rak augun í fésbókarhóp um daginn. Svosem ekkert merkilegt. Einhver hafði gengið í fésbókarhópinn "Stoltar strákamömmur." Það var samt eitthvað við þetta sem þvældist fyrir mér böggaði mig og plagaði alveg endalaust. Í dag fór ég að skoða um hvað þessi hópur snerist. Yfirskrift hópsins er "Grúppa fyrir mömmur sem eiga bara stráka og kunna ekkert á stelpur."

Hvernig sem ég leitaði fann ég enga grúppu fyrir "Stoltar stelpumömmur" sem "eiga bara stelpur og kunna ekkert á stráka." Það er kannski ekkert eins kúl.

Þetta hefur stungið mig aðeins, í gegnum tíðina. Ég hef heyrt konur segja þetta. Að þær eigi bara stráka og "kunni bara ekkert á" stelpur. Gjarnan örlar á stolti í röddinni við þessa yfirlýsingu. Ég hef aldrei heyrt neinn halda því gagnstæða fram, að hann eigi bara stelpur og "kunni ekkert á" stráka. Því síður held ég að pabbar sem eiga dætur eingöngu séu þeirrar skoðunar að þeir "kunni ekkert á" stráka.

Nú á ég börn af báðum kynjum og á þeim er talsverður einstaklingsmunur. Ég er þó ekkert þeirrar skoðunar að það sé vegna þess að sum þeirra séu stelpur og önnur strákar. Því síður að annað hvort kynið sé eitthvað sem "kunna" þarf "á" eða að maður "læri á" einhverntíma.
En þegar ég var lítil var ég stelpa. Þannig að ef einhver eðlislægur munur er þarna á, og ég ætti eingöngu syni, held ég að ég gæti hreint ekki haldið því fram að ég "kynni ekkert á" stelpur. Hafandi alist upp sem slík.

Annað sem ég hef velt fyrir mér er þetta með fötin. Þegar ég eignaðist son, tveimur árum eftir að hafa eignast dóttur, var heilmikið af ungbarnafötum sem fór óþvegið aftur ofan í kjallara. Þau voru nefnilega bleik. Stelpuleg. Á sama tíma og stelpan mín verður bara gæjaleg þegar ég set hana í strákaleg föt af stóra bróður sínum þá er það, þjóðfélagslega samþykkt, yngri syni mínum til minnkunar ef hann er klæddur í stelpuleg föt.

Ég heyri konur oft fara mikinn um að þær hafi verið strákastelpur. Bara ALLLTAF verið í byssó. Oft rek ég upp stór augu þegar þessu er haldið fram þar sem stundum halda þessu fram stúlkur sem ég þekkti í barnæsku og man ekkert eftir að hafi leikið sér neitt "strákalegar" en aðrir. Enda minnir mig að það hafi nú bara verið allur gangur á því hjá flestum.
Ég heyri karlmenn yfirleitt ekki státa sig sérstaklega af því að hafa verið mikið í dúkkó. En þeir sem viðurkenna það skammast sín ekkert fyrir það heldur.

Hvað er málið?
Er enn þann dag í dag kúlla að vera strákur en stelpa?
Er eitthvað undarlegt "hipp" við að segjast "ekki kunna á" stelpur?
Er maður þá búinn að afskrifa sinn stelpulega uppruna og orðinn nánast karlmaður?
Er einhver sérstök upphefð í því?

Ég er að hugsa um að stofna fésbókargrúppu sem heitir. "Ég er kona og var stelpa þegar ég var lítil og það er bara fínt."

3.2.09

1 árs í dag!
Merkilegt

Þetta finnst mér afar merkileg frétt. Fjölmiðlar komust í eitt skitið minnisblað sem maður sendi fjármálaeftirlitinu breska til að vara við því að krimmarnir í Kaupþingi tækju yfir Singer og Friedlander, og hann er umsvifalaust boðaður á fund fjárlaganefndar. Þar sem hann fattaði greinilega eitthvað sem aðrir föttuðu ekki og stjórnendum landsins þótti snjallt að komast að því hvað það var.

Hér hafa menn öskrað sig hása yfir viðskiptasvindlinu árum saman. Allir virðast vita meira en Fjármálaeftirlitið íslenska, Seðlabanki og fyrrverandi ríkisstjórn en við þá talar enginn nema Egill Helgason og þjóðin hlustar agndofa.

En ekki eru spekingarnir boðaðir á neina fundi, svo maður viti. Einn fékk reyndar að vera viðskiptaráðherra.

Það er eins og það vanti samvinnugenin í Íslendinga. Einn ræður í einu og hann hlustar á ENGAN!

Ítarlegri umfjöllun um málið hjá Láru Hönnu.

2.2.09

Kínversk stjörnuspeki nýrrar ríkisstjórnar

Áfram með uxastjórnina.

Og, mikið rétt, eini uxi stjórnarflokkanna á þingi, Ásta Ragnheiður, er kominn í félagsmálaráðuneytið. Einnig má alveg reikna með því að hesturinn Jóhanna og sauðkindin Kolbrún Halldórsdóttir eigi eftir að koma vel út úr þessari örstuttu stjórnarsetu. Katrín Jakobs er dreki. Meira að segja elddreki. Samkvæmt spekinni á hún þá að vera eyðslukló og hugsjónamanneskja með tjúllaðar hugmyndir. Líklega einmit það sem þarf í menningar- og menntamál.

Svo má taka fram að árið í ár er yin ár. En skv. Kínverjum skiptast árin á að vera yin og yang, þar sem yin árin eru kven- og yang eru karlár. Svo kannski hefur það hjálpað til að rigga allt í einu upp jafnrétti í ráðherrastólum, konu í stól forsætisráðherra, og svona.

Kallinum honum Steingrími J. ætti samt að ganga ágætlega í sínu ráðuneyti. Verandi sauður og svona. Hins vegar er hætt við að lítið leggist fyrir snákastrákana þrjá, Össur, Ögmund og Kristján Möller. Snákar eiga líklega ekkert sérlega auðvelt uppdráttar á ruðningsári sem þessu.

Ég hef ekki komist að því hvar utanflokkaráðherrarnir eru staðsettir í þeirri kínversku, en ég reikna með því að þeir hafi það mikið forskot með því að þurfa ekkert að vera að hugsa um pólitík að þeim vinnist betur sama hvað Kína segir. Enda bakka ég ekkert með það að utanþingsstjórn hefði verið besti kosturinn í stöðunni og ég vona að það skipulag komist á í framtíðinni að við fáum að kjósa forsætisráðherra algjörlega sér, hann fái að velja sér ráðherra og að þeir hafi ekkert meirihlutatangarhald á þinginu svo menn verði að fara að ræða málin þar og hugsa útfyrir flokkslínur. Ennfremur að forsætisráðherra megi ekki sitja lengur en í tvö kjörtímabil.

Og hanapananú.

1.2.09

Miðaldra

Hélt tvö tvöföld barnaafmæli með ókjörum bakkelsis um helgina.
Í því síðara var horft á beina útsetningu frá kynningu nýrrar ríkisstjórnin.
Og nýr menntamálaráðherra er yngri en ég.

Hefði miðaldurinn einhvern tíma hrætt mig væri ég farin á fyllerí, núna!

Í staðinn set ég stefnuna á að komast í megrunargöngu í kvöld.

Og úttekt á nýrri ríkisstjórn skv. kínverskri stjörnuspeki verður unnin um leið og heimasíða Alþingis verður uppfærð.