4.6.04

Þetta verða nú aldeilis skemmtilega skrykkjóttar ferðir hjá mér.

Á leiðinni út þar ég að leggja af stað löngu áður en ég vakna, eitthvað um 5, aðallega til að eyða svo hálfum deginum á Stansted. Um 5 er ég síðan komin til Cork en þá þarf ég að æða í blóðspreng til að ná rútunni, sem fer frá einhverjum stað sem ég man ekki lengur hvar er og veit ekkert hversu langt frá flugvellinum er heldur.

Á leiðinni til baka þarf ég að taka rútu eldsnemma til Cork, og þvælast síðan þar um fram á eftirmiðdag. Loxins þegar flugið mitt kemur til London þá þarf ég eiginlega að taka einn góðan sprett til að ná fluginu heim, sem fer rúmum klukkutíma síðar.

Ef ég missi af fluginu heim hef ég huxað mér að setjast á farangurinn minn og fara að grenja.

Var síðan að heyra aðeins meira af þessu námskeiði, við verðum 9, eintómar keeellingar. Það finnst mér fínt, fyrir utan huxanlega fyrirsjáanlegt skilningsleysi á EM í fótbolta og jafnvel skort á félagsskap í þannig áhorfi.

Ó well. Best að koma sér heim að pakka.
Sjitt.
Lenti í tómum koktleiboðum frá miðjum degi í gær og kom allt of seint heim og vaknaði í morgun ennþá vel íðí.
Sjittsjitt.
Er að fara til útlanda áður en ég vakna í fyrramálið.
Sjittsjitt sjitt.
Og var allt í einu að átta mig á því að ég veit ekkert um þetta námskeið, hversu margir eru á því, hvaðan eða hvernig fólk. Þetta gæti þess vegna verið svikamylluhringur sem stundar það að þykjast vera semí frægir höfundar og vera að halda námskeið til að láta menn allt í einu standa einhvers staðar í Cork og vita ekkert. Já, og stela peningunum manns.
Sjittsjittsjitt sjitt.
Og svo veit ég ekki hvenær verður runnið nóg af mér til að ég geti byrjað að muna eftir öllu sem ég átti að gera í dag.

Sjitt.

Er að huxa um að hætta við að fara út og fara bara í meðferð í staðinn.

3.6.04

Tíðkast nú hin stóru skærin.

Herra Forseti vill að við kjósum um títtnefnt, um daginn, fjölmiðlafrumvarp. Eins gott að maður var búinn að mynda sér skoðun, og skrifa hana niður.

Sjálfstæðismönnum hvarvetna er samt greinilega alveg meinilla við að fólk almennt fari eitthvað að láta í ljósi álit sitt á málinu og nú gengur maður undir mann við að reyna að halda því fram að ekkert sé að marka ákveðin atriði stjórnarskrárinnar. (Auðvitað kalla þessir plebbar sig -fræðinga og þykjast ekki vera málpípur neins nema sjálfra sín, en maður skilur nú fyrr en skellur í hurðum.) Ég er allavega búin að glugga í þau atriði stjórnarskrárinnar sem lúta að þessum málskotsrétti forseta og sýnist menn þurfa að teygja sig helvíti langt ætli þeir að reyna að skilja hann á fleiri en einn veg.

Svona er hún:

"26. grein

Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu."

Ég meina... þetta liggur bara alveg ljóst fyrir.

Mér finnst það hins vegar alvarlegt mál ef forsætisráðherra ætlar að fara að túlka stjórnarskrána eins og honum sýnist.

Ja, ef hann gerir það þá áskil ég mér allan rétt til að gera slíkt hið sama. Ef maður þarf ekki að hlusta á stjórnarskrána, þá er nú hægt að gera ýmislegt skemmtilegt. Taka fólk til fanga og pynta það, slá eign sinni á hvað sem er og gefa skít í friðhelgi einkalífsins og jafnan rétt allra til alls.

Sé fram á að Írlandsferð mín verði einkar nytsamleg til að ná samningum við IRA um hernaðarlega aðstoð í komandi borgarastyrjöld.
Allavega finnst mér vissara að kaupa teygjubyssur í fríhöfninni á leiðinni til baka og gera lista yfir fyrirhugaðar gíslatökur, ef ekki verður búið að blása til atkvæðagreiðslu.

Nú, og ef menn ætla að fara að fetta fingur út í þessar fyrirætlanir sem birtast hér, þá má fela sig á bak við þessa grein, á meðan stjórnarskráin gildir:

"73. grein

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar [...] Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða."

Mér finnst stjórnarskráin bráðskemmtileg.

2.6.04

Er nú meiri skítbuxinn. Ekki með link á vef Leikskáldafélagsins! (Fyrr en núna.)
Var einmitt að berast til eyrna að þar væru tilvitnanir í okkur Hugleikarana, mig og Magnús Grímsson.
Í morgun vaknaði ég í fyrsta skipti í mörg ár án þess að þurfa að ritgerða í dag.

Svo fékk ég tölvupóst frá hæstvirtum þjóðleikhússtjóra þar sem hann sagði mér að troða handritinu, sem þau voru að skoða frá mér, þvert upp í félagsheimilið á mér. (Ekki nákvæmilega með þeim orðum samt, af því að hann er ekki nógu fyndinn;-) Átti svo sem von á því, held ég eigi eftir fullt af vinnu í þessu leikriti og veit ekki hvort það "hentar Þjóðleikhúsinu" einu sinni eftir það. Langar nú samt til að klára það. Sé til hvað ég geri við það eftir nokkrar umskrifanir.

Að morgni annars júní í fyrra vaknaði ég við símann. Það var taugalæknir á Akureyri sem var að hringja til að segja mér að það væri ekkert að mér. Það var líklega einn af bestu dögum 2003, hugsanlega að fiskideginum á Dalvík undanskildum.

Annan júní 2002 var Bára syss í heimsókn hjá mér í Montpellier til að gæta húss og kötts á meðan ég færi á leikritunarnámskeið til Þýskalands.

Annan júní 2001 var brottfarardagur á Skólann í Svarfaðardalnum, ef ég man rétt.

Lengra aftur í tímann man ég ekki nákvæmilega, en það var í byrjun júní 1998 sem ég var greind geðveik og sett á þunglyndislyf. Um svipað leyti árs 1995 hefði ég líka getað neglt einn virkilega ríkan... sá mitt óvænna og ákvað að ég gæti ekki lifað með sjálfri mér sem kommúnista í framtíðinni ef ég færi að leggja lag mitt við uppskafninga með ættarnöfn.

Annar júní góður dagur.

Og svo er ég Barbavís!

Academic
You are Barbatine! You are well-read and love to
learn. You were gloomy in your youth and found
nothing you liked to taste, but you're older now,
and have an incisive sense of humour that
makes you and others smile.


Which Barbapapa Personality Are You?
brought to you by Quizilla

1.6.04

Fékk 8 fyrir ritgerðina.
Þýðir að ég hangi vel í 1. einkunn.
Nú get ég farið heim að sofa.
Here comes the sun, dúdúdú,
Here comes the sun and I say,
I smell bad
Og upplýsingar um það hvenær háskólabyggingar opna á morgnana virðast vera hernaðarleyndarmál. Er búin að leita í dyrum og dyngjum á internetinu öllu, aðallega samt háskólavefnum, að þeim. Núna er ritgerðin mín, nýljósrituð, innbundin og ilmandi, á skrifborðinu mínu eins og tifandi tímasprengja. Nenni alls ekki að fara klukkan 7 ef það opnar svo ekki fyrr en kl. 8. Þarf samt að koma henni á sinn stað fyrir 9. Og veit ekki hvað ég á að gera við mig í millinu. Heimurinn virðist alls ekkert vera á leiðinni að vakna. Er það ekki grunsamlegt? Náttfælnin enn að hlaupa með mig í allar heimsins gönur.

PS. Fann loxins opnunartímann. Frá og með 1. júní opnar ekki fyrr en 8. Helv... djö...
4.36
Þetta er tvímælalaust versti tími hverrar ritgerðarsmíðar. Þegar maður situr með nokkur tilbrigði við önd í hálsinum og hjartað í buxunum og hlustar á afrekið prentast út, þorir ekki að koma nálægt tölvunni, eða prentaranum, eða loftinu í kringum það af ótta við að fyrir einhverj afskipti Andskotans fari margra ára erfiði forgörðum.

Bætir ekki úr skák að vera búin að vaka heila nótt. Ég þoli ekki að þurfa þess. Ekki það að ég verði ógurlega svefnþurfi. Get vakað eins lengi og ég þarf. En mér finnst hryllilega óhuggulegt að vera vakandi lengur en allir aðrir. Einhverra hluta vegna finnst mér það verra þegar það er bjart úti. Er sem sagt ekki myrkfælin, bara náttfælin. Þetta er líka verra þegar ég er innandyra. Segi reyndar ekki að ég væri neitt róleg að þvælast um miðbæ Reykjavíkur eða Montpellier um miðja nótt, en t.d. í Egilsstaða- eða Hallormsstaðaskógi gæti ég alveg ráfað fram undir morgun. Sennilega gildir þessi óhugnaður aðallega um staði þar sem fólk er, alla jafna.

Já, þetta lítur út fyrir að ætla að verða heillar nætur gaman. Sérstaklega þar sem ég þori ekki að setja í gang ljósritun fyrr en eftir 7, til að trufla ekki nágrannana á efri hæðinni. Sennilega heyra þeir ekki baun og Fyrir Frakkland hefði ég ekki verið svona nojuð, en franskir nágrannar innræta manni lífsseiga nágrannafælni. Merkilegt að þjóð sem elur á jafnmikilli leti, vinnur helst aldrei og eyðir meirihluta ævinnar í að gera helst ekkert, skuli verða svona arfabrjáluð ef minnsta hljóð heyrist úr hýbýlum nábúans, sama hvenær sólarhringsins er. Skemmtilegastur var þó nágranni Pöbbsins míns O'Carolans. Hann kvartaði m.a. yfir óhljóðunum í gosbrunninum sem staðarhaldarar þar létu setja fyrir utan. (Pínulítið vatnsgutl.) Ég pældi mikið í því hvort hann kvartaði við einhvern þegar það rigndi...

Nú er næstum helmingurinn búinn að prentast út. Enn hefur tölvukerfið ekki ákveðið að hrynja eða henda ritgerðinni minni út í hafsauga, prentarinn ekki orðið geðveikur eða ákveðið að hann vanti eitthvað sem ég á ekki, ekki kviknað í húsinu, komið jarðskjálfti eða flóð. 7, 9, 13. Ófétinu kom ég niður í um 90 síður, fyrir rest. Það kostaði reyndar talsverðar tilfæringar, hef aldrei lent í því áður að þurfa að stytta akademísk afrek mín. Var síðasti séns að lenda í því.

5.01
Heimurinn ennþá steinsofandi og alveg eins og allir séu horfnir af yfirborði jarðar. Mikil lifandi skelfingar ósköp hlakka ég til þegar einhver vaknar, sem ég heyri til. Þetta er svo undarleg fóbía. Á daginn finnst mér fínt að vera ein míns liðs, hvar sem er. Líka skárra á nóttunni ef það er dimmt. Er sennilega alls ekki rétta týpan til að vinna næturvaktir eða standa í göltri yfirhöfuð.

Líklega gætu þó Agnes og Einar verið vakandi niðri í Ástralíu. Líður strax betur við tilhuxunina.

31.5.04

Fer þó aldrei svo að mar fái ekki að "púlla" einn "allnighter" við lokafrágang ritgerðar. Lærifaðirinn liggur enn á síðustu þýðingunni minni, eins og gormur á bulli, og hótar að ég fái hana ekki í hendur til lokavinnslu fyrr en um18.00-leytið í dag. Er þó ágætlega búin undir eins og eina næturvinnu eftir um 36 tíma svefn. Búin að hella upp á kaffi og gera drög að búsetu á skrifstofunni minni eins lengi og þarf, þó með þeim takmörkunum að endanlegt útprent af öllu draslinu þarf að liggja í hólfinu hjá Guðna fyrir vinnu í fyrramálið. Vona samt að þetta verði nú ekki nema kannski svona rúmlega "halfnighter" þar sem mörg vötn hafa runnið til sjávar síðan ég framdi svoleiðis síðast og aldurinn e.t.v. eitthvað látið á sér kræla. Það er reyndar alveg svakalega þægilegt að vinna á kvöldin og nóttunni. Hægt að vera alveg endalaust í friði.

Á morgun gerist síðan hið Óendanlega Óútskýranlega Kraftaverk. Ég verð BÚIN með Mastersritgerðina. Hún verður liðin í aldanna skaut, og aldrei hún kemur til baka. Allaveg hef ég ekki huxað mér að lesa hana. Það er mín trú og vissa að þetta sé eitt þessara háfræðilegu verka sem getur gert hið skemmtilegasta viðfangsefni svo drepleiðinlegt að hún geti svæft hina áhugasömustu á 3 blaðsíðum. mest. En þannig eiga einmitt góð fræðiverk að vera. Ekki mega nú yfirlesarar samt vera að því að láta svæfa sig oft, ég held að einkunnir eigi að berast skrifstofu klukkan 11 á morgun. Á þessum tímapunkti er mér nokkuð sk... f..... sama hver mín verður. Morgundagurinn getur ekki orðið annað en gífurlega bjartur og fagur.

Annað kvöld verður síðan óskaplega merkilegt. Við hjónin verðum bæði í fríi, væntanlega tiltölulega óstressuð og líklega ekki nema hálf sofandi. Eftir það verður Tollinn (sem heitir skv. nýjustu heimildum Þórhallur...) að sýna öll kvöld þangað til ég yfirgef skerið. Athyglivert að sjá hvað kemur út úr því, en það verður líka í síðasta skipti í svo sem mánuð sem við hittumst að einhverju ráði. Kemur hann Þórhallur ennfremur til með að kynnast á mér splunkunýjum persónuleika, ég man ekki einu sinni hvernig þetta leit alltsaman út. Fyrir Ritgerðarmaníu. Hún hefur verið ríkjandi þáttur í minni persónugerð það sem af er þessu árþúsundi. Kannski leysist úr læðingi hið félagsfíkna partýskrímsl sem réð ríkjum á síðustu öld! Og þó... við lifum jú enn á tímum Eftir Höfuðringl þannig að ólíklegt er að drykkjusiðir taki á sig sitt fyrra form. Nema þá að Írar fremji einhvern heilablaðskurð á þeim vígstöðvum, kenni mér að drekka Guinness og Wisky (sem mér þykja hvorutveggja hið mesta ullabjakk) og geri loxins úr mér meðferðarhæfan alkóhólista... það má lengi vona.

En, best að dvelja ekki við dagdrauma. Halda sig við núið. Jámjám.
"Við skapandi listamenn eigum bara svo erfitt með að halda okkur við hið hlutbundna og veraldlega" *hristir hárið*
Mitt takmark í lífinu er að geta komist upp með svona setningar. Með fúlustu alvöru í öllu yfirbragði. Þannig að venjulegt fþæolk veit ekki hvort það á að æla eða drulla.

Þarf að þýða eina 50 titla á löngu týndum formúluleikritum frá 19. öld. Jæks!

30.5.04

Heili í fríi. Svefn nánast óslitinn.
Er samt eiginlega í viðbragðsstöðu, á von á símatali frá Guðna á hverri stundu, þá tekur við um 3-4 tíma vinna, það eina sem er eftir af gerðinni. Verður huxanlega ekki fyrr en á morgun, úr þessu.

Þá er Írlandsferð farin að nálgast óðfluga. Nýja vegabréfið er komið, en mikið djöfull hefur maður nú látið á sjá á þessum 11 árum síðan síðasta vegabréfsmynd var tekin. Þetta fer að verða alvarlega spurning um strekkingar og lyftingar... eða kannski bara að láta ekki taka af sér skilríkjamyndir ómáluðum, rétt kominn inn úr rigningu. Maður þarf jú að veifa þessu framan í hina ýmsustu sótrafta alheims næstu 10 árin.

Er annars frekar andlaus og dauð í heilanum, svona akkúrat þessa dagana. Treysti á að það kippist sjálfkrafa í lag áður en námskeið í leikritun hefst... eftir viku. VIKU! ARRRRGH!
Hér með hófst panikkattakk.
Bara hægt að takast á við það á einn hátt. Fara aftur að sofa.