19.7.10

Anna í Grænuhlíð og íslensk þjóðarmein

Eins og fram hefur komið er ég að lesa Önnu í Grænuhlíð á frummálinu. Aðallega bækurnar sem ekki hafa komið úr á íslensku, og ég hafði ekki nema óljósar sögusagnir heyrt um að væru til. Svo skilst mér að maður þurfi líka að lesa þær sem hafa verið þýddar á frummálinu, þar sem þær hafi verið meinlega styttar og... já, bara asnalega þýddar. Sem er alveg satt. Stíllinn á þeim er mun skemmtilegri, fyndnari og ekki nærri því jafnháfleygur og þýðingar gefa til kynna. Það er í rauninni alveg fáránlegt að menn skuli hafa endurútgefið þetta í kringum níutíu og látið sér nægja að "endurskoða" gömlu þýðingarnar. Það vantar nýjar.

Nú er ég að byrja á 6. bók, Anne of Ingleside og er farin að velta mikið fyrir mér valinu á þeim bókum sem þýddar hafa verið í samhengi við æskudýrkun Íslendinga. Fyrstu þrjár bækurnar og sú fimmta voru þýddar. Aðeins fyrstu þrjár voru endurútgefnar. Og hvað gerist í lok þeirrar þriðju? Jú, Anna trúlofast.
Samkvæmt mjög algengri trú á Íslandi er lífinu þar með lokið.

Sú er þó ekki trú L.M. Montgomery eða kanadískrar eyjarómantíkur. Fjórða bókin, Anne of Windy Poplars, gerist þegar Anna er kennslukona í smáþorpi á meðan hennar tilvonandi lýkur námi. Heill haugur af spennandi persónum og allskonar. En, engin rómantík, ja ekki hjá aðalpersónunni, í allefall. Einhverra hluta vegna hefur ekki þótt óhætt að bjóða Íslendingum uppá það.

Fimmta bókin, sú sem var þýdd, er svosem alveg með rómantísku ívafi. Brúðkaupið, fæðing fyrsta barnsins, fyrsta heimilið og svona... hefur þótt sæmilegt fyrir Íslendinga áður fyrr, ekki 1992, samt.

Þegar bókin sem ég er að byrja á núna hefst hafa nokkur ár liðið. Anna í Grænuhlíð er orðin 5 barna móðir, svona meðal annars. Mér er fullkomlega óskiljanlegt að þessi bók, og þær sem á eftir koma, skuli hafa verið dæmdar óútgefanlegar fyrir íslenskan markað. Höfundurinn er orðinn eldri og aðalpersónan líka. Sögurnar hafa meiri dýpt, þó ýmis karaktereinkenni og meginprinsipp séu ósnert. Lífið er ekki óslitinn sólskinsdagur hjá öllum þeim fjölmörgu persónum sem koma við sögu þó oftar en ekki fái málin nokkuð farsæla lendingu.

Ég er mjög hugsi yfir þessum undarlegu ákvörðunum útgáfuheimsins, á tveimur tímum, og finnst þetta varpa enn einu sinni ljósi á grunnhyggni, auglýsingamennsku og æskudýrkunar hins íslenskrar menningar. Ef ég nennti myndir ég fletta upp útgefendum og grafast fyrir um á hvaða hálfvísku ritstjórnum þessar undarlegu ákvarðanir voru teknar, um útgáfu og endurútgáfu. En nenni því allavega ekki í sumarfríinu.

Ég held það sé mikilvægt og verðugt verkefni að leggjast í almennilegar þýðingar á öllum þessum bókum, og útgáfu. Þær verða aldrei "jólabókin í ár" eða á neinum sölulistum.
En þær munu lifa margar kreppur.