1.4.05

Var að fatta...

...það var ofurjarðskjálfti á annan í jólum. Og svo annar annan í páskum.

Tilviljun? Eða er Almættið í einhverju svekkelsi útí Súmötru?

Annars er fyrsti apríl. Ég er ekki í stuði til að ljúga neinu.

31.3.05

Kjánaland

Hvernig væri að breyta nafninu á landinu? Í alvöru?
Hér eru drög að nýrri stjórnarskrá:

1. Nafn landsins er Kjánaland.
2. Allir mega hafa ríkisborgararétt, hvers kynþáttar eða þjóðernis sem þeir eru, svo framarlega sem kjánaskapur þeirra er sannreyndur með stöðluðu kjánaprófi.
3. Andlegan leiðtoga skal kjósa reglulega og ber hann titilinn Yfirkjáni. Skal sá hinn sami berast mikið á í kjánaskap það ár.
4. Þjóðarréttur Kjánalands er Fischer and Chips.
5. Í Kjánalandi skal ævinlega taka peningana fram yfir lífið.
6. Þá sem huxa eða véfengja Kjánaboðskap Kjánalandsstjórnar má gera brottræka af kjánalandi. Einnig skal reisa þeim kjánalegar níðstangir í helgasta vígi Kjánalands, Seðlabankanum.
7. Þjóðsöngur Kjánalands er lagið Ísland er land þitt, en við syngist textinn:
Kján kján kjánkján kján
kján kján kján kján kján kján....
Og svo framvegis.
8. Uppeldi barna í Kjánalandi skal háttað á þann veg að þau skulu jafnan íklæðast nýjustu merkjavöru og eiga dýrt dót. Samneyti við foreldra skal ekki hafa forgang. Ungkjánar skulu þróa sinn eigin kjánaskap, frekar en læra kjánið af fyrri kynslóðum.
9. Reka skal heilbrigðis- og menntastofnanir sem gróðafyrirtæki. Til að leyna upprunalegum tilgangi þeirra skal heitum þeirra breytt í kjánastofnanir.
10. Utanríkisstefna Kjánalands skal vera sú að fylgja ævinlega kjánalegustu löndunum í öllum kjánalegum málum.

Sem sagt, þetta breytir ekki mörgu öðru en nafninu...

Sjang hæ

Einn er sá maður sem hefur trú á að í mér búi lítill anarkisti sem er stöðugt að reyna að bjótast út. Eða að minnsta kosti róttæklingur. Þegar ég kynntist þessum öðlingi, fyrir einum 20 árum síðan hét hann Daddi og við Heiða settum gosbrunn í hárið á honum. Seinna skaut hann upp kolli í háskólanum, hét Þórarinn Haki og fór mikinn í sandkassapólitíkinni. Enn síðar stofnaði hann flokk anarkista og sjanghæjaði mig í að vera á lista til alþingiskosninga.

Og í gær raxt ég á þennan ágæta mann á götu og lenti í framhaldi af því í kaffi niður í Snarrót, húsnæði Byltingarinnar, í kaffi og spjall um þjóð og heim. Er komin langleiðina með að láta sjanghæjast í einhver skrif og nefndir. Huxanlega fyrir þennan vef.

Róttæklingurinn vaknaði pínulítið og ég mundi eitt sem ég hef gleymt að tjá mig um.
Um daginn var í fréttunum verið að fjalla um útlendingafordóma á Íslandi. Rætt var, m.a. við fólk á Þorlákshöfn. Í báðum tilfellum töluðu viðmælendur um "þetta" þegar talað var um útlendingana sem búa á staðnum. „"Þetta" má svo sem alveg vera hérna.“ „Það er nú eiginlega orðið of mikið af "þessu"“

Eins andstyggilegt og það nú er að hvorugkyns- og hlutgera fólk, þá held ég að það sem böggi mig mest við þetta orðfæri sé eintalan í því. "Þetta". Allir einstaklingar frá sama landi, eða bara útlendingar yfirhöfuð, eru sem sagt svo keimlíkir að það má taka þá saman í eina stærð og kalla þá "þetta". Við notum þetta orðfæri aldrei í annarri merkingu en niðrandi um samlanda okkar, sbr: „Þetta nennir ekkert að vinna.“ „Þetta kann ekkert að ala upp börn.“ Og svo framvegis. Útlendingar þurfa ekki að vinna fyrir þessari heiðursnafnbót með öðru en að hafa fæðst einhvers staðar annars staðar.

Annars held ég að útlendingafordómar á Íslandi stafi af öfund. Öfund í garð erlendra verkamanna sem lifa á því sem við af okkar neysluhyggju köllum skítalaun og hafa samt efni á að senda peninga heim. Við berum nefnilega, svona innst inni, mikla virðingu fyrir fjármálaviti. Þorlákshefningar kvörtuðu yfir því að "þetta" einangraði sig og tæki ekki þátt í samfélaginu. Íslendingar "taka þátt í samfélaginu" með því að fara á tugþúsunda fyllerí eða gera annað það sem kostar morð og grilljónir. Annars taka þeir aðallega þátt í sjónvarpsdagskánni. Þessu tímir enginn heilvita útlendingur á verkamannalaunum sem er að reyna að sjá fjölskyldu í Póllandi farborða.

Hins vegar hef ég ekki séð annað en að þeir útlendingar á Íslandi sem hafa ílengst séu meira og minna á kafi í lista- og menningarlífi landans. Yfirhöfuð miklu duglegri við það en vér fjórmenningar sem hér fæddumst, svona hlutfallslega og miðað við höfðatölu. Enda, ef við ætlum að fara að fetta fingur út í það hverjir búa hér, verðum við þá ekki að fara að flytja heim þá Íslendinga sem búa erlendis? Mér skilst það sé nú bara u.þ.b. helmingur þjóðarinnar. Og hvaða rétt þykjast menn svo sem hafa keypt sér með því að hafa fæðst einhvers staðar? Ekki skipulagði maður það sjálfur. Eiga menn endilega rétt á að verðlaunast fyrir tilviljanakenndar staðsetningar örlaganna?

Já, ég held að róttæklingurinn hafi eitthvað rumskað...
Jafnvel heimspekingurinn.

29.3.05

Samtalsbrot úr fjarbúð:

Siggalára says: (12:44:57)
Þetta er nú bara efni í mjög súrrealískt eintal.

Árni says: (12:45:07)
sko

Árni says: (12:45:10)
.

Árni says: (12:45:21)
þegar fjöll hafa vængi

Árni says: (12:45:53)
þarf að finna stórt lendingarsvæði

Siggalára says: (12:46:08)
Góð byrjun...

Árni says: (12:46:20)
og passa sig að hlaupa hratt

Árni says: (12:46:25)
þegar þau nálgast

Siggalára says: (12:47:07)
Þetta er nú bara "Krulla" (Ljóðform Krulla, alteregós Rúnars Lund)

Árni says: (12:47:37)
kannski er ég alteregó Rúnars Lund


Já, Kristófer Ullur leynist víða.

Ónei.

Hef trúlega rekist á það sem verður mínum fjármálum endanlega að falli. Það er allt of auðvelt að verzla á Amazon.com. Skrattans kreditkort. Nú þarf ég að lifa á hrökkbrauði þangað til ég sel íbúðina. Eða verð heimsfræg og sel öll leikritin sem ég þori ekki ennþá að sýna neinum. Talsvert hrökkbrauð í það.
Damn.
Og það var páskað á Akureyri. Í gríð og erg og af alveg gífurlegri leti. Það endaði með því að ég hitti ekki nokkra einustu hræðu, utan þá feðga. Og sjónvarpið hafði ofanaf fyrir mér með miklum sóma. Hálfskammast mín, finnst ég núna hafa vanrækt heilan haug af fólki, en er alveg hreint óskaplega hress og endurnærð, engu að síður.

Og hérna megin páska er einhvern veginn orðið svakalega stutt í sumarið. Ég er ekki búin að klára neitt af því sem var á lífsprógramminu að gera í vetur, en nú sé ég líka fram á smá tíma. Ætla að:

- Reyna að klára að skrifa það sem ég er að skrifa og reyna líka að þora að sýna einhverjum það. Ég held ég sé með alveg þrennt.

- Reyna að skipuleggja einhverslags hittingar í íbúðinni minni, á meðan ég á hana ennþá. Gæti huxanlega farið svo að ég seldi hana í sumar, með gífurlegum haggnaði.

Og þar með er upptalið. Vissara að ætla ekkert að gleypa allan heiminn. Svo langar mig líka austur. Það en náttúrulega eitt með þessar norðurferðir að austrið hefur orðið svolítið útundan hjá mér. Ætla kannski að reyna að koma litlu fífí í sveitina í vor, þar sem ég bara hef eiginlega ekkert við bíl að gera, svona dax daglega.

Þvældist á pöbb eftir Patataz í gærkveldi og er hálfþunn. Svona er þetta.