23.2.07

Föstudagsreddingar

Fór með Freigátuna í ríkið í dag. Á leiðinni kom einn nafntogaðasti (meinti) morðingi Íslands og lagði blessun sína yfir tilvist hennar. Og ég stóðst freistinguna að spyrja hann hvað hann hefði gert við Geirfinn.

Í öðrum fréttum er það helst að allir eru að frumsýna um helgina. Freyvangur frumsýnir nýþýddan farsa með mág minn í kvenhlutverki, Ármann frumsýnir eigið verk sem hann leikstýrir einnig Halaleikhópnum í, Leikfélag Hveragerðis frumsýnir sextuxafmælisverk sitt, sem er Súperstar, og þetta eru bara nokkur sýnidæmi. Þetta er fyrsta uber-frumsýningahelgi ársins.

Pojpoj allirsaman.

Í tilefni alls þessa ætla ég að hanga mjög rækilega heima í kvöld og fara heldur ekki í leikhús annað kvöld.

Tímarnir breytast

Það er eitthvað undarlegt í gangi. Ég er að finna hjá mér skrítnar langanir og þrár. Og fleiri í kringum mig eru farnir að haga sér undarlega. Framkvæmdarstjórinn minn er til dæmis byrjaður að blogga. Og hyggur á reykleysi. Eins og það sé ekki nógu skrítið, þá er mig farið að LANGA út að hlaupa og í líkamsrækt. Svona þrekræktun með tækjum og vítisvélum og svitalykt. Á kvöldin og um helgar.

Við höldum kannski að heilsuræktaræðið sem ku vera að halla í tvítugt sé kannski að ná í skottin á okkur. Eða kannski er það bara vorið í loftinu sem hefur þessi áhrif.

Mig langar líka í annað hjól. Í staðinn fyrir það sem var stolið. Bara flottara. Og barnastól á það. Og muna svo að læsa því...

Í öllu falli ætla ég að elda baunasúpu handa honum Hugleiki á morgun. Er búin að fá mergjaða uppskrift. Þetta getur ekki klikkað.

22.2.07

"Pó fór í gegnum hurðina" !

Er að horfa á minn fyrsta Stubbaþátt. Alveg ljóst að hér hefur Þórunn Gréta ekki verið að þýða. Mæli ekki með þessu efni til málþroska.

Jæja. Pó kom þó allavega til DYRA þegar Lala bankaði, en ekki til hurða.

En svo fóru þær báðar í gegnum hurðina.

Komm ðe fokk on!

21.2.07

Öppdeit

Rannsóknarskip brúkaði bæjarferðina líka til að kaupa handa mér ÞRJÁR Agötur (Miss Marple) til að blíðka úr mér nammifýluna. Aukinheldur ætlar hann að fara í Lannnga ferð í Max með báða krakkana með sér seinnipartinn, til að standa við Smábátsmútrið og gefa mér tækifæri til að liggja og lesa þær. Lennngi.

Uppeldisaðferðin Mútur virkar líka alveg á mig.
Öskudaxfýlan hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Öskupösku

Nennti ekkert að skrifa í gær, af því að ég var úldin. Vinnustaðurinn minn laðar stundum að sér erfiða viðskiptavini, ekki síst rétt fyrir öskudag. Þar að auki átti ég einkar slæman hárdag.

Í dag er ég líka pínulítið snúin. Ég er alveg hreint forpokað og alfarið á móti því að börn fái að fara á nammifyllerí á öskudaginn. Þetta með búningana og sönginn er nú bara sætt... nema maður sé svo óheppinn að vinna í búð. En, að þau þurfi endilega að koma heim með 2-3 kíló af nammi, sem þau troða í sig fyrstu dagana, og maður er síðan að finna á undarlegustu stöðum og henda það sem eftir er árs, finnst mér bara hreint ekki gott mál! Ég vona bara að fleiri fyrirtæki hafi byrjað á því sem sum byrjuðu á í fyrra, að vera með harðfisk eða "dót", í staðinn fyrir sykur- og gefviefnasprengjur.

Það var gripið til uppeldisaðferðarinnar "mútur" til að fá Smábát til að lofa að borða nammið ekki úti, heldur koma með það heim, þar sem það verður skammtað mjög naumt og skal etið undir ströngu eftirliti. Í staðinn fær hann tölvuleik að eigin vali. (Enda kemur hann til með að stunda heilmikla holla hreyfingu og útivist við að verða sér úti um allt nammið sem hann fær ekki að borða að hann má alveg hanga í tölvunni, smá.)

Rannsóknarskip deilir hreint ekki þessari andúð minni á þessum (ó)sið, enda ku báðir upprunnir fyrir norðan. Hann er á leiðinni út með Freigátuna að kynna henni vitleysuna. Grrrr. Jæja, kannski bara ágætt að annað foreldrið sjái um nasismann.

19.2.07

Helgi!

Það kom helgi hjá okkur. Og í fyrsta skipti á þessu ári var enginn veikur eða slasaður og allir heima og ekkert nema rólegheit í gangi. Móðurskipið fékk að sofa til ellefu á konudaginn og er varla vaknað ennþá. Og svo voru líka blóm og bollur. Og gestir. Alveg eins og þegar ég var lítil, eða eitthvað.

Og systir mín í Noregi segist vera alterego Eiríks Haukssonar. Ég óska henni til hamingju með sigurinn.