3.6.10

Ekki neitt um neitt neitt

Bloggaði þvílíkt í morgun. Svo þvílíkt að dæmið breyttist í grein.

Fór líka á Sex & the City 2 í gær. Hún átti ágæta spretti, en tískusýningin varð full-fyrirferðarmikil. Eins og í fyrri myndinni.
Þori ekki að segja meira. Það gæti umpólast og orðið grein.

Annars er talsvert sársaukaminna að vera í vinnunni í dag en í blíðunni í gær. Ég held ég hafi sett einhverskonar met í að glápa á tölvuna og nenna engu. Það er komið sumar! En ég missti af því þegar það gerðist.

Hraðbátur blómstrar í nýja leikskólanum sínum og bæði börnin vilja helst aldrei koma inn og eru jafnan eins og múlattar á litinn. Af sól og skít. Í bígerð er að versla hljól undir Freigátuna. Hraðbátur á þríhjól. En þegar það gerist þurfum við líklega að vera undir það búin að leggjast alfarið út. Sem er svosem ágætt. Sjónvarpið er ónýtt.

Í litla gamla sjónvarpinu mínu erum við þó búin að komast í gegnum Twin Peaks nú á vordögum, frá upphafi til enda. Það var gaman. (Nenni ekki að skrifa meira. Greinarhættan.)

Fór með litlu ormana í kaffi og kókómjólk í ráðhúsið í Gnarrenburg í gær. Allt annað líf, sko.

Svo fer að styttast í að Móðurskip haldi í fyrstu útlegð sumarsins af þremur. Ætla á Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga sem í þetta sinn verður haldinn á Húnavöllum. Þar verður bæði hægt að leikstýra og skrifa. En ég ætla að syngja. Og vera dugleg að æfa mig að spila á gítar. Hluti af lífstíðarverkefninu „að verða sæmileg í mörgu en reglulega góð í engu“ sem nú er í gangi.

Foreldrar mínir verða í bænum á meðan. Ég missi af þeim en börnin verða væntanlega afar velumséð og Rannsóknarskip í golfi.

31.5.10

Þarf að "bjarga" peningakerfinu?

Það þarf að gera fullt hérna. Verkefni sem þyrfti að klára, allar stofnanir í landinu eru undirmannaðar þeir sem á annað borð hafa vinnu eru flestir hverjir að drepast úr ofvinnu.

Og fullt af fólki er á atvinnuleysisskrá. Vantar eitthvað að gera.

Og það er nóg af öllu hérna. Við framleiðum svo mikinn mat að við flytjum haug af honum út. Svo við ættum í staðinn að geta fengið fullt af krappi frá útlöndum.

Það er til of mikið af húsnæði. Og föt og drasl til að yfirfylla öll heimili í landinu að eilífu, amen.

Er ekki frekar brenglað að skortur á dótinu sem við fundum uppá fyrir einhverjum árhundruðum til að auðvelda vöruskipti, skuli nú koma í veg fyrir að hægt sé að skiptast á nokkrum sköpuðum hlut?

Var þar svona sem við hugsuðum verkaskiptinguna?
Átti endilega að verða til "peningakerfi" sem endaði á því að éta sjálft sig?

Desperasjón samtímans gengur út á að "bjarga peningakerfinu". Menn sjá alls enga framtíð utan þess og spyrja í örvæntingu: "Hvað á að koma í staðinn?"

Já, Jiminn. Hvað á þá að skilja á milli hver lifir og hver deyr? Hver vinnur fyrir milljón á klukkutíma og hver þrælar alla ævi fyrir svipaðir upphæð? Almáttugur í upphæðum, hvað á þá að sjá um misskiptinguna og óréttlætið? Halda pöplinum í skefjum meðan upparnir skíta gullinu? Hvaða afsökun eigum við þá að hafa fyrir því að svelta heilu heimsálfurnar á meðan við hendum hálfum pizzum og drepum okkur úr offitu?

Og hvað með framþróun mannkyns á plánetunni? Við vitum alveg að við erum að kála öllu lífríki jarðar smátt og smátt. Við getum samt ekki hætt því. Það er nefnilega ekki gróðavænlegt. Og tækniframfarir eru að þróast í undarlegar áttir. Ættu þær ekki að einfalda lífið? En, nei. Fleiri og flóknari græjur þarf það að heita. Og heill frumskógur af því þannig að þarfir og gerviþarfir séu ósundurgreinanlegar. Til þess að það sé hægt að selja meira krapp.
Maximæs Proffits, heitir það og er hið heilaga lögmál og undirstaða alls sem er.

En mikilvægisminnkun peninga er svosem engin bylting, allsstaðar.

Um áraraðir hafa fámennari sveitarfélög á Íslandi t.a.m. átt húsnæði undir sína kennara. Minni sjúkrahús hafa átt læknabústaði. Prestssetur eru til. Bæjarfélög og stofnanir eiga enga peninga í dag. En þau eiga ýmislegt annað. Svosem óseljanlegar fasteignir. Þegar menn leita að styrkjum til að gera eitthvað skemmtilegt, eins og að halda leiklistarhátíðir, eru það í rauninni ekki peningar sem menn vantar. Heldur matur, aðstaða, gisting... Og allt mögulegt er til í dag. Og margt af því er óseljanlegt.

Það eru nefnilega öngvir peningar til.

Líklega það besta sem komið hefur fyrir samfélag jarðarbúa.

30.5.10

Tímarnir breytast


Þér sofendur, vaknið! Sjá, voðinn er beinn
hina vaxandi flóðbylgju stenst eigi neinn;
og kannist hver við að hans kostur er einn
og knappur sá frestur sem veitist:
Að læra að synda – eða sökkva eins og steinn
– því nú byltist allt og breytist.

Þér skáld og þér sjáendur, sjáið nú glöggt,
því seint er að spá þegar ljósið er slökkt;
og tólfunum kastar í taflinu snöggt,
þar sem teningur veltist og þeytist;
hið klökka mun harðna – hið harða er stökkt
– því nú byltist allt og breytist.

Þér þingmenn og landsdrottnar, lítið á rök
en læsið ei dyrum, þér standið í vök.
Þar sem orrusta geisar; og sannur að sök
verður sá er gegn réttlæti beitist;
það sprengir hans múra, það molar hans þök
– því nú byltist allt og breytist.

Þér mæður og feður, nei, fellið ei dóm
á forsendum vanans né páfans í Róm,
þó að börn yðar vaxi upp úr brekum og skóm
um það bil sem þér eldist og þreytist.
Látið þau hlýða kalli, þó þér heyrið ei hljóm
– því nú byltist allt og breytist.

Sjá, línan er dregin og fordæming felld;
það er frostinu vígt sem nú bakast við eld;
öll þau djásn verða gefins sem dýrst eru seld,
allt það dýrast, er ókeypis veitist;
þeim sem hreyknastir tróna lærist hógværð í kveld
– því nú byltist allt og breytist.


Bob Dylan/Þorsteinn Valdimarsson