3.10.08

Issss...

Og hvað? Þurfum við þá kannske að hætta að éta innflutt, keyra allt sem við förum og vera offitusjúklingar?

Sijitt, maður.

Ég hlakka bara til þegar við þurfum öll að flytja aftur út í sveit, rækta kartöflur og éta kindur. Neita að fá taugaáfall og kaupa allan dósamatinn í Bónus.

Issssss...

Svo ætla ég nú bara að fara að sofa. Kreppa eður ei.

Nýtt stríð

Tróð Smábátnum í úlpu áður en hann fór í skólann. Píndi hann líka í almennilega skó, en undanfarið hefur hann bara viljað ganga í tuskuskóm. Sem er í góðu lagi, nema það sé snjór. Svo nú er sem sagt unglingastríðið byrjað. Úlpan var greinilega ekki að gera neina stormandi lukku. Ég þorði ekki einu sinni að stinga uppá húfu... sem hefði óneitanlega verið svolítið skemmtilegt.

Annars er að koma helgi og svona. Ýmis verkefni standa fyrir dyrum. Það er sprungið á barnavagninum svo eitt dekk þarf að fara á viðgerðaverkstæði. Bíllinn þarf ljóslega í skóskipti og tvö eldri börnin þurfa í klippingu. Smábátur og Rannsóknarskip ætla að heimsækja frænda þess fyrrnefnda á sjúkrahús, hvar sá er allur að skríða saman eftir bílslys um síðustu helgi. Á nú samt einhvern slatta í land með að verða sem nýr. Ég er búin að panta nokkra klukkutíma til að klára að koma restinni af Glettingnum í umbrotið. Svo var ég nú eitthvað búin að láta mig langa með alla fjölskylduna í Árbæjarlaugina og láta litlu sundgarpana sýna listir sínar. En Hraðbáturinn var nú eitthvað stíflaður í nebbanum í nótt svo ég veit ekki hvernig það fer. Enda kannski búið að ofskipuleggja helgina.

Í dag er merkisdagur. Hraðbátur er orðinn 8 mánaða gamall. Í tilefni þess reyndi ég að ná mynd af öllu nýju tönnunum, en drengurinn virðist ekki opna munninn án þess að harðloka augunum.

Nú er afmælisbarnið sofnað, Freigátan að komin í pleimó og Móðurskipið að hlusta á Óskastundina hennar Gerðar G. og ætti að fara að hunskast til að klára að lesa fyrir tímann í dag. Er, aldrei slíku vant, bara nokkuð vel lesin! Lógaði Evrípídesi, Racine og Strindbergi í vikunni og er nokkuð stolt af. Þá er bara kennslubókin sjálf eftir.

2.10.08

Ó, ég er sturluð!

Einhverntíma verður Freigátan komin á leikskóla, Glettingur allur kominn í umbrotið og ég þarf ekki lengur að vera að djöflast við að vinna eitthvað frá því að ég vakna á morgnana þangað til ég sofna á kvöldin.

Það verður nú spes.

Og djöfull þoooooli ég ekki þennan öööömurlega í CSI Miami. Á hinn bóginn er afkastahvetjandi að hafa einhvern sem maður þooooolir ekki í sjónvarpinu.

Og bæðevei, það snjóar!

1.10.08

Stóru strákarnir fóru í bíó í gær

Það ku hafa verið skemmtan hin besta. Í myndinni sást Rannsóknarskip segja Baltasari Kormáki að halda kjafti. Aukinheldur sást skóli Smábáts, hinn verðandi leikskóli Freigátunnar, húsið okkar og, að þeim sýndist, bíllinn okkar. Mælum semsagt með Reykjavík Rotterdam.

Höfum annars ekki haft okkur út í norðangarrann í morgun en þurfum líklega að herða okkur upp í það seinnipartinn þar sem allt er að verða búið úr kotinu. Helst til tíðinda af morgninum var það að Freigátan lærði að brjóta saman peysur og þótti það svo skemmtilegt að hún þurfti að fá að brjóta saman allar peysur í húsinu. Vildi til að flestar þurftu þess með. Svo var líka dótaherbergið tekið eitthvað til rannsóknar, slátur étið í hádeginu og nú eru allir sofnaðir svo Móðurskipið þarf að setjast yfir hina æsispennandi Fedru Racines.

Hið sama Móðurskip hefur annars verið nokkuð geðbólgulítið í dag. Gott að vera komin með dagsetningu til að stefna að, þó heldur sé hún nú seint fyrir smekk vorn. Freigátan hefur sumsé aðlögun á Drafnarborg föstudaginn 10. október. (Sem er líka alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og trúlofunarafmæli foreldra hennar. Viðeigandi.) En Rannsóknarskip skrópar í vinnuna á morgun til að við Hraðbátur komumst í mömmujóga-ungbarnasun maraþonið, og gerir slíkt hið sama á fimmtudag í næstu viku svo ég skal nú ekki grenja neitt í dag.


Myndskreytingar eru af fyrstu tilraun Hraðbáts til stafsetningar og nýjustu brostegund Freigátunnar.

30.9.08

Grenj

Leikskólinn segir enn tvær til þrjár vikur. Ég brást við því með því að fara að grenja og senda honum tölvupóst. Athugum hvort það gerir eitthvað. Þessi töf núna er af einhverjum óútskýranlegum ástæðum. Það eru búið að fullmanna. Og byrjað að taka inn börn alveg hægri og vinstri. Hitt barnið sem á að byrja á deildinni hennar Gyðu í haust er byrjað. Svo ég skil ekki vandamálið.

Hins vegar finnst mér eiginlega enn fúlla ef það virkar að fara að grenja. Mér finnst ömurlegt að það þurfi til og að það skuli virka. Á ekki borgin/leikskólarnir/allir að vera að gera sitt besta til að leysa þetta árlega vandamál fyrir? 

Og. 

Þar sem þetta er árlegt vandamál sem snertir alltaf góðan slatta af borgarbúum, og borgin á greinilega nóga peninga og getur verið í "útrás" og fyrirtækjamatador með milljarða, hvers vegna er ekki búið að fleygja peningum í þetta vandamál og láta það hverfa? Læna upp afleysingafólki á haustin. Eftirlaunafóstrum og námsmönnum sem eru kannski til í að leysa af í einhverjar vikur? Gefa leikskólum fjárheimildir til að sumarafleysingafólk haldi áfram eitthvað fram á haustið ef þarf og þeir geta? Gera samninga við Leikskólakennaradeildina um að nemendur þar taki æfingakennslu á haustin? Svei mér ef maður ætti ekki að fara að koma sér í borgarstjórn og sækjast eftir leikskólamálum.

Og.
Akkurru er verið að senda manni bréf um að barnið sé "komið inn" á leikskóla, um hálfu ári áður en það má byrja? Hvernig væri að senda mönnum bara bréf þegar komin er dagsetning á það hvenær barnið má byrja? Það hefði til dæmis gert mikið fyrir mína geðheilsu ef Freigátan væri bara búin að vera á sínum gamla leikskóla, og væri kannski bara núna að frétta að hún mætti byrja á leikskólanum handan götunnar eftir tvær til þrjár vikur.

Núna er ég nefnilega að missa það.

Ég er ýmsum kostum búin og get margt. En heimavinnandi get ég helst ekki verið. Og eftir að vera heima með tvö börn í einn og hálfan mánuð er nóg til þess að nú held ég að ég þurfi að sækja um einhver viðtöl hjá geðhjúkrunarfræðingnum. Sem er önnur ástæða fyrir því að mér finnast uppeldisstéttirnar eiga að vera betur launaðar en allar aðrar. 
Þetta er nefnilega ekki fokkíng hægt! 

Mér þykja börnin mín skemmtileg. 
En. 
Að vera allan daginn að skeina, snýta, mata, klæða, skipta á, hugga, sinna og skamma... á milli þess sem maður treður í uppþvottavél, þvottavél, þurrkara, og reynir að grynnka á draslinu og aldrei sér högg á vatni... kemst ekki út úr húsi nema til komi meiriháttar skipulagning og þurfa þá að byrja á að troðast ofan í kjallara með miklu fleira en maður getur borið, í sinaskeiðabólgnu höndunum sínum...

Ég huxa að ég tali fyrir munn miklu fleiri en vilja viðurkenna það þegar ég segi að:
ÞAÐ ER ÖMURLEGT!
Og getur farið illa með geðheilsu geðprúðasta fólks.

Vegna þess að:
-Maður gerir illa það sem manni finnst leiðinlegt.
-Ef það eina sem maður þarf að gera er leiðinlegt, gerir maður allt illa.
-Ef maður gerir allt illa er maður ööömurlegur.
Og ekki bætir úr skák að vera síðan hálfgerður stofufangi heima hjá sér og þurfa allan daginn að horfa á draslið sem maður er ekki að taka til.

Ég vissi að það yrði erfitt fyrir mig að vera heima fram að áramótum. Og þess vegna var ég búin að gera ýmsar ráðstafanir til að reyna að halda geðheilsu fram í desember. Skrá mig í mömmujóga og gera fleira líkamsræktartengt. Skrá börnin á sundnámskeið. Skrá sjálfa mig í einn masterskúrs í háskólanum. Og svona. Allt í þessu skipulagi gerði hins vegar eingöngu ráð fyrir að Hraðbátur yrði með mér. Fátt af þessu reiknaði með því að ég yrði með hina tveggja ára Freigátu prílandi upp á haus á mér. En við þær aðstæður er hreinlega ekki hægt að lesa harmleiki.

Enda er ég komin á hraða niðurleið. Byrjaði ágætlega. Var dugleg að fara út og hreyfa mig á kvöldin. Og lesa og sinna Glettingnum eftir vinnu Rannsóknarskips og fram eftir kvöldi. Og segi það ekki, er ennþá ágæt. Fór í ræktina í gær og píndi Rannsóknarskip heim úr vinnunni svo ég kæmist í jóga í morgun. En er farin að finna hjá mér gríðarlega þörf fyrir að gera ekkert nema éta eftir að börnin eru sofnuð á kvöldin. Og helst ekkert nema nammi. (Læt ekki enn undan, en það er alveg að koma að því.) Og er farin að fara næstum eða alveg að grenja ef hlutirnir eru ekki nákvæmlega eins og ég var búin að ÁKVEÐA!

Enda var ég ekkert að ljúga í tölvupóstinum til leikskólans áðan þegar ég tjáði honum að ef málið leystist ekki farsællega á næstu dögum þurfi maðurinn minn að hætta í vinnunni.

Svo ef þetta blogg þagnar skyndilega verður Móðurskipið sennilega komið á geðdeildina af húsmóðurlegum geðbólgum. Ef ég væri uppi í Bandaríkjunum á fjórða til fimmta áratug síðustu aldar væri líklega löngu búið að senda mig í heilablaðsskurð.

Best að fá meiri útrás fyrir gremjuna og grenjuna og lesa Hippolítos.

PS. 
Opnaði Hippólítos og það fyrsta sem ég les er setning Fedru:

Ó, veslings ég!
mitt vit er á hvörfum; ó, ég er sturluð...

Svona ef einhver skilur ekki hvernig harmleikjalestur getur létt manni lundina.

PPS.
Er Hippólítos og Fedra höfðu bæði hrakist 
úr heimi lifenda; fyrir fláttskap Kíprisar og afbrýði, 
fengum vér þau boð úr herbúðum dagvistunar 
að vér mæðgur megum einungis tíu dægur enn 
svo margra njóta samverustunda, hvunndax.
En eftir þau aðskiljast, og hefja aðlögunartíma
á októberi hinum tíunda, á stofnun þartilgerðri.
Munum vér því hemja vort geð og bera eigi harm í brjósti
heldur nýta sem best stundir í samfélagi við yngismeyna
á vikum komanda, tveimur. Og vel við una.

Hvernig væri svo að skrifa harmleik?

29.9.08

Heilagur Mammon

Þetta er ekki einleikið. Í einhverju fyrra lífi hef ég eignast svo stóran hönk upp í bakið á honum Mammoni að ég veit ekki hvar þetta endar. En ég hef allt þetta líf verið einstaklega heppin í fjármálum. (Gæti svosem reynt að halda því fram að það væri vegna þess að ég hefði svo gott fjármálavit. En það væri haugalygi.)

Septembermánuður er búinn að vera nokkuð magur. Eftir sumar á hungulúsinni sem námsmenn fá í fæðingarorlof er enda ekki við öðru að búast. Í september hef ég því velt fyrir mér hverri krónu og ekki eytt nema annarri hverri. Eins og kreppuhjalarar segja að maður eigi að gera. Í gær fór ég svo aðeins í netbankann minn til að gá hvað ég væri nú í miklum mínus. Og átti óvænt alveg fúlgur fjár!

Þannig er að fyrir einhverjum vikum fékk ég bréf um að það væri verið að leggja niður verkalýðsfélagsdeildina mína. Eða eitthvað svoleiðis. Félaxmenn skyldu fá útborgaðan einhvern péning, í rétu hlutfallið við hvað þeir hafa verið að vinna undanfarin 2 ár. Þar sem ég var nú bara að vinna einhver 55 prósent fyrra árið af síðustu tveimur bjóst ég við einhverju fyndnu innleggi sem næði kannski fimmhundruðkalli, ef ég væri heppin. 

Og daginn eftir að ég finn auka hundraðþúsundkall inni á reikningnum mínum heyrist bara "svvvúpp" og einkavinavæðingin gengur til baka. Fínt bara.

Í tilefni fjárfundarins fór ég með börnin í bæinn í morgun og spreðaði á þau bókmenntum og DVD-i fyrir fimmþúsundkall. Sé enn eftir að hafa ekki keypt Iggúl-Piggúl-bókina. Geri það næst.

Ekki er allt búið enn. Á von á launum eftir mánaðamótin. Sem voru nú hálfgerð hugnurlús til að byrja með. En þau eru í DOLLURUM!!!!$$$$$

Svo er Sólbraut 10 til sölu. Á einhver 125 milljónir?

Fréttir

Ég er orðin leið  á efnahagskerfinu. Þjóðnýtum það bara alltsaman. Höfum svo eitthvað annað í fréttunum.

Betri fréttir eru af frænda Smábátsins sem liggur á gjörgæslu eftir alvarlegt bílslys um helgina. Hann er á batavegi og losnar líklega af gjörgæslunni í dag.

Gekk með börnin niður í bæ í sólinni í morgun. Hefi endurheimt eiginmanninn á svæðið svo ég hefi uppi talsverð áf0rm um að skreppa í ræktina seinnipartinn.

Er svo að spá í að kaupa 75% í Ríkinu.

28.9.08

Makkapakka

Í barnauppeldi er maður sífellt að gera sér betur grein fyrir fávisku sinni. Eitt af því sem ég hef krónískt rangt fyrir mér um er barnaefni. Fyrirfram hafði ég til dæmis enga trú á að nokkuð barn gæti haft gaman af Stubbunum. En þeir eru nú aldeilis búnir að stytta stundirnar á þessu heimili. Þessi eini diskur sem er orðinn ónýtur af ofspilun. Einhvern tíma í fyrravetur sáum við Rannsóknarskip síðan nýtt barnaefni sem hneyxlaði okkur mjög.

Þættirnir heita "Í næturgarði" og eru fyrstir í lænöppinu á Rúv á sunnudaxmorgnum. Persónurnar heita allar eitthvað svona "Iggúl Piggúl" og "Makka Pakka" og "Obbsí Deisí", lestin heitir "Mínkí Monk" og flugskipið "Pínkí Ponk." Söguþræðirnir eru ofureinfaldir og hver persóna á sitt lag eða sína vísu sem sögumaður fer með eða syngur þegar þær koma fyrst í hverjum þætti.
Öööömurlegt. Sögðum við hjónin í kór. Ljóta vítleysan og gerir börnin nú bara að algjörum VanVitum.
Þangað til í ljós kom að Freigátan (sem annars situr aldrei kjur yfir nokkru, þó hún heimti oft stanslitlar kvikmyndasýningar) sat yfir þessu eins og dáleidd. Og Hraðbátur gerir það líka, nú þegar, en hann er nú líka efnilegri glápari. 
Þannig að nú syngur fjölskyldan stundum einum rómi og af innlifun sönginn um Iggúl Piggúl og Freigátan má alveg kunna orðskrípi eins og "Pontípænar" og "Tomlíbúar." Friðurinn á milli átta og hálfníu á sunnudaxmorgnum er fullkomlega þess virði.