15.1.10

Fréttir af mislitlu fólki

Best að taka upp léttara hjal.
Nú verða sagðar barnafréttir.

Smábátur er nú að taka sín fyrstu próf í Hagaskóla. Próflestur er framinn af mismikilli ákefð. Einkunnir þurfa nú samt að vera alveg hreint ágætar, finnst honum. Sjö er tildæmis alveg ööömurlegt. Helst vilja menn nú ekki þurfa að hafa mikið fyrir þessu heldur. Spurning um að leggjast í námstæknikennslu með drengnum á næstu önn. Hann hefur annars ekki fundið fyrir neinum heilsuveilum, en hann er búinn að vera í rannsóknum í þessari viku og hittir taugalækni í dag.

Freigátan er afar mikið fyrir að leika sér gríðarlega úti á leikskólanum. Um daginn kom útigallinn alveg haugdrullugur með henni heim, í poka. Hún hafði verið í svínaleik með vinum sínum. Um daginn bjó hún líka til heillanga sögu um kúk sem fór í frí. Henni er nú ekki sérlega vel við að sofa alein í herberginu sínu, en við erum búnar að finna upp aðferðafræði til að það gangi betur.

Í gær var foreldraviðtal í skóla Hraðbáts. Hann er duglegur að borða, sofa, leika sér, hafa samskipti við börn sem fullorðna, með góðar grófhreyfingar, fínhreyfingar, málþroska, orðaforða, jákvæður og finnst allt skemmtilegt. Ekki amaleg umsögn það. Síðan rörin voru sett í eyrun á honum er hann Hraðbátur sumsé bara fullkominn. Heimafyrir er hann reyndar orðinn svolítið duglegur að rífa af systur sinni og stundum hvín ansi vel í þeim báðum ef bæði vilja hafa það sama. En oftast eru þau góðir vinir og gengur mjög vel að leika sér saman.

Og það er bara að bresta á með helgi. Ég ætla að þræða frumsýningar og sjá bæði Leikfélag Kópavogs sem frumsýnir nýtt spunastykki í kvöld og Hugleik sem frumsýnir afar spennandi Hannyrðaþætti annað kvöld. Rannsóknarskip ætlar í póker þegar ég kem úr leikhúsinu í kvöld. Svo verða þetta líklega bara útihlaup og almenn leti!

12.1.10

Hvað er málið með hrakspárblætið?

Ég er að verða brjáluð á þessari tuggu um að "menntafólk" sé allt að fara til útlanda. Mér finnst menn ekki vera að hugsa þessa kenningu alveg til enda. Flestir þeirra sem ég þekki sem hafa freistað gæfunnar erlendis vegna kreppunnar eru verkafólk. Eða starfar allavega sem slíkt erlendis. Það er nefnilega auðveldara.

Það er alveg sama í hvaða fagi maður er með háskólamenntun. Þau fög eru alltaf tungumálstengdari en önnur. Byggja meira á að gjörþekkja málheim síns fags á viðkomandi tungumáli. Ég lærði bókmenntafræði að hluta til í Frakklandi. Ég gæti ekki skrifað bókmenntagrein á frönsku til að bjarga lífi mínu. Né heldur nokkru öðru erlendu tungumáli nema kannski ensku. Líklega geta flestir bjargað sér á ensku. Enda er samkeppnin um störfin í enskumælandi löndum gríðarlega hörð þar sem þar er við allan heiminn að etja.
Ég myndi frekar óttast verkamannaskort á Íslandi heldur en mikinn útflutning menntafólks.

Svo er líka bara hunderfitt að búa í útlöndum. Bara að lifa á öðru tungumáli, í öðru samfélagi, alveg sama þó maður kunni málið ágætlega. Ef maður ætlar að flýja land út af vöntun á "neyslusamfélagi", fara frá fjölskyldunni, vinunum, æskustöðvunum, til að geta keypt sér ódýrari gallabuxur, þá eru menn bókstaflega að selja ömmu sína.

Svo er þetta orðað gríðarlega dramatískt.
Menn FLÝJA LAND!
Maður er látinn sjá fyrir sér fólk á flótta frá stríðshrjáðum svæðum.
En allir koma aftur. Allavega í heimsókn. Og ef við höfum ekki vinnu fyrir fólk. Er þá ekki allt í lagi að menn leiti fyrir sér annarsstaðar? Það er búið að finna upp flugvélina. Það er fært til baka. Við erum ekki að tala um vesturferðir 19. aldar.

Ég sé alveg fyrir mér að flýja land. Ef ég sé að menn séu að skera niður heilbrigðis og menntakerfi þegar aðrar leiðir eru færar. Finna almennilegt velferðarsamfélag. En það er ekki eitthvað sem er svo léttvægt að það sé hægt að hóta því bara sísvona. Ástandið þarf að vera orðið mjög alvarlegt til að maður íhugi það. Án þess að ætla sér að koma til baka.

Að því sögðu er rétt að taka fram að við stefnum á að skreppa til Kanada ca. 2012 - 2014. En við höfum hugsað okkur að koma aftur. Og hugmyndin er frá því fyrir hrun. Fólki datt nefnilega líka alveg í hug að flytja til útlanda þá, sko.

Mér finnst við hafa meira aðkallandi mál að hugsa um en að velta fyrir okkur hvað "fólk" gerir eða gerir ekki ef "lífsgæðum" (verði á gallabuxum) fer mikið aftur á Íslandi.
Eitt af því er EKKI gjaldþrota bankareikningar með merki í einhverjum viðbjóðslegum pastelstöfum. (Hvaða fáviti ætli hafi annars hannað það hlandbláa ógeð?)

Þeir sem fara, fara. Þannig verður það bara. Það er eitt af því sem þýðir ekkert að fara að grenja yfir.
Allavega ekki fyrirfram.

Skrúðkrimmarnir

Besta afurð þessa annars ágæta áramótaskaups er klárlega nýyrðið skrúðkrimmi. Eftir það sem á undan er gengið þarf nefnilega klárlega nýtt orð yfir hvítflibbaglæpi, sem nær engan veginn yfir það sem gengið hefur á.

Skrúðglæpir:
Siðferðisglæpir gegn samfélaginu sem felast í ójöfnuði af áður óþekktri stærð þar sem óbreyttum launamönnum eru greidd smánarlaun en boðin endalaus neyslulán á (að sögn) gríðarlega góðum kjörum og lán með veði í íbúðarhúsnæði dulbúin sem eigið fé lántakenda.
Banka- og fyrirtækjaeigendur hirða síðan bæði gróðann og vextina og brúka þá til að skrýða sig skrúði í hvívetna. Allt er síðan gert löglegt með skrúðmælgi á Alþingi.

Ef það sem skrúðkrimmarnir gerðu var löglegt þá er greinilega sitthvað bogið við lögin. Ef illa gengur að ná þeim hlýtur að hanka þá á því sem fellti Al Capone. Skattalögunum.

Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða.
Er það ekki?

Það þarf að laga lögin á Skrúðlandi svo við förum ekki beint í næstu bólu-kreppu.

Funny side up!

Þá er allt orðið venjulegt heima hjá okkur. Eða svoleiðis. Reyndar brast á með afmælatörn um helgina, barnaafmæli á laugardegi og sunnudegi. Svo verður hið árlega handbolta-afmæli hjá Freigátu og Hraðbáti eftir svona 3 vikur. Veisluna þeirra ber alla jafna upp á handbolta-úrslita-helgi og leikurinn er í beinni í ættingja-afmælinu sem er alltaf á sunnudeginum. Afar mikil hefð í þessu, eitthvað.

Smábáturinn er í prófum, og þar með Rannsóknarskip í yfirsetum, þessa dagana. Eldri partur fjölskyldunnar tekur talsverðan þátt í því. Í gærkvöldi voru ábendingarfornöfn svínbeygð í akkorði fyrir framan sjónvarpið þar til unglingurinn kvartaði yfir úrbræðslu í heila. Sem er ekki gott þar sem hann þarf að fara í heilarita í dag vegna krampa sem hann fékk í síðustu viku. Við höldum í vonina að það hafi bara verið einhver misskilningur í taugaboðakerfi (eða lítilleg úrbræðsla í skólabyrjun) en hann þarf að fara í einhverjar rannsóknir og hitta taugalækni í þessari viku. Drengurinn er með ólæknandi hjartasjúkdóm. Mér finnst það nú eiginlega alveg nóg fyrir eitt barn af alvarlegum og krónískum heilsuveilum til að díla við. En þetta nýja ku ekki tengjast því neitt. En við vonum það besta og gerum grín að öllu saman heima hjá okkur, eins og okkar er von og vísa. Vonum að þetta sé ekki eitthvað annað, krónískt og alvarlegt.

Litlu tvö eru hæstánægð með að vera komin heim eftir jólaflakkið. Leika sér með jólagjafirnar, enda þarf að jaska þeim dáldið úr áður en afmælisgjafir koma. Nú eru þau bæði á ferlega fyndnum aldri og ótrúlegustu setningar geta oltið upp úr þeim. Freigátan kom heim í gær með öll fötin sín alveg drullug upp fyrir haus. Hún hafði verið í svínaleik úti. Foreldraviðtal er hjá Hraðbáti á fimmtudaginn, þá fæ ég að vita hvernig hann hagar sér, en hann er hæstánægður á leikskólanum. Brunar inn fyrir eigin vélarafli um leið og ég er búin að plokka af honum fötin og lítur ekki einu sinni við. Svo er hann líka voða glaður að koma heim aftur þegar við sækjum hann. Honum fór mikið fram að tala um jólin og er núna farin að segja heillangar setningar. Hann þyngdist líka helling og er nánast kominn aftur upp í það sem hann var fyrir veikindi.

Þetta er svona orðræða. Núna er ég að skrifa orðræðu af því að ég er ekki að nenna að byrja að lesa orðræðugreiningarbækurnar sem eru í fjöllum á borðinu mínu. Í þessum mánuði liggur nefnilega fyrir að skrifa sjálfstætt rannsóknarverkefni um orðræðu og orðræðugreiningu. Minna leiðinlegt en ég bjóst við, svosem... enda er ég alveg að bruna í gang þennan morguninn.

Einntveirog ... drrrunnnn!