13.3.09

Neon – Hugleikur – Hugleikur

Ég er búin að huxa og vinna alveg gríðarlega undanfarið. 4 - 5 tíma æfingar í Hugleiknum öll kvöld, gríðarleg framþróun í mastersverkefninu (sem verður um Neon-klúbbinn) sem endaði í svakalega fínu spjalli sem ég átti við Snæbjörn Arngrímsson og Jón Karl Helgason í morgun hvar þeir sögðu mér fjarskalega margt sem ég get notað, og af því að ég hafði einhvern veginn svo lítinn tíma þá djöflaði ég líka saman einhverri hugmynd að útvarpsþætti og gekk svo langt að ég pittjsaði honum og held ég sé bara að fara að drífa í honum eftir páska.

Enda er ég svo eitthvað bensínlaus og með úrbræddan heila að ég gæti alveg farið að grenja. Myndi gefa ýmislegt fyrir að geta skriðið upp í sófa og horft á eitthvað gríðarlega heiladrepandi. Fallegt og jafnvel rómantískt. Má gjarnan vera eitthvað sem ég kann utanað.

En, nei. Upprunaslóðirnar eru víst í úrslitum í útsvari og ekki tjóar að sleppa að fylgjast með því. Svo er ætlunin að ferðast með yngri börnin einmitt austur á Hérað á morgun til 10 daga dvalar og ég er ekki einu sinni farin að hugsa fyrir því að pakka niður. Og er ekki að nenna því.

Úfffs.

12.3.09

Spríng breik! Vúhlúhlú!

Hvernig maður hagar sér ekki í kreppunni? Í gær fór ég og fjárfesti stórum í þessum líka eðalfína diktafóni sem er bæði örsmár og getur tekið öll ósköpin upp í gríðarlegum gæðum. Hann fær að þjóna tilgangi sínum í fyrsta sinn í fyrramálið þegar heimildaöflun vegna meistaraverkefnis í hagnýtri ritstjórn og útgáfu fer formlega á milljón með því að viðtal verður tekið við stofnanda Neon-klúbbsins.

Í beinu framhaldi skiptir fjölskyldan liði og dreifir sér um landið og miðin í eins konar sjálftekið vorfrí. Rannsóknarskip og Smábátur flengjast á Bítlaslóðir í Liverpúli með Sverri mági á mánudaginn, en áður verð ég og þau litlu stungin af austur á land. Það ætlum við að gera á laugardag. Vorfríinu ætlum við að eyða í að fara mikinn í snjónum á Egilsstöðum. Mér skilst að Amma-Freigáta sé búin að verða okkur úti um snjóþotu.

Svo það er ekkert að vanbúnaði... nema kannski tími til að pakka. Æfingar á Ó þú aftur hafa harðnað nokkuð í vikunni svo nú er svo komið að ég hitti fjölskylduna rétt svo á milli 16 og 18 á daginn. Svo það verður hollt fyrir litlu krílin að rifja aðeins upp tilvist Móðurskipsins.
Annars er asnalegt að hafa eitthvað svona mikið að gera þegar algert aðgerðarleysi blasir við upp úr apríl... En ég býst reyndar við að það rætist eitthvað úr því. Það gerir það venjulega.
Eitt er orðið alveg þrælplanað fyrir sumarið: Ég ætla á Bandalagsskólann!

11.3.09

Allt. Gott.

Best að hamra á því.
Jóhanna er að redda þessu. Eva Sjólí ætlar að hjálpa til.
Allt er á leið til fullkominnar dásemdar, réttlætis, handtaka og fjársekta til handa fjárglæframönnum og björgunar heimila og fyrirtækja (annarra en þeirra sem eru í eigu téðra glæpamanna. Þau fær almúginn á brunaútsölu.)

Allir eru góðir hver við annan, veðrið er alltaf gott og allt er að verða fullkomið, fyrir utan flórinn sem við erum að moka eftir óráðsíu síðustu ára.

Og þetta er allt ríkisstjórninni að þakka!

Málefnalegur málflutningur? Ekki sérstaklega. En svona hafa sjallar hljómað undanfarin ár og það gekk í lýðinn svo líklega þarf maður að láta svona fram að kosningum ef ekki á allt að fara hér aftur í sama spillingarskítinn að þeim loknum.

Húrra fyrir Jóhönnu!
Áfram VG!
Og Borgarahreyfingin!
Jippú!

Niður með Sjálfstæðisflokkinn!
Úúúúúú!
Fávitar og eyðsluklær!
ALDREI AFTUR!

9.3.09

Hákon Aðalsteinsson – In Memoriam

Vænn og snotur maður er fallinn frá. Einn af þeim sem vill alveg örugglega láta minnast sín með gamansögu.

Téður einstaklingur var húsbóndi heimavistar Menntaskólans á Egilsstöðum þegar undirrituð var þar nemi. Og sjaldan öfundsverður af hlutskipti sínu. Eitt af asnastrikum nemenda var að stofna ofdrykkjusamtök ógurleg sem nefnd voru Vínpís. Voru þau stofnuð til að hleypa enn frekari eldimóði í það sem ungdómurinn stundar gjarnan hvað mest í fávisku sinni, að drekka sig svo svartölvaðan að hvorki viti í þennan heim né annan. Inntökupróf þurftu menn að þreyta til að fá formlega inngöngu í þennan göfuga félagsskap, en það krafðist svo gríðarlegrar áfengisneyslu að mig minnir að formaðurinn sjálfur hafi fallið á því. Sem og flestir aðrir sem þó gerðu sitt allra besta.

Eins og vænta mátti átti húsbóndi heimavistar í þó nokkrum önnum helgina sem tileinkuð var þessum prófraunum. Menn voru að þvælast heim í bæli, ælandi og spúandi, undir morgun, hangandi hver á annars öxlum.

Þá ku Hákon (sem ekkert átti að vita um tilvist samtakanna) hafa mælt þessa spaklegu setningu:
"Ég sé vínið. En hvar er písið?"

Hvíl í friði.

8.3.09

Ef ég hefði einhverntíma átt tvo milljarða

er alveg sama hvað hefði verið mikið góðæri eða hversu marga ég ætti í viðbót. Ég hefði aldrei eytt öllum þessum peningum í einn bát. Mér er alveg sama hvað hann væri flottur.

Tala nú ekki um eða ef ég eða vinir mínir ættu banka sem væri til í að lána mér tvo milljarða. Taka tveggja milljarða lán til að kaupa (skitinn) bát? Aldrei.

En þessir menn eru auðvitað ekki kallaðir Bakkabræður fyrir ekki neitt.

Greinilega ekkert undarlegt að landið sé á hausnum. Fávitarnir sem voru að "geyma" peningana okkar eru borderlæn vangefnir þegar kemur að fjármálastjórnun.