7.5.10

Ég er alveg rugluð...

Það er byrjað að handtaka menn. Og strax er hafin umræðan um að aðbúnaður þeirra í löggustöðinni og á Hrauninu sé alveg hræðilegur og ekki sé mannsæmandi að setja menn í einangrun...
Hvenær var síðast rætt af einhverju viti um aðbúnað fanga?
Jú, þegar Johnsen kvartaði yfir dýnunum.

Til þess að framfarir sjáist í fangelsismálum þarf greinilega að handtaka menn í jakkafötum, annað slagið.

Annars hljóta allir að vera fegnir að þessi mál fari að klárast, hvernig sem fer. Örugglega ekkert þægilegt að vita að maður eigi kannski handtöku yfir höfði sér, og allir brjálaðir útí mann á meðan. Hjálpar nú samt örugglega alveg til við að dreifa huganum ef maður á sosum eins og milljarð eða tvo á góðum stað til að leika sér að.

Og svo kemur Halldór Ásgríms bara allt í einu og er í ruglinu ... ja, annaðhvort það eða ótrúlega margir eru að ljúga. En honum finnst sosum allt í lagi að ljúga ef maður biður bara Guð fyrirgefningar á eftir... eða hvað?

Ég tók varla eftir því hver fréttir og Kastljós hættu og Lost, sem ég var löngu orðin lost í, byrjaði.
Þetta er einhvernveginn allt alveg jafnruglað.

3.5.10

Auglýsingar!

Nú er langt síðan maður hefur plöggað nokkurn skapaðan hlut. En auðvitað er allur andskotinn í gangi og ekki vanþörf á að kjafta frá því öllusaman. Um helgina var aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga haldinn í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd. Þar var gríðarlega mikið um dýrðir dásamleg óvissuferð, fantagóður fundur haldinn og á laugardagskvöldi mætti Þjóðleikhússtjóri og tilkynnti úrskurð valnefndar Þjóðleikhússins um hver væri Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins. Níu sýningar sóttu um að koma til greina. Og í þetta sinn voru það vinir mínir í Hugleik sem hrepptu hnossið fyrir sýninguna Rokk!

Umfjöllun Lárusar Vilhjálmssonar um sýninguna á Leiklistarvefnum.

Þessi niðurstaða kom Hullurum nær sem fjær í opna skjöldu svo allir urðu geypilega glaðir.

Aukinheldur, Leiklistarskúli Meginfélags Áhugaleikara Föroya hefur boðið Íslendingum að mæta frítt á þetta námskeið, svo fremi þeir komi sér sjálfir á staðinn. Um er að ræða námskeið í leikmyndahönnun hjá kalli heitir Jan Nygaard. Ég sá afraksturinn af svona námskeiði hjá honum í Færeyjum í fyrra og kynntist aðeins þessum kalli og hann er hroðalega skemmtilegur. Ef einhver hefur snefil af áhuga á leikmyndahönnun og möguleika á að fara ætti viðkomandi að DRÍFA SIG!

Svo er ótalmargt sem maður þyrfti að sjá í gangi. Leikhús, Listahátíð. Ég veit nú ekki einu sinni hvernig ég ætti að byrja á að plögga það... En ég er allavega búin að panta mér miða á þetta.

Og þá er það að reyna að gera eitthvað af viti. Fyrir liggur að ég þarf að gerast sérfræðingur í ljóðlist Saffóar á þremur vikum, sléttum.
Qua?