22.4.03

Jæja.
Þá eru þessir gífurlega letjandi og fitandi páskar búnir. Við Bára eyddum þeim reyndar á venju fremur skynsamlegan hátt, prjónuðum töskur og lögðum drög að tónverkum. Annars vegar tal- og tónverkinu "Pjetur og úlfurinn" og hins vegar "Hver tók ostinn minn?" sem er (eða verður) sinfónía fyrir blásarasveit. Þar með er búið að skipuleggja verkefni fyrir sumarið.
Ég fór annars á eitt ball með einhverri pjakkahljómsveit, hverrar nafn ég man nú ekki í svipinn, en ku vera einhver vinsæl... Þar var hávaði og margt, margt, margt fólk sem ég habbði ekki séð lengi, lengi, lengi. Gaman, gaman, gaman, fyrir utan hvað allir voru orðnir gamlir, sérstaklega ég sem var í þrjá daga að jafna mig.
Svo er ég búin að vera að lesa ýmislegt skemmtilegt, m.a. bækur úr bókaflokki sem heitir í íslenskri þýðingu "Úr bálki hrakfalla". Hryllilega fyndið og ég mæli hiklaust og eindregið með þessum niðurdrepandi lestri, sérstaklega fyrir Togga og annað kaldhæðið fólk sem finnst gaman þegar slæmir hlutir koma fyrir lítil börn.
Svo er ég að velta fyrir mér að fara að spá í að gera eitthvað í mastersritgerðinni minni... svona einhverntíma. Fyrst þarf ég samt að fara í vinnuna, og örugglega gera svona fimmtánhundruðþúsund merkilegri hluti.

Engin ummæli: