27.8.03

Skortur á verkefnaleysi
Um daginn bauðst mér kennarastaða við öldungadeild Menntaskólans á Egilsstöðum. Henni hafnaði ég þar sem ég hef enga kennslureynslu og ætlaði þar að auki leikfélaginu kvöldin mín á næstunni. Svo frétti ég af vöntun á leiklistarkennara við sömu stofnun, ákvað að freistast ekki til að sækjast eftir henni sökum hugsanlegra anna á næstunni. Í umræðunni hefur verið að ég taki að mér ritstjórn á eins og einu tölublaði tímaritsins Glettings. Þar á bæ hafa menn greinilega ekki frétt af því að síðast þegar ég ritstýrði tímariti lagði ég það niður.
Undanfarið hef ég sem sagt verið frekar dugleg við að taka ekki að mér verkefni, er núna bara í hálfu starfi á safninu, að skrifa MA ritgerð og í sjórn leikfélagsins.
Áðan fékk ég hins vegar símtal sem ég gat ekki staðist. Tilboð um að gerast listgagnrýnandi fyrir Svæðisútvarpið. Að "þurfa" að sækja alla listviðburði á svæðinu, mér að kostnaðarlausu og blaðra síðan um þá í útvarpið, fyrir péníng.
Við sumu er bara ekki hægt að segja nei. Fundað verður um þetta mál á mánudagsmorgun.

Er á leiðinni upp í Valaskjálf að skrúfa í sundur gamlar leikmyndir og taka til.
Jibbíkei!

Engin ummæli: