19.11.03

Uppáhalds...
Við vorum að rífa niður leikmynd dauðans í gær og setja hana í geymslu, ef það martraðarkennda happ skyldi nú henda LF að við "fengjum" að fara með sýninguna í Þjóðleikhúsið og púsla öllu draslinu upp þar. Þegar ég var búin að senda öll karlmenni með draslið í burtu og var ein eftir að dudda mér við að þrífa sviðið (eins illa og ég mögulega kæmist upp með) fór ég að rifja upp uppáhalds setningarnar mínar úr hinum ýmsustu leikritum. Svo sem:

Fiðlarinn á þakinu: "Ég fæ að ferðast með lest og bát!" Dásamleg setning sem krakkaormurinn ég var látin æpa þvert ofan í dramatíska kveðjusenu þegar búið var að reka alla gyðingana í burtu frá Anatevka.

Kardemommubærinn er náttúrulega fullur af klassískum gullpunktum. "Ég kann bara eitt kvæði og það á ekki við hér" hlýtur þó að standa upp úr.

Fáfnismenn er fullt af snilldartexta. Þó er eitt samtalsbrot sem stendur upp úr í minningunni:

Tómas: Getur þú aldrei tekið nokkurn skapaðan hlut alvarlega?
Benedikt: Dauðann og djöfulinn. Annað er hjóm.


Svar sem ég er ennþá að bíða eftir að fá tækifæri til að nota.

Og svo náttúrulega: Þið eruð hreinræktuð idíót, það verður engin fjandans hæna.

Embættismannahvörfin eiga nokkur samtalsbrot. M.a.:

Biskup: Er einhver með eldspýtur?
Korpa: Sjálfur geturðu verið mélskítur.


og

Júlía: Þú ert freknóttur!
Friðþjófur: Ég er það. Þó er ég fyrst og fremst fósturbarn.


Svo var ég að fatta að ég man ekki neitt úr mínum eigins leikritum til að hafa fyrir uppáhaldssetningar. Nema ef vera skyldi í Ungir menn á uppleið:

Kokkur (heyrist öskra framan úr eldhúsi): Ætlar enginn að taka þennan helvítis humar!?

Hún er bara eitthvað svo heimilisleg.

Svo er náttúrulega nýlokið sýningum á Gaukshreiðrinu. Þar á ég alveg skýlausa uppáhaldssetningu:

Ratched (í hljóðkerfið út úr hjúkkubúrinu): Viltu gjöra svo vel að liggja ekki á glerinu! Það koma fingraför!

Svo eru náttúrulega nokkrar setningar sem verða að teljast til uppáhalds þó þær hafi nú bara verið notaðar í lífsins spuna. Þessi varð t.d. til um veslunarmannahelgi 1992 upp úr andnauðgunaráróðri og auglýsingum:

Nei þýðir nei
en
nei er ekkert svar
svo
segðu bara kókómjólk. Það skilja allir.


Fyndin samtalsbrot heyrir maður líka stundum úr tjöldum um útihátíðahelgar. Við heyrðum tvær góðar sumarið 1997:

Heyrt í Eyjum:
Þessi ferð kostaði þig... eitthvað... tólf þúsund... eitthundrað og... fjörutíu krónur... og þú bara sefur!

Heyrt í Þórsmörk:
...og svo ætla þau bara að gifta sig og vera hamingjusöm til æviloka. Hvað er eiginlega að fólki!?!

Endum á einni uppáhalds úr menntaskóla. Úr Öddu eftir Jennu og Hreiðar:

Og þá sagði konan það ljótasta sem Adda hafði nokkrun tíma heyrt. Hún sagði: Adda, þú ert kjáni.

Okkar viðbót, í anda kjaftháttar barna nú til dags:

Þá sagði Adda: Halt þú nú bara kjafti helvítis tussan þín og fróaðu þér á naglaspýtu. Þú getur bara sjálf verið kjáni.

Við þetta svar er síðan hægt að bæta fúkyrðum eftir því sem andinn blæs manni í brjóst.

Er að fara á sýningu á Fáskrúðsfirði í kvöld til að rýna í. Ætla að reyna að skoða ljósmyndasýningu á Eskifirði í leiðinni.
Tóm gleði.

Engin ummæli: