28.9.04

Núna eru 24 dagar þangað til ég á að fá PiparPenthásið mitt afhent.

Auðvitað er ýmsu óreddað, eins og til dæmis heilum haug af peningum, en samt sem áður getur mar náttlega ekki stillt sig um að láta sig dreyma um hvernig allt lífið muni breytast, eins og hendi verði veifað, þegar búseta verður hafin í Húsinu mínu.

Hér eru nokkrar helstu framtíðarhorfur:

1. Ég þarf að komast að því hverjir hafa búið á hanabjálkanum mínum, helst frá upphafi (a la Sesselja Agnes, fyrir þá sem þá bók þekkja) og helst vil ég að Þórbergur Þórðarson hafi leigt þar sem fátækur námsmaður. Mun allavega bera þær sögur út.

2. Fyrir kraftaverk mun ég hætta að reykja, eiga alltaf margar tegundir af te og gera jógaæfingar á morgnana. Eignast allskonar baðdót með blómailmum og fara í kertaljósaböð í tíma og ótíma með innhverfri íhugun.

3. Mun ekki detta íða um helgar, sökum nálægðar við miðbæinn, heldur sitja heima í nýja ruggustólnum, hlusta á rás 1 eða klassíska tónlist og prjóna, eða lesa eitthvað af merkilegu bókunum sem hingað til hafa bara verið snobbað hilluskraut.

4. Mun ekki fleygja mér eins og örvæntingarfull lóðatík fyrir fætur fyrsta mannvesalings sem lítur á mig tvisvar, heldur bíða Alveg Róleg, með Reisn, Innri Kyrrð og Æðruleysi, eftir Hinum Eina Rétta. (Einhvern tíma geri ég svo tékklista yfir hvaða kröfur H.E.R. skal uppfylla.)

5. Á meðan ég bíð mun ég eyða afgangs orku í að skrifa Ódauðleg Meistaraverk og stefna á Nóbel. Ævinlega óaðfinnanlega tilhöfð.

6. Ég mun baka og elda af hjartans lyst, eins og hver önnur aðalpersóna í Snjólaugarbók og halda fámenn og innileg matarboð með exótískum smáréttum og heimpekilegum rökræðum um listir og menningu. Gjörning þennan mun ég jafnan fremja íklædd jarðarlituðum þægindaklæðnaði með viðeigandi lýsingu og tónlistarvali.

Sem sagt, 1 Artífart Miðbæjarrotta, coming up!

Engin ummæli: