10.2.06

Hvernig er að vera orðin mamma?

Finnst mér undarleg spurning. Ég haf nefnilega satt að segja ekki orðið vör við miklar persónuleikabreytingar við það að hafa allt í einu eina Freigátu hangandi í brjóstunum á mér. Enda eignaðist ég eiginlega Smábát í ágúst sl., en varð ekki vör við persónuleikabreytingar þar heldur. Nema kannski að mér vaknaðist einhver áhugi á uppeldis- og skólamálum.

En ég er ekki að upplifa neinar dramatískar sviftingar yfir því að í heiminn skuli vera manneskja sem sennilega mun vísa til mín sem "mömmu" í framtíðinni. Fyrir var ég jú dóttir, systir, vinkona, barnabarn, frænka, heitkona og illa monstrið hún fyrrverandi. Held mig muni nú bara ekkert um einn titil í viðbót.

BTW, Freigátan er orðin hin eftirsóttu 4 kíló þannig að nú förum við að bregða okkur útfyrir, um leið og tími gefst til að föndra saman vagninn.

Og, undanfarið er ég búin að vera að tína upp hamingjuóskir á hinum ýmsu bloggum úti um allt. Þakka hér með fyrir þær allar, á einu bretti þar sem ég hef ekki haft sinnu á að svara þeim í kommentakerfum.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það fer eiginlega eftir því hvað persónuleiki er! En áhugamálin breytast, ný þekking heldur innreið sína og umræðuefnin breytast... eins og alltaf þegar einhverjar RÓTTÆKAR breytingar verða á lífi manns.
Mömmum finnst aðrar mömmur skemmtilegar og eru oftast til í alls konar mömmu umræður (fæðingin, sárar geirvörtur og allt það).
Við getum hins vegar orðið ansi þreytandi fyrir þær vinkonur okkar sem ekki eiga börn... en það getur líka gerst ef við fáum einlægan áhuga á Greenpeace eða Herbal Life. Það hafa bara ekki allir sömu áhugamál og sömu hugðarefni... punktur

Nafnlaus sagði...

Og svo breytist tilveran glettilega drjúgt svona skipulagslega séð - svona eins og að hringja heim í hléinu þegar mar bregður sér í leikhús ... Ég áttaði mig líka einu sinni á því að móðurhlutverkið hafði skerpt heyrnina óþægilega - áður fyrr gat ég lesið og lært í stökustu ró og næði innan um aðskiljanlegasta hávaða - svo allt í einu urðu eyrun eilíflega sperrt, alltaf fínstillt inn á hljóð í barnanganum hvort sem hún var til staðar eða ekki. Eins gott að stúlkan var orðin sæmilega stálpuð þegar hafist var handa við leiklærdóm!

Sigga Lára sagði...

Já, þetta með mömmuumræðurnar held ég reyndar að sé ekki algilt. Núna eru liðnir 13 dagar, og ég er búin að missa áhugann fæðingum, minni sem og annarra. Stend mig að því í auknum mæli, daglega, að snúa út úr og fara að tala um eitthvað annað þegar ég er spurð út í líðan "íenni" eða ástands geirvartna.

Og mér finnst skipulagið í lífi mínu oft hafa breyst meira en núna. Og sjaldan hef ég vitað jafn vel hvað ég var að fara útí. En mér finnst ég samt ekki hafa "orðið" neitt.

Nafnlaus sagði...

Frábært að hún skuli vera orðin fjögur kíló!! Sjálf hef ég aldrei fætt barn undir fjórum kílóum og því aldrei glaðst sérstaklega yfir því að hlunkarnir mínir væru "orðnir" fjögur kíló. Og allir hafa þeir náð tíu kílóa þyngd sex til níu mánaða. Þá fyrst fer að síga í. Ég blóðöfunda alltaf hreint konur sem eignast "smábörn" sem hægt er að halda pent á og gera eitthvað með hinni höndinni um leið.
Þú verður alltaf hins sama elskan mín. Góð og yndisleg. Bara MAMMA!!

Berglind Rós sagði...

Blessuð vertu, þú sérð ekki breytinguna fyrr en þú horfir til baka eftir svona eitt til tvö ár. Svo reyndar veit ég ekki hvort það er þannig hjá öllum, en það tók mig langan tíma að finnast ég vera alvöru mamma. Kannski af því ég var svo lengi búin að vera "hálfmamma".

Spunkhildur sagði...

Mér finnst það svolítið fjólublátt, jafnvel út í grænt.

fangor sagði...

"mömmu finnast aðrar mömmur skemmtiegar"... bwahahaha,haha, haha...