14.3.06

Pakkahugmynd

Mér finnst Stöð 2 ætti að setja saman fæðingarorlofsáskriftir. Mig vantar alls ekki fleiri stöðvar á kvöldin. Það er nógu erfitt að púsla saman öllu sem ég VERÐ að sjá. (Hef aldrei áður verið húkkt á jafnmörgum sjónvarpsþáttum í einu.) En á daginn er ég alltaf að lenda fyrir framan sjónvarpið, með barn á brjóstunum og er óhreyfanleg á meðan, og ég er búin að komast að því að dagsjónvarpið samanstendur af tónlistarmyndböndum og Guiding Light. Mig vantar sem sagt Stöð 2 á daginn í 6 mánuði. Mér finnst þetta snilldarhugmynd fyrir Stöð 2. Fæðingarorlofspakkar. Dagáskrift í 3-6-9 mánuði. Ég væri líka til í að vera með helgaráskrift. Jámjám. Ég ætti sennilega að skrifa markaðströllunum á Stöð 2. Þá gæti ég notað hina skemmtilegu undirskrift:

Húsmóðir í Vesturbænum.

3 ummæli:

Gadfly sagði...

Ég er með hugmynd fyrir þig. Þú getur tekið upp hina fræðilegu og áhugaverðu þætti "fyrstu sporin". Þar er ýmis fróðleikur sem ekki er við að búast að nýbakaðir foreldrar átti sig á. T.d. hefur komið fram í þessum þáttum að það valdi verulegum breytingum á daglegu lífi að eignast barn og að það sé mikið ævintýri. Þessa þætti geturðu horft á aftur og aftur og aftur á meðan þú áttar þig á því hvað móðurhlutverkið snýst um.

Nafnlaus sagði...

Þótt ég geti ekki tjáð mig mikið byggt á eigin reynslu af brjóstagjöfum get ég þó nefnt að mágkona mín komst að því að Friends þættir væru af mjög hæfilegri tímalengd fyrir drykkjutilþrif dótturinnar. Hún fékk því lánaðar flestallar seríurnar á DVD og ég veit ekki annað en þeim mæðgum hafi báðum líkað vel.

Þannig að ef Stöð 2 vill ekki leika má kannski nota tækifærið til að vinna sig í gegnum einhverja klassíska sjónvarpsþætti.

Berglind Rós sagði...

Ég er með Sky áskriftarpakka og þar er sko almennilegt daytime television, ég get bara ekki beðið eftir að komast í fæðingarorlofið! ;-) Síðast var ég ekki með neitt, horfði bara á útsendingu frá Alþingi og skjáleikinn allan daginn, úff...