6.6.06

Hugleiðingar á degi skepnunnar

Bubbi á afmæli.
Hann á nú alveg eitt og eitt gott lag.
En ég er ekki viss um að það sé gott að elska hann.

Mér er svo sama um Framsóknarflokkinn.

Í dag sóttum við um húsaleigubætur. Það er bara búið að standa til síðan í ágúst sl.
Og margt fleira á listanum kláraðist líka í dag, og er það vel.

Og ég er búin að panta mér tíma í róttæka afhárun höfuðs míns á fimmtudaxmorgun. Það er allt að detta af hvortsemer. Ég ætla að fá mér alveg ofurstutt hár.

Freigátan er búin að uppgötva að hún hefur nokkuð kraftmikla rödd, og getur framleitt með henni ótrúlegustu hljóð. Þessa dagana liggur hún löngum á gólfinu og skrækir eins og reiður máfur. Og í kvöld reyndi ég að byrla henni útrunninni þurrmjólk. Hún vildi hana ekki. Skiljanlega.

Annars er ég öll að drepast í mjöðmunum og bakinu og almennt bara öllum hjörum líkamans. Síðasti jógatíminn er á morgun og svo er planið að vera dugleg í sundinu fyrir norðan og reyna að komast í höfuðbeina- og spjaldhryggsleiðréttingu hjá honum Eymundi fyrir austan. Þar með er ég búin að "gera eitthvað í þessu" alveg hringinn í kringum landið. Svo er ég farin að finna einhverjar undarlegar perversjónir hjá mér í þá átt að spekúlera voða mikið í mataræði og enda örugglega sem einhver gulrótarsafadrekkandi, lífrænt ræktandi, holier than thou, jógaspíra. Sem ég hef einmitt gjarnan fyrirlitið svo innilega, í laumi.

Já, maður veit aldrei hvaða fyrirlitning á eftir að bíta mann í rassgatið.

Og hví ritræpan?
Tja, kannski af því að ég var að byrja að trappa niður geðlyfin?

Engin ummæli: