16.3.08

Jább

Ég verð að viðurkenna það. Ég var sennilega víðfeðmari og skemmtilegri bloggari áður en ég fór að hrúga niður börnum. Raxt á einn góðan lista frá 2005 um hvað væri helst til marx um að maður væri orðinn fullorðinn. Þá var ég aðeins orðin það skv. liðum 8-10. Tökum stöðuna:

1. Þegar maður nennir að ryksuga og þurrka af á laugardögum. Alltaf.
Neibb, ég er hrædd um að það sé ekki komið.
2. Þegar maður er farinn að takmarka sjónvarpsáhorf við fréttir og heimildamyndir.

Nei. Hvorki alveg né aldeilis. En heimildamyndir eru þó komnar á áhorfslistann.
3. Þegar maður er farinn að þvo bílinn reglulega, og finnast það gaman.
Nei. Ómögulegt. Bifreiðar eru vítisvélar Zatans sem ekki eru hannaðar til að hægt sé að þrífa þær. Enda myndi ég aldrei nenna að eiga bíl nema ég eigi líka mann til að þrífa hann með. Rannsóknarskip þarf að gera það á morgun. Hann er fullorðinn.
4. Þegar manni er farið að finnast ekkert mál að gera skattaskýrsluna sína.
Tja. Mér finnst ekkert mál þegar Rannsóknarskip gerir skattaskýrsluna mína.
5. Þegar mann er stundum farið að LANGA til að fá sér ný gluggatjöld.
Jáháts. Mig langar það reglulega, nú orðið, og líka í hillusamstæður og allskyns. Og ruggustól.
6. Þegar maður er farinn að skilja hvað það þýðir þegar seðlabankinn hækkar stýrivexti.
Já. Kemst ekki hjá því. Sé það á helv... reikningunum.
7. Þegar maður hlustar alltaf bara á rás 1 í útvarpinu.
Já. Þannig er það orðið!
8. Þegar maður verður hræddur ef manni verður á að labba niður í bæ á laugardaxkvöldi vegna skrílsláta í ungdómnum nú til dax.
Já, ekki spurning. Ennfremur verð ég mjög pirruð þegar ungdómurinn nú til dax heldur partí á efri hæðinni.
9. Þegar manni er farið að þykja reglulega gaman í vinnunni.
Já. Myndi aldrei nenna að vera í vinnu sem ekki væri gaman í. Lengur. Núna vinn ég reyndar aðallega heima hjá mér og skóla og þannig, en það er alveg gaman. Jájá.
10. Þegar maður er farinn að eiga kunningja sem eru ömmur og afar.
Já, þekki haug af ömmum og öfum. Og þaraðauki eru foreldrar í kunningjahópnum komnir í afgerandi meirihluta.

Semsagt, eftir 31s. Þá gerist það.

Engin ummæli: