27.5.08

Kraftaverk

Fram yfir þrítugt var ég haldin meinlegum misskilningi. Ég hélt að til að vinna ástir manns, verðskuldað, þyrfti ég að gera Kraftaverk í lífi hans. Ég leitaði einatt uppi menn sem ég taldi kraftaverks þurfi. Ég myndi Bjarga þeim frá sinni óyndislegu tilvist og veita þeim Hið Fullkomna Líf eftir minni skilgreiningu sem einnig væri alheimsins. Í staðinn myndu þeir knékrjúpa mér grátklökkir í eilífri þakklátsemi fyrir Kraftaverkið og veita mér að launum eilífa ást og hamingju til æviloka.

En undantekningalaust komu böbb í bátana.

Sumir reyndust hreint ekki jafnkraftaverksþurfi og ég hugði heldur voru allsendis hamingjusamir í sinni tilvist. Þeim kastaði ég umsvifalaust fyrir róða þar sem ég gat ekkert gert til að finnast ég verðskulda ástir þeirra og elskulegheit.
Aðrir deildu hreint ekki áliti mínu á eigin þarftir, þreyttust fljótt á kraftaverkabröltinu og hurfu á önnur mið.
Enn aðrir þurftu mikið á krafraverkum í lífi sínu að halda en gátu samt lítið gagn haft af mínum tilraunum til slíkra viðurgjörninga vegna þeirrar einföldu staðreyndar að kraftaverkin í lífinu verðu hver að velja og fremja fyrir sig.

Þetta tók mig ein 15 ár að skilja. En ég er fegin að það tóxt á endanum. Hef grun um að margir búi við þessa skynvillu.

Ég tók til við að horfa eftir mönnum með lífið uppum sig sem væru þá frekar tilkippilegir við að gera mitt líf sælla og indælla. Og tók um leið til við að horfa til kraftaverkasmíða í mínu lífi sjálfrar.

Nú er ég Kraftaverkið í lífi Rannsóknarskips og hann í mínu og saman ölum við önn fyrir þremur Kraftaverkum í viðbót sem ég vona að eigi aldrei eftir að búa við þann misskilning að þau þurfi að vinna sér inn ástir annarra með kraftaverkagjörðum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið var þetta eitthvað Krúttleg færsla!
Algjört kraftaverk!

Siggadis sagði...

Ætlaði að koma með eitthvað gáfulegt... en sé að það er sama hvað ég segi... það er alltaf eitthvað hægt að lesa á milli línanna :-)

Lífið er bara kraftaverk!