16.5.08

Ynnnndislegt

Fyrsti morguninn síðan ég man eftir mér sem ég þarf bara ekki að vera að gera neitt... ja, nema huxa um ungabarnið og heimilið. En Hraðbáturinn sá sér óvenjulítið fært að vera vakandi í morgun og er sofnaður aftur, og Bára syss er líka sofandi í skrifstofuherberginu sem ég þarf að klára að tæma þannig að ég er búin að hafa frábæra afsökun til að sitja með kaffið mitt, lesa moggann spjaldanna á milli, og lesa síðan slatta af sjálfri mér. Var að fatta að fyrir ári síðan var ég alveg heilmikið fræg. Og með hálfgert vorþunglyndi. Svo ég er greinilega öll á uppleið. Vorlyndið hefur bara ekkert látið á sér kræla, þetta vorið.

Svo er Óskastundin hennar Gerðar G. í útvarpinu. Í þeim þætti eru jafnan spiluð mörg, skemmtileg lög, og eiginlega alltaf eitthvað sem minnir mann á Leiklistarskólann í Svarfaðardalnum. Í dag er ég búin að heyra lag sem ég heyrði fyrrverandi skólastýrur stundum syngja, eitthvað, Vorið kemur, heimur hlýnar... og þannig. Í þessum þætti heyrir maður líka reglulega Svarfaðardal, stundum Vel er mætt, Næturljóð úr Fjörðum og fleira og fleira bandalískt. Alltaf arfagóð byrjun á föstudeginum þegar ég man eftir að hlusta á þennan þátt.

Og nú ætla ég loxins að byrja að skrifa söguna af því hvernig ég varð næstum innfæddur Hugleikari, en samt ekki.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sunnan yfir sæinn breiða
sumarylinn vindar leiða
draumalandið himinheiða
hlær og opnar skautið sitt
vorið kemur, heimur hlýnar
hjartað mitt.

Gakktu útí græna lundinn
gáðu fram á bláu sundin
mundu að það er stutt hver stundin
stopult jarðneskt yndið þitt
vorið kemur, heimur hlýnar
hjartað mitt.

Allt hið liðna er ljúft að geyma
láta sig í vöku dreyma
sólskinsdögum síst má gleyma
segðu engum manni hitt....
vorið kemur, heimur hlýnar
hjartað mitt.....

Rifjast þetta upp fyrir þér núna elskan??
Ylfamist